Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 14:23:25 (2828)

     Frsm. minni hluta stjórnarskrárnefndar (Ragnar Arnalds) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason heldur því alveg blákalt fram að það sé nánast verið að afnema þingræði í landinu ef samþykkt yrðu ákvæði í