Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 23:08:20 (2822)


     Frsm. minni hluta stjórnarskrárnefndar (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Nú er mér farið að líka við hv. 3. þm. Reykv. Ég tel að hann ætti miklu oftar að lesa gagnlegar greinar og ritgerðir eftir framsóknarmenn, það mundi prýða mjög Alþingistíðindin og ræður hans. Ég tel að það líka réttmæta ályktun sem hann dró að menn eigi ekkert að vera að skýla sér á bak við lögfræðinga. En það sakar ekki að hafa þá með í ráðum. Það vill nefnilega til að í okkar góðu stjórnarskrá segir í 47. gr.:
    ,,Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar kosning hans hefur verið tekin gild.``
    Þetta höfum við öll gert. Bæði við sem erum hér í salnum í kvöld og eins þeir þingmenn sem fjarstaddir eru svo og þeir þingmenn sem á undan okkur hafa verið.
    Nú ætla ég að lesa 1. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.
    2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.``
    Hvernig samræmist þessi grein samningnum um Evrópskt efnahagssvæði? Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Formlega séð fara forseti og Alþingi áfram með löggjafarvaldið. Þ.e. Alþingi undirgengst það að taka við lögum að utan og lögtaka þau hér. Alþingi kemur til með að starfa öðrum þræði, kannski að mestu leyti, sem afgreiðslustofnun fyrir Brussel og þarf að lögtaka það sem þeim þóknast þar. Ekki að frumkvæði okkar, við komum ekki að þessum undirbúningi, ekki nema í einstaka til

fellum einhverjir útsendir embættismenn. Ég skal ekki segja hvort þeir geta látið hlusta eitthvað á sig. En íslenskir alþingismenn hafa ekki frumkvæði að þessari lagasetningu. Þeir koma til með að standa frammi fyrir svipuðum verkefnum og við vorum að vinna í gær þegar við vorum að ræða um smárásir í hálfleiðurum, taka við frv. sem aðrir hafa samið, láta þýða þau fyrir sig, e.t.v. vitlaust, reyna svo að skilja hvað felist í textanum og gera þau að lögum.
    Ef við neitum, við höfum formlegt neitunarvald, mögnum við á okkur draugana frá Brussel sem geta snúið upp á hendurnar á okkur og beitt gagnaðgerðum. Í 2. gr. segir: ,,Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.`` Fjórmenningar utanrrh. komust að þeirri spaklegu niðurstöðu, eins og frægt er orðið, að það væri ekki tekið fram að þetta skyldu vera alíslensk stjórnvöld. Ég tel að stjórnarskrárgjafinn hafi ekki verið í neinum vafa um að þetta skyldu vera alíslensk stjórnvöld. Framkvæmdarvaldið er flutt úr landi að hluta. Síðan segir: ,,Dómendur fara með dómsvaldið.`` Ekki er það nú fortakslaust eftir að við erum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þá verða íslenskir aðilar að hlíta dómum að utan. Þeir eru aðfararhæfir hér á landi jafnvel þó að og íslenskir dómstólar komi þar hvergi nærri.
    Ég nefni 10. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:
    ,,Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en Þjóðskjalasafnið hitt.``
    Það eru fleiri en við alþingismenn sem vinna heit að því að halda stjórnarskrána. Það gerir forseti Íslands líka. Svona mætti lengi lesa úr stjórnarskránni. Ég ætla ekki að þreyta þá fáu þingmenn sem eru í salnum á því að þessu sinni.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. 3. þm. Reykv., Birni Bjarnasyni, að þetta er verkefni sem bíður okkar og við verðum að gera það upp við okkur hvort okkur finnist EES-samningurinn samrýmanlegur því heiti sem við unnum þegar við tókum hér sæti. Það er hins vegar ekkert á móti því að leita til lærðra manna og heyra skoðun þeirra á hlutunum og meta þau rök og gagnrök sem fram koma. Í mínum huga er það ekki nokkur vafi og þar er ég hjartanlega sammála hv. þm. Birni Bjarnasyni að það er hvers og eins að gera það upp við samvisku sína hvort hann ætlar að halda stjórnarskrána og standa við þann eiðstaf sem hann undirritaði þegar hann tók sæti á Alþingi.