Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 22:09:34 (2811)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það var eitt sinn sagt: Annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi.
    Nú er upplýst að vegna þess hverjir eru flm. að þessu frv. þá hiki menn við að veita því aðför og lýsa því yfir að það þurfi að skoða málið betur. Sé nú hugsað um að gagnálykta þá kemur þessi niðurstaða: Málið var ekki nægilega vel skoðað. Hér hafa menn flutt hverja ræðuna eftir aðra án þess að hafa skoðað málið nægilega vel. Hvað eru menn að játa á sig í þingsölum? Að þetta sé illa unnið af nefndinni sem lagði til tillögurnar? Ekki nægilega vel skoðað?
    Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á bunkann á borðinu hjá mér. Mér er skipað að skoða þetta og sagt að ég hafi nógan tíma til að afgreiða þetta allt fyrir jól. Svo er lyft einni möppu sem blöðin eru heldur laustengd saman og kvartað undan tímaleysi við að skoða. Ég er ekki trúaður á þessa röksemdafærslu en það skal viðurkennt að hv. 3. þm. Reykv. hefur þó haft karlmennsku til að reyna að manna sig upp í það að koma með skýringar á því hvers vegna þeir vilji ekki að málið sé fellt. Það má virða við hv. þingmann. Hins vegar fer ég ekki ofan af því að ég hefði talið karlmannlegra í stöðunni að nota nóttina til að safna kjarki til að koma með tillögu á fundi um að fella málið.