Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:20:36 (2802)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þessi málflutningur er tæplega sæmandi þingmanni sem vill láta taka sig alvarlega. Ég verð að segja það. Hv. þm. kemur hér og fullyrðir að fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, hafi staðhæft það í opnu bréfi að samningurinn um EES, þ.e. samningsdrögin, brytu ekki í bága við stjórnarskrána. Síðan kemur hann hér og dregur í land. Hann er ekki með neinar tilvitnanir hér orðum sínum til staðfestingar.
    Ég ætla svo sannarlega ekki að fara að gera lítið úr Stefáni Má Stefánssyni prófessor og hans störfum og þekkingu. Það dettur mér ekki í hug. Það sem ég er að gagnrýna er það að setja hann í þann vanda og þá óhæfu stöðu að eiga að veita álit í máli sem hann er búinn að vera sérfræðingur í fyrir framkvæmdarvaldið. Það er það sem gengur ekki upp. Ég er satt að segja aldeilis hissa á formanni utanrmn. að vilja ekki opna augun fyrir jafnaugljósum hlut, að slíkt er ekki boðleg málsmeðferð.