Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:41:24 (2780)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. eyddi fyrsta hluta ræðu sinnar í það að skýra nánar út málflutning hv. 15. þm. Reykv. í svari hennar við fyrirspurn minni. Í raun og veru var þessi nákvæma útskýring þingmannsin óþörf vegna þess að svar Kristínar Einarsdóttur var fullkomlega eðlilegt og skýrt. Hún sagði með öðrum orðum óbeint að eina stjórnarskrárbreytingin sem væri nauðsynleg vegna EES-samninganna væri breyting á 21. gr. og sú breyting sem á sér stað með þessu frv. nægði til þess að það væri hægt með auknum meiri hluta að samþykkja frv. um EES. Þetta sagði hún og það stendur eftir.
    Þá kemur bara þessi spurning: Í öllum málflutningi hv. þm. sem hafa talað með frv. hefur það verið fullyrt að hér væri um valdaafsal að ræða. En 21. gr. stjórnarskrárinnar fjallar ekkert um það hver á að fara með valdið. Það er 2. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um það. Samt er engin tilraun gerð til þess að breyta því stjórnarskrárákvæði. Þetta stenst því ekki. Skýringar þingmannanna ganga ekki upp nú frekar en áður. Þetta er enn jafnbotnlaust þrátt fyrir tilraunir þessara þingmanna til að skýra þetta.
    Ég vil einnig taka það fram, af því að ég á tíma eftir, að mér þykir það svolítið skrýtið að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi ekki flutt frv. sitt um aukinn meiri hluta þegar ætla mætti að að hans eigin áliti hefði verið full þörf á flytja það vorið 1991 þegar hans eigin flokkur sigldi fullum seglum inn í EES-samkomulag með víðtækara valdaafsal en nú er gert ráð fyrir.