Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 22:36:29 (2817)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls. Ég taldi mig hafa skýrt mitt mál nægjanlega vel í minni fyrstu ræðu en nokkrum atriðum í máli hv. þm. tókst mér ekki að svara í andsvörum á þann hátt sem ég vildi. Ég heyri samt á því sem fram hefur komið af hálfu hv. stjórnarliða að það þýðir varla að ræða við þá. Þeir eru algerlega ákveðnir í því að misskilja allt sem maður segir. Ég var að reyna að skýra út hvað felst í breytingartillögunni og þeirri tillögu sem borin er fram af fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna. Það er í góðu samræmi við það sem er í stjórnarskrám annarra landa en samt vilja þeir misskilja allt sem við segjum og telja að þetta sé allt á afturfótunum. Það er eins og þeir skilji ekki mælt mál. Ég veit ekki hvort það þýðir að reyna að tala frekar um þetta. Þeir vilja greinilega ekki láta okkur njóta sannmælis og þess veit ég ekki hvort ég á að reyna að útskýra enn einu sinni hvað í breytingartillögunni felst. Það er skýrt mjög greinilega í nál. minni hlutans.
    Það var farið yfir þetta í stjórnarskrárnefndinni. Ég veit ekki hver tilgangurinn var yfirleitt með að vísa þessu máli til nefndarinnar og ræða það þar ef síðan skiptir engu máli hvað þar var gert. Þar var farið yfir þetta mál. Það voru bornar fram ýmsar athugasemdir af hálfu þeirra sem á fund nefndarinnar komu sem voru þrír aðilar eins og fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar. Það voru þeir Gunnar G. Schram prófessor, Eiríkur Tómasson og Magnús K. Hannesson. Þeir þrír komu á fund nefndarinnar og báru fram ýmsar athugasemdir og gagnrýni sem við tókum til greina. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni sögðumst við vilja breyta og laga þennan texta þannig að hann væri skýr og greinilegur og væri með þeim hætti að ekki væri nokkur leið að misskilja hann. Þessu vildi meiri hlutinn greinilega ekki taka þátt í en við breyttum textanum til móts við það til þess að þeir gætu skilið hann. En það virðist engu máli skipta. Þeir vilja ekki skilja og ég held að það þýði ekkert að halda áfram að reyna að skýra út.
    Það var minnst á þegar verið var að vitna til viðtals við Gunnar G. Schram að eingöngu væri verið að ræða um EB. Auðvitað var verið að ræða um EES-samninginn. Það er ljóst eftir því sem þar kemur fram að á þeim tíma sem þetta viðtal birtist er verið að ræða um EES-dómstól. Þá var ekki komin þessi tvískipting eins og er núna með dómurum frá bæði EFTA og EB. Einnig var verið að ræða um sameiginlega eftirlitsnefnd, um að EFTA hefði einhver áhrif á ákvörðunarferli innan EB, m.a. að því er varðaði lagafrumvörp, og það var einnig verið að tala um þátttöku í nefndum á vegum EB. En það er ekkert eftir af þessu núna. Við fáum ekki að taka þátt í neinum þeim ferlum sem skipta máli í þessu samhengi ef af þessum samningi verður. Nú er komin eftirlitsstofnun sem kveður upp úrskurði.
    Það er verið að draga Gunnar G. Schram inn í þetta mál, og það var auðvitað ég sem gerði það, ekki síst vegna þess að hann er einn aðalsérfræðingurinn sem kom á fund nefndarinnar og við tókum auðvitað mark á því sem hann sagði. Mér sýnist að meiri hluti nefndarinnar taki eingöngu mark á því sem hann sagði en auðvitað töluðu fleiri og þeim bar ekki alveg saman. Ekki er hægt að taka tillit til allra þar sem um mismunandi álit er að ræða en maður reynir að meta hvað eðlilegt er að taka tillit til.
