Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:51:24 (2809)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef nú tvívegis hlýtt á vel unnar ræður hv. 6. þm. Reykv. sem hefur farið yfir það lið fyrir lið hvað hún telur vera að því frv. sem hér hefur verið flutt og er á dagskrá. Eftir sem áður skil ég ekki niðurstöðuna, þ.e. hvers vegna hv. þm. leggur ekki til að málið sé fellt. Hvað veldur?
    Hér hafa flokksbræður hv. þm. ekki á jafnskipulegan hátt en engu að síður með ákveðnum meiningum talað í þessu máli. Hér hefur hv. þm. Tómas Ingi Olrich, 5. þm. Norðurl. e., talað og haldið því mjög á lofti að þetta frv. breyti engu um að ekki sé hægt að samþykkja neina erlenda samninga sem fela í sér valdaafsal nema að 2. gr. stjórnarskrárinnar sé breytt. Gott og vel. Ef við tökum hann trúanlegan, sem ég ætla ekki að rengja, þá hlýtur hann einfaldlega að leggja til að þetta frv. verði fellt.
    Hér hefur talað hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason. Hann hefur talað mjög strítt og ekkert legið á sínum skoðunum í þessu máli. Allur hans málflutningur hefur verið á þann veg að það ætti ekki að vera neitt vafaatriði að í hjarta sínu telur hann að það beri að fella þetta frv.
    Hér hefur talað hæstv. forsrh. þegar málið var fyrst á dagskrá og talið óskynsamlegt að sitjandi þing hefði það vald að 3 / 4 hlutar þess gætu afsalað einhverju af því sem talað hefur verið um að hægt væri að afsala yrði þetta samþykkt. Talað strítt á þá vegu. Hvers vegna á þá að vísa frv. til ríkisstjórnarinnar til þess að það þvælist í pappírsbunka á borðinu hjá henni? Þeir eru menn til að ná í nýjan pappír og nýja menn til að semja frv. ef þeir vilja breyta stjórnarskránni. Hvers vegna leggja þessir menn ekki til að frv. sé fellt? Það er nánast óskiljanlegt.
    Ég hef mjög oft tekið þátt í því að vísa frv. til ríkisstjórnarinnar með rökstuðningi þegar mat mitt og annarra í viðkomandi nefnd hefur verið á þann veg að það sé svo mikið jákvætt í frv. og svo margt skynsamlegt í því að nú sé eðlilegt sest verði yfir þá vinnu af sérfræðingum og þeir með stuðningi ríkisstjórnarinnar komi með niðurstöðu sem er viðunandi. Þannig tæki þingið svo málið upp aftur.
    Nú er í þessu tilfelli ekki um það að ræða. Það er starfandi stjórnarskrárnefnd. Það þarf ekkert að hafa neina sendingu til ríkisstjórnarinnar til að hafa það vakandi að menn vinni að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Sú vinna fer fram. Auðvitað eru þeir nú þegar búnir að ná sér í þessi frv., eru með þau í sínum gögnum og eru að skoða þau. Hvers vegna þarf málið að fara til ríkisstjórnarinnar og þaðan til stjórnarskrárnefndar? Hvað hefur eiginlega komið fyrir? Hvers vegna leggja þessir hörðu ræðumenn og þingmenn sem eru svo vissir í sinni sök í þessum efnum ekki til að frv. sé fellt?
    Þegar ég í örstuttu andsvari við ræðu hv. 6. þm. Reykv. ber fram þá einföldu spurningu: Hvers vegna er lagt til að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna er ekki lagt til að þetta verði fellt? Þá er ekki borið upp neitt andsvar við því. Ekkert svar kemur við því í seinni ræðunni en áfram verið að benda á það hversu gjörsamlega vonlaust þetta frv. sé.
    Hugsið ykkur hvílík vinna það er fyrir ríkisstjórnir ef öll vonlaus frv. sem sett eru af stað í þinginu eru bara send þeim til að þvælast fyrir. Það gengur náttúrlega ekki. Þarna brestur stórkostlega mikið á í rökhugsuninni. Ef það þýddi að frv. eins og hér hefur verið lagt til væri þar með algjörlega skoðunarlaust á næstu árum gæti þetta átt rétt á sér en það er starfandi stjórnarskrárnefnd. Af hverju er ekki allt í lagi að hún fái þetta frv. með póstinum? Hvað er að póstinum? Þurfa ráðherrar að vera sendisveinar til þess að hægt sé að koma þessu til þeirrar nefndar? Mér finnst það nánast misnotkun á þeirra vinnutíma að fara fram á að þeir gerist bréfberar í þessum efnum.
    Þess vegna skil ég þetta alls ekki. Ef á bak við þetta liggur aftur á móti hugmynd um að menn ætli sér að útvíkka frv. sem hér liggur fyrir svo mikið að fyrir næstu alþingiskosningar sé rétt að renna því í gegnum þingið og hafa það svo sem aðgöngumiða að því að ganga inn í EB á eftir kosningar, þá væri kannski komin skiljanleg ástæða fyrir því að menn vildu sérstaklega senda þetta til ríkisstjórnarinnar, þannig að stjórnarskráin sem heild yrði ekki tekin fyrir, heldur aðeins útvíkkað frv. til heimilda. Ef ég hef hlustað rétt á flm. þá var það tekið sem dæmi að Danir hefðu fyrst notað þessi ákvæði þegar kom að því að ganga inn í EB. Nú kinkar hv. flm. meirihlutaálitsins kolli. Var þá bara verið að fara fram á það að geyma þetta í pússi ríkisstjórnarinnar þar til rétt fyrir kosningar, demba því þá inn dálítið útvíkkuðu og nota það svo sem heimild til að keyra það í gegnum þingið á eftir? Það er ekki nauðsyn að hafa það 3 / 4 hluta. Það er hægt að breyta þessu á annan veg. Er það eitthvað slíkt sem vakir fyrir mönnum?
    Ég tel að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sé best komin hjá stjórnarskrárnefnd úr því sem komið er. Ef sú sérskipaða nefnd sem fékk þetta verkefni treystir sér ekki til að leysa það með því að koma með breytingartillögur við þetta frv. þannig að málið sé nothæft, þá ber þeirri sérskipuðu nefnd að mínu viti nánast skylda til að leggja til að málið sé fellt, en ekki að því sé vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Mig undrar það nánast að menn, jafnharðir af sér, þegar þess þarf með, eins og hv. 3. þm. Reykv.,

skuli hika. Það var ekkert hik á Örlygsstöðum. ,,Hví drepið þér hann eigi?`` var spurt, þegar menn lágu í valnum. En nú hika menn við að láta fella þetta mál. Hvaða kjarkleysi er þetta? Hvers vegna er ekki tekið á svona alvitlausu frv. og það kolfellt? ( Gripið fram í: Þetta er annað lið en á Örlygsstöðum.) Ef til vill. Eða þá hitt að þarna býr eitthvað annað undir. Það er ekki gott að verða tvísaga. Kannski er ekki gott að samþykkja það að fella svona frv. og þurfa svo að greiða atkvæði með einhverju áþekku rétt fyrir næstu kosningar. Það væri ekki gott. Það er þó betra að hafa vísað því til ríkisstjórnarinnar til skoðunar og kippa því svo aftur upp á borðið.
    Hitt er aftur á móti dálítið merkilegt að ekki sé meira sagt að hér skuli hafa verið vikið að upptöku úr sjónvarpi 8. jan. 1991, merkilegu viðtali við prófessor dr. Gunnar G. Schram. Ég verð að segja eins og er að þó ég fari ekki í að lesa þetta upp vegna þess að það er búið að því, þá undrar mig mjög hvers vegna íslenskir fréttamenn spyrja ekki undir slíkum kringumstæðum prófessora að þeim mikla mun sem kemur fram í þessu viðtali og því áliti sem kom fram þegar prófessorinn fór yfir EES-samninginn til að meta hvort hann bryti í bága við stjórnarskrána. Hvers vegna spyrja fréttamenn ekki um svona lagað? Er það vegna þess að þeir telja að það sé illa séð af valdhöfum vors lands að koma með slíkar spurningar?
    Ég fæ ekki betur séð en að fyrir rétti væri þetta kallað að verða tvísaga. Svo mikill munur er á þessu tvennu. Mér er sagt að það gerist stundum þegar menn verða tvísaga þá sé þeirra vitnisburður ekki talinn nothæfur. Það er dálítið slæmt að sitja uppi með það.
    Ég ætla ekki að fara í umræður um EES undir þeim kringumstæðum sem hér eru. Ég tel að hér sé aðeins á dagskrá frv. til stjórnarskipunarlaga. Ég hef hlustað grannt á þær raddir sem komið hafa fram, að menn efi að það eigi að vera heimild í stjórnarskránni til þess að framselja vald. Það getur vel hugsast að í skjóli slíkrar heimildar reyni menn á Alþingi að taka sér meira vald og reyni að teygja úr því. Hér er aftur á móti sett sem skilyrði að þrír fjórðu hlutar alþingismanna greiði því atkvæði. Það er sett sem skilyrði. Nú er það svo að það er mikill meiri hluti þegar þrír fjórðu hlutar samþykkja eitthvert mál. Það er spurning hvort þeirri þjóð er yfir höfuð bjargandi sem er komin í þá stöðu að þrír fjórðu af þingmönnum hennar sameinast um hluti sem menn eru sannfærðir um að aðrir eru sannfærðir um að sé fráhvarf frá sjálfstæðinu, þ.e. afturför.
    Ég verð að segja eins og er að ég á ekki von á því úr því sem komið er að fá svör við því miðað við þær ræður sem hér hafa verið fluttar hvers vegna stjórnarliðar leggja ekki til að þetta frv. sé fellt. Ég á ekki von á því að fá svar við því. En það væri aftur á móti merkilegt að hugleiða það hvernig hefðu ræðurnar litið út ef þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að það ætti að fella málið. Hvernig hefðu þeir þá talað? Hvaða lýsingarorð hefðu þá verið notuð? Hvaða tilvitnanir? Fyrst þessi vopnaburður nær ekki lengra.
    Af því að mér er ljóst að atkvæðagreiðsla um þetta mál fer ekki fram í kvöld vil ég beina þeim eindregnu áskorunum til stjórnarsinna að þeir manni sig upp í að leggja til að frv. verði fellt. Hitt er svo ræfilslegt hálfkák að það er nánast að maður skammist sín fyrir að taka þátt í atkvæðagreiðslu um svo aumingjalega afstöðu.