Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:19:09 (2801)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ekki veit ég hvernig starfað var að málum í þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. studdi á sínum tíma og gaf út þetta álit um að samningurinn bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Ég þekki ekki þau vinnubrögð en niðurstaðan liggur skýr fyrir í þessari skýrslu sem lögð var fram á Alþingi.
    Það kom einnig fram í grein hæstv. fyrrv. forsrh., opnu bréfi til hv. þm., að það væri ekkert að óttast við þessa samninga. Telur þingmaðurinn líklegt að hæstv. þáv. forsrh. hafi lýst þessu yfir ef hann hefði talið að samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána? Nei, hann tók af skarið í þessari grein um það og svaraði þingmanninum og dylgjum þingmannsins um það á þeim tíma að verið væri að fremja stjórnarskrárbrot með þessar grein og tók af skarið um að það væri ekkert að óttast. Forsrh. hefði að sjálfsögðu

ekki lýst því yfir að samningurinn væri hættulaus fyrir íslensku þjóðina ef um stjórnarskrárbrot væri að ræða.
    Varðandi það sem hv. þm. hefur sagt um Stefán Má Stefánsson prófessor þá er það skýrt og liggur fyrir opinberlega að áður en Stefán Már Stefánsson prófessor lýsti því yfir að samningurinn bryti ekki í bága við stjórnarskrána taldi hv. þm. mjög mikils virði að fá hans álit. Eftir að þetta álit liggur fyrir gengur þingmaðurinn fram fyrir skjöldu til að gera prófessorinn tortryggilegan.