Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 22:11:51 (2812)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem er til umræðu er eins og mönnum er kunnugt eðlileg viðbrögð manna til þess að reyna að afstýra því stórslysi sem gæti orðið ef áform stjórnarflokkanna ná fram að ganga, að samþykkja samning sem brýtur gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Auðvitað er eðlilegur framgangur í svo stóru máli sem þessu að þetta frv. verði fyrr afgreitt og nauðsynlegar breytingar gerðar ef núverandi stjórnarflokkar hyggjast ekki falla frá áformum sínum um að knýja afgreiðslu á samningnum í gegn fyrir nk. áramót. Það er því engum blöðum um það að fletta hvers vegna málið er til komið og hver einn tilgangur málsins er sem er að reyna að afstýra þessu yfirvofandi stjórnarfarslega slysi.
    Auðvitað hlýtur því að koma mjög til álita í umræðunni hvort menn álíti að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrá eða ekki svo nátengd sem málin eru. Það liggur fyrir afstaða mjög margra þingmanna um að svo sé, en það hefur líka komið fram afstaða þingmanna um að samningurinn brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Ég vildi aðeins vekja athygli á sjónarmiðum nokkurra þeirra sem því hafa haldið fram því þar stangast nokkuð á yfirlýsingar þeirra nú og því sem áður var sagt. Óhjákvæmilegt er að draga það inn í þessa umræðu þannig að menn fái að vita á hvaða rökum sinnaskiptin eru grundvölluð.
    Ég vil fyrst nefna hæstv. sjútvrh. sem lét frá sér fara ákveðna skoðun á málinu á sínum tíma meðan hann var enn formaður Sjálfstfl. og hann segir í grein í Morgunblaðinu 26. jan. 1991, með leyfi forseta:
    ,,Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu felur á hinn bóginn í sér að við gerumst aðilar að allri löggjöf Evrópubandalagsins um innri markað þess. Sú löggjöf sem á einum degi verður að íslenskum lögum er margfalt meira að vöxtum en öll núgildandi löggjöf hér á landi í blaðsíðum talið. Sérfræðingar hafa látið það álit í ljós að með þessari aðild séum við orðnir þátttakendur í u.þ.b. 70--80% af starfsemi Evrópubandalagsins.``
    Enn fremur segir í grein hæstv. núv. sjútvrh., með leyfi forseta:
    ,,Þeir sem gerst þekkja vita að það er stigsmunur en ekki eðlismunur á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu.``
    Það er alveg ljóst hvað fyrrv. formaður Sjálfstfl. er að segja við fólk í endaðan janúar 1991, að við erum að gera samning sem yfirtekur mikið af EB-lögum og við eru að binda okkur við Evrópubandalagið þannig að það er aðeins stigsmunur á þeirri bindingu en ekki eðlismunur hvort við gerumst aðilar beint að Evrópubandalaginu.
    Mig langar líka að nefna til sögunnar hv. núv. 3. þm. Reykv. sem segir í Morgunblaðinu í blaðagrein, 16. apríl 1991, eða fjórum dögum fyrir kosningar um þetta mál, með leyfi forseta:
    ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB í ríkisstjórnum EFTA-landanna vita að þar líta menn á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.``
    Enn fremur segir í greininni, með leyfi forseta:
    ,,EES-samningagerðin er skipulegasta átak sem gert hefur verið til þess að opna Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum leið inn í Evrópubandalagið.``
    Það er líka alveg ljóst að hv. þm. Björn Bjarnason lítur á þetta mjög nátengt sjálfri aðildinni að Evrópubandalaginu. Hann segir, og tekur undir með núv. formanni Sjálfstfl., að um aðild að Evrópubandalaginu beri að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla, það muni gerast sjálfkrafa því að aðildin sjálf sé brot á stjórnarskránni og það þurfi því að breyta stjórnarskránni til þess að til aðildar geti komið.
    Það hlýtur að vera mjög glöggt á því fyrst í huga þingmannsins er EES-samningurinn sjálfur svo nátengdur og nálægur beinni aðild að EB að álykta sem svo að fyrst EB-aðild kalli á stjórnarskrárbreytingu þá hljóti EES-samningurinn að gera það líka. Að öðrum kosti væru þessir tveir samningar eða tveir möguleikar ekki svo nátengdir eins og þingmaðurinn heldur fram í grein sinni.
    Í grein sinni segir þingmaðurinn enn, með leyfi forseta: ,,Þessi samningur opnar leið inn í EB.``
    Samhengið þarna á milli fer því ekki á milli mála.
    Þriðji núverandi þingmaður Sjálfstfl., sem ég vil vitna til, er hv. 3. þm. Vestf. Hann segir um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í grein í DV 18. apríl 1991, eða tveimur dögum fyrir kosningar, með leyfi forseta: ,, . . .  er allir vita að felur í sér samninga um valdaafsal þjóðríkja og viðurkenningu á lögum og dómstólum Evrópubandalagsins.`` Hann tínir til rök fyrir skoðun sinni og vitnar í fyrsta lagi í prófessor Gunnar G. Schram. Þar segir í tilvitnun, með leyfi forseta:
    ,,Prófessorinn hefur dregið fram í Morgunblaðsgrein 26. janúar sl. að með aðild að EES samþykkja EFTA-ríkin mjög verulegan hluta Rómarsamningsins, en hann er grundvallarlög Evrópubandalagsins. Með því eru þau í mörgum þýðingarmiklum efnum komin á sama bát og EB-ríkin og lúta sömu lögum og þau.``
    Enn fremur vitnar þingmaðurinn í annan fræðing, dr. Gunnar Helga Kristinsson, lektor í stjórnmálafræði. Þar segir í greininni og er tilvitnun í grein dr. Gunnars frá 5. apríl í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:
    ,,Niðurstaða samningaviðræðnanna ætti að verða víðtækur aukaaðildarsamningur á grundvelli 238. gr. sáttmála EB milli Evrópubandalagsins annars vegar og EFTA-landanna og Liechtenstein hins vegar.``
    Í þriðja lagi dregur hv. 3. þm. Vestf. fram sem rök fyrir þeim fullyrðingum sínum að EES-samningurinn feli í sér valdaafsal þjóðríkja að vitnað sé til þess í skýrslu utanrrh., sem þá var nýlega komin út um stöðu EES-viðræðnanna, að full ástæða sé til að kanna þörf á nýju ákvæði í stjórnarskránni sem kveði skýrt á um heimildir til þátttöku í alþjóðasamstarfi. --- Það var nú hvorki meira né minna, ein af þrennum rökunum voru að það skorti heimildir í stjórnarskrá.
    Þá vil ég nefna til sögunnar fjórða núverandi þingmann Sjálfstfl. sem er ekki beint í miklum vafa um þennan samning og það er hv. þm. Eggert Haukdal. Hann segir í blaðagrein 18. apríl 1991, eða tveimur dögum fyrir kosningar, með leyfi forseta, og talar ekki bara fyrir sjálfan sig heldur Sjálfstfl. --- með stóru S-i:
    ,,Sjálfstæðisflokkurinn varar kjósendur við óhreinlyndi og loddaraskap ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem afneitar samningum um evrópsk efnahagsmál um leið og verið er að ljúka samningaviðræðum um Evrópskt efnahagssvæði sem hafa í för með sér afsal á fullveldi og lögsögu erlends dómstóls á íslenskri grund.`` --- Enn fremur segir þingmaðurinn, og enn í nafni Sjálfstfl., með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæðisflokkurinn styður aðild Íslendinga að alþjóðasamvinnu en þó því aðeins að tryggð séu full yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum hennar, öllum landgæðum og fullveldi.``
    Hér hafa verið nefndir til sögunnar fjórir þingmenn Sjálfstfl. sem hafa haft mjög skýra afstöðu til áhrifa samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á íslenskt þjóðlíf og hversu nátengdur sá samningur er beinni aðild að Evrópubandalaginu og ýmist lýst yfir efasemdum eða beinum fullyrðingum um að þetta standist ekki stjórnarskrá.
    Það vekur því furðu að heyra það frá allmörgum þingmönnum Sjálfstfl. að þeir ætli sér að standa að því að afgreiða þennan samning og víkja til hliðar spurningunni um það hvort samningurinn standist stjórnarskrá og ætli sér að knýja samninginn í gegn í krafti einfalds meiri hluta og láta síðan skeika að sköpuðu hvort dómstólar muni síðar víkja samningnum til hliðar sem broti á stjórnarskránni, þá ýmist einstökum ákvæðum hans í kjölfar dóms eða samningnum í heild ef dómur verður það víðtækur.
    Hér eru menn að tefla pólitískum hagsmunum fram fyrir hagsmuni þjóðarinnar og víkja stjórnarskrá lýðveldisins til hliðar og láta hana vera í öðru sæti á eftir hagsmunum sínum sem pólitískir einstaklingar. Þetta eru vinnubrögð sem geta ekki, virðulegi forseti, með nokkru móti verið viðunandi og hlýtur að kalla á mjög harða andstöðu gegn áformum af þessu tagi.
    Yfirlýsingar Sjálfstfl., sem ég hef rakið og á engan hátt ríma við niðurstöðuna, hið opinbera umboðsleysi þingmanna til að ljúka málinu auk þessarar tilvitnunar sem ég hef dregið fram, hljóta að kalla á það að Sjálfstfl. rökstyðji afstöðu sína ef hann á þá á annað borð einhver rök í fórum sínum til þess að útskýra þessi sinnaskipti. Ég vil nefna sem dæmi um þingmenn sem augljóslega hafa farið langt frá yfirlýsingum sínum sem þeir gáfu kjósendum fyrir kosningar og hyggjast vera í því liði sem ætlar að ganga á stjórnarskrána með einföldum meiri hluta í þinginu. T.d., eins og ég gat um fyrr í kvöld, hv. þm. Tómas Inga Olrich sem skrifaði í Morgunblaðið 18. apríl, tveimur dögum fyrir síðustu alþingiskosningar, ýmis varnaðarorð um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og tók það mjög skýrt fram að hann mundi aldrei samþykkja samning sem veitti útlendingum sama rétt til að kaupa land og við Íslendingar höfum og enn fremur að samþykkja samning sem opnuðu fiskimiðin fyrir útlendingum. Eða eins og orðað er í greininni, með leyfi forseta: ,,að hleypa útlendingum inn í aðalauðlind þjóðarinnar.``
    Það er alveg skýrt af hálfu þessara þingmanna að þeir hafa gefið annað út um afstöðu sína til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, áhrif hans á stjórnarskrá lýðveldisins og einstök efnisatriði en þeir láta uppi núna.
    Það er auðvitað hörmulegt til þess að vita, virðulegi forseti, að svo skuli að þingstörfum staðið að flestir þeirra þingmanna sem hér ættu auðvitað að gera grein fyrir sinnaskiptum sínum fá nú átölulaust að vera utan þingsalar og jafnvel utan þinghúss og rætt er um þetta alvarlega mál fyrir nær tómum þingsölum. Verður að segjast að því miður er ekki einsdæmi að stjórnarliðið láta sig litlu varða hvaða málflutning menn hafa uppi og hvaða rök menn draga fram. Það skiptir ekki máli í þeirra huga heldur að vera einhvers staðar út um víðan völl og mæta þá til atkvæðagreiðslu þegar í þá er hringt. Að öðru leyti koma þeim þingstörfin ekki við.
    Ég tel því, virðulegi forseti, afar brýnt í ljósi tvískinnungs mjög margra stjórnarliða að frv. það sem hér liggur fyrir verði samþykkt því með því vinnst tvennt. Það fyrra að komið yrði í veg fyrir að óprúttinn stjórnarmeirihluti á hverjum tíma geti í krafti samstöðu sinnar knúið fram mál sem er augljóslega brot

á íslenskri stjórnarskrá og hitt að stjórnarþingmenn yrðu knúnir til þess að standa frammi fyrir kjósendum sínum og útskýra fyrir þeim vingulsháttinn í afstöðu sinni til þessa viðamikla máls, svo ekki sé fastara að orði kveðið.