Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:53:40 (2787)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru hæstv. utanrrh. vil ég gjarnan koma á framfæri þeim svörum sem hann hafði undirbúið að færa hv. 3. þm. Norðurl. v.
    1. Spurningin um hvort Sviss sé líklegt til þess að fella samninginn. Utanrrn. telur á því minnkandi líkur þar sem skoðanakannanir sem framkvæmdar hafi verið í gær sýni vaxandi stuðning við samninginn.
    2. Fari samt svo að Sviss felli samninginn hvað gerist þá? Þá gengur samningurinn ekki í gildi þar sem öll aðildarríkin 19 verða að hafa afhent fullgildingarskjöl fyrir árslok til þess að svo megi verða.
    3. Hvert verður þá framhald málsins? Þá gerist það að hin ríkin 18 verða að meta stöðuna. Aðalatriðið í því mati er að sé til þess pólitískur vilji er nóg að orðið Sviss verði strikað út alls staðar þar sem það kemur fyrir í samningnum og samningurinn getur þá gengið í gildi svo breyttur.
    4. Þarf þá að leggja samninginn svo breyttan fram aftur til samþykktar í heild sinni? Svarið við því er nei. Það er nóg að leggja fram þá viðauka sem við samninginn þyrfti að gera eftir slíka breytingu til samþykktar.
    5. Hvað um hliðarsamninga við aðalsamning svo sem um dómstól og eftirlitsstofnun? Þar telur utanrrn. að sé um að ræða tvo möguleika: Í fyrsta lagi þann möguleika að Sviss segi sig úr EFTA og þá þarf engu að breyta þar um. Í öðru lagi: Segi Sviss sig ekki úr EFTA gerist það að dómstóllinn og eftirlitsstofnanirnar breytast í hliðarstofnanir EFTA og samkomulagið þar um stendur áfram fyrir sínu.
    6. Þá hefur verið spurt: Hvað þá um hliðarsamninginn um umferð um Alpana? Sá samningur er tvíhliða samningur og hefur þegar verið staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss og sá samningur stendur.
    7. Þá hefur einnig verið spurt: Hvað um þróunarsjóðinn staðfesti Sviss ekki EES-samninginn? Svarið við því er að þá getur tvennt gerst: Í fyrsta lagi stendur samningurinn án aðildar Svisslendinga og án greiðsluþátttöku þeirra. Eða ef Evrópubandalagið kynni að krefjast þess skipta hin EFTA-ríkin á milli sín hlut Sviss. Að mati utanrrn. eru litlar líkur á því þar sem flest hin EFTA-ríkin hafi hvort sem er sótt um beina aðild að Evrópubandalaginu og taki þar á sig þrefaldar til fjórfaldar þær greiðslur sem þarna er um að fjalla.
    Það er því álit utanrrh. og utanrrn. að engin ástæða sé til annars en halda áfram umfjöllun um þennan samning með eðlilegum hætti.