    Þegar þessi breyting varð á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, ég held að það hafi verið 14. eða 15. maí 1991, breytist þetta í að verða eftirlitsstofnun EFTA. Þá kom fram sú hugmynd. Af því kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv. að allt annað hefði verið uppi þegar viðtalið var tekið en síðar varð langar mig að benda á það sem Gunnar G. Schram, lagaprófessor og doktor, sagði í viðtali við útvarpið þann 15. maí 1991 eftir að þetta kemur upp. Í fréttinni er fyrst vitnað til þess sem fréttamaðurinn segir en síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Gunnar G. Schram lagaprófessor segir að yfirlýsing ráðherrafundar Evrópubandalagsins og EFTA á mánudag bendi til þess að ný eftirlitsstofnun EFTA á væntanlegu Evrópsku efnahagssvæði fái meira yfirþjóðlegt vald en hingað til hefur verið talað um.`` Þetta er því meira en hann hélt þó. ( Gripið fram í: Hvenær kemur þetta?) Þetta kemur 15. maí 1991. Viðtalið sem ég vitnaði til fyrr í kvöld var 8. jan. 1991. Ég hafði ekki tíma til að skoða nákvæmlega hvenær þetta var tekið. Síðan segir Gunnar G. Schram og þá er orðrétt haft eftir honum:
    ,,Þá verður að líta svo á að hér sé um valdameiri stofnun að ræða en almennt hefur verið talið til þessa. Evrópubandalagsstofnunin hefur löggjafarvald og er ákaflega valdamikil.`` Síðan ræðir hann frekar um þetta og hnykkir í raun á fyrra áliti sínu um að þetta sé valdamikið og segir í lok viðtalsins: ,,Ef við gerumst aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þá er náttúrlega ljóst að í öllum þeim efnum sem það tekur til, en það er má segja mjög breitt svið efnahagslífsins, þá verður þarna um hæstarétt að ræða ef upp koma deilumál sem skotið er til þessa dómstóls í Lúxemborg. Það þýðir að hann hefur endanlegt dómsorð og við sem önnur aðildarríki yrðum þá að hlíta dómum þessa nýja alþjóðlega dómstóls.``
    Þetta vildi ég bara segja. Ég veit að auðvitað er hægt að koma síðar að þessu máli þegar við förum að ræða betur um hið Evrópska efnahagssvæði, en í tilefni þessa taldi ég rétt að koma þessu að vegna þess að það var talið að það væri svo mikil breyting frá þessu viðtali miðað við það sem nú er. Auðvitað er breyting en hún er að mínu mati frekar til hins verra að því er varðar þessi atriði. Ég ætla hins vegar ekki að ræða það meira.
    Annað kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. og mér tókst ekki að svara áðan þegar ég fór í andsvar

vegna þess að tími minn var þrotinn. Það var varðandi Mannréttindasáttmála Evrópu. Ef hann væri lögtekinn hér á landi og gilti einnig gagnvart einstaklingum er það mat fleiri en eins lögfræðings --- það er mat fleiri lögfræðinga --- væri það ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá. Ég þori ekki að fullyrða það því að minni mitt er kannski ekki óbrigðult en ég man ekki betur en Gunnar G. Schram hafi sagt það sama á fundi stjórnarskrárnefndar þegar við vorum að ræða þetta atriði. Ég þori ekki að fullyrða það vegna þess að þetta er einungis eftir minni. En fleiri lögfræðingar segja að það sé allt annað hvort ákvæði Mannréttindasáttmálans eru með þeim hætti sem þau eru núna, þ.e. að hann verði samþykktur með þál. Alþingis, eða hvort hann verður lögtekinn í heild. Það eru ekki bara einn og ekki bara tveir heldur fleiri sem hafa sagt það.
    Síðan langar mig, virðulegur forseti, að minnast aðeins á eitt atriði í viðbót sem mér tókst ekki að taka með á þeim stutta tíma sem ég hafði til andsvara. Það var varðandi Torstein Eckhoff og grein hans sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á. Ég minntist fyrst á grein hans í Jussens venner frá 1990 sem var sjálfsagt skrifuð á því ári eða á árinu fyrr. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær greinin var skrifað en hún birtist það ár. Þá er samningurinn ekki tilbúinn. Hann telur þá ekki víst að beita þurfi 93. gr. stjórnarskrárinnar eins og samningurinn leit út þá. En um mitt ár 1992 birtir hann grein --- ég þori ekki að fullyrða í hvaða blaði greinin birtist en það er vitnað í þá grein án þess að sagt sé upp úr hvaðan hún er tekin nákvæmlega í 7. og 8. hefti Nordisk Kontakt 1992 sem kom út síðla sumars og allir þingmenn fá. Úr því blaði tek ég þessa tilvitnun. Þar kemur fram --- ég hef reyndar lesið það í dagblöðum í Noregi en hef ekki nákvæmlega tilvitnun þar --- að prófessor Torstein Eckhoff, sem er framarlega í baráttunni gegn EB-aðild Noregs og þar af leiðandi á móti EES-samningnum líka því að sá hópur er bæði á móti EES-samningi og aðild Noregs að EB, telur að þar sem í EES-samningnum felist ákvæði um að vald sé falið í hendur stofnana sem Noregur er ekki aðili að þá muni 93. gr. stjórnarskrárinnar ekki einu sinni duga. Það er algerlega óheimilt samkvæmt norsku stjórnarskránni að hans mati. 93. gr. dugar því ekki heldur þó svo í henni felist ákvæði um að heimilt sé að framselja vald á takmörkuðu sviði ef um 3 / 4 hluta atkvæða sé að ræða. Jafnframt segir í þessari grein að lagaprófessorinn Eivind Smith --- það er tekið sérstaklega fram að hann sé fylgjandi því að Noregur gerist aðili að EB væntanlega vegna þess að þeir hafa þá sitt hvora skoðunina --- segir að Ekkov hafi mjög líklega, eða eins og stendur í þessari grein, ,,høyst sannsynligt`` rétt fyrir sér.
    Þessa var ég að vitna til. Í greininni frá 1990 sagði hann þetta en þegar samningurinn liggur fyrir þá metur hann þetta öðruvísi. Ég hef ekki annað fyrir mér en það sem stendur hér og það sem hefur verið vitnað til blaðagreina eftir hann. Ég hef ekki neina fræðilega úttekt hans á þessu eins og greinin í Jussens venner frá 1990 er og við fengum afrit af í stjórnarskrárnefndinni. Við fengum reyndar fleiri greinar sem við höfðum til hliðsjónar þegar við vorum að fara yfir málið. Þessi maður, sem ég held að sé mjög virtur fræðimaður á þessu sviði, telur þetta.
    Ég vil líka upplýsa það að í Svíþjóð eru margir sem telja, og kom reyndar upp á síðustu stundu, að EES-samningurinn stríði gegn sænsku stjórnarskránni fyrst og fremst vegna prentfrelsisins. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sett mig inn í sænsku stjórnarskrána nægilega vel til þess að ég skilji návæmlega af hverju þeir telja svo vera. Það væri fróðlegt fyrir okkur að vita nákvæmlega hvað það er sem menn hnýta svo sérstaklega í að því er varðar sænsku stjórnarskrána og prentfrelsið og hvort það sama mundi vera uppi á teningnum hér á landi en það hef ég að vísu ekki heyrt. Í Finnlandi, eins og ég sagði reyndar í minni fyrri ræðu, telja margir að ekki hafi verið heimilt samkvæmt finnsku stjórnarskránni að samþykkja EES-samningurinn vegna þess að í honum felist svo mikið valdaframsal til stofnana sem Finnland er ekki aðili að. Ef um væri að ræða aðild að EB væri það heimilt samkvæmt þeirra stjórnarskrá en ekki aðild að EES.
    Virðulegur forseti. Ég held að ég láti þetta duga að svo komnu máli þar sem ég sé ekki að hægt sé að fá þá fáu þingmenn sem hér eru og hafa skrifað undir nál. meiri hlutans --- þeir eru þeir einu sem hér sitja og aðrir hv. þm. sjá sér greinilega ekki fært að sitja þennan fund og fylgjast með umræðum --- og það breytir kannski ákaflega litlu þó maður reyni að sannfæra fólk um það hversu óráðlegt það er að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Eðlilegra væri að það gengi til atkvæða með eðlilegum hætti og menn yrðu þá að láta í ljós álit sitt á því hvort þeir teldu að það ætti að samþykkja frv. eða fella það. Auðvitað tel ég eðlilegt að samþykkja það og þykir mér leitt að menn skuli vera að agnúast svona mikið út í þetta frv.