Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:16:48 (2800)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er ekki hér til að svara fyrir einn eða annan sem fjallaði um þetta mál á þeim tíma. Ég túlkaði mín viðhorf og hef rakið með hvaða hætti það var gert. Ég kannast ekki við það að hæstv. þáv. forsrh. hafi kveðið upp úr með það í þessari grein að það væri ekkert að óttast í sambandi við íslensku stjórnskipunina. Ég man ekki eftir því, það kann að vera. En ef slík ummæli eru til, þá standa þau auðvitað. En ég minnist þess ekki úr þessari svargrein en það má athuga.
    Hitt atriðið sem hv. þm. vék að í sambandi við Stefán Má Stefánsson og að ég hafi vitnað til hans á fyrri stigum. Það er alveg rétt. Ég gerði það en ekki í samhengi við þessa nefndarskipun og álit sem hann reiðir síðan fram. Hv. þm. byrjaði á því í kjallargrein í DV fyrir allnokkru síðan að vekja máls á því að það hafi komið opinber greinargerð frá ríkisstjórn Íslands um þetta mál 5. mars 1991. Ég ætla að vísu ekki að fara að svara fyrir ríkisstjórnina á þessum tíma því mig greindi á um eitt og annað sem þá var á dagskrá sem tengdist þessu máli en ég bað um það í forsrn., eftir að grein þingmannsins birtist, núv. formanns utanrmn., að þessi greinargerð yrði útbær og ég fengi hana og bað um að hennar yrði einnig leitað í forsrn. fyrir hönd ríkisstjórnar. Ég fékk þau svör þaðan að hún fyndist hvergi og engin slík greinargerð lægi fyrir. Það var hins vegar lagt fram á Alþingi svar utanrrh. dags. 5. mars, að ég hygg, við skýrslubeiðni þingmanna Sjálfstfl. um þessi efni þar sem vitnað er í greinargerð vinnuhóps V um þessi atriði. Ekki mat ég það svo að þetta væri svar ríkisstjórnar Íslands en það er greinilega útlegging hv. þm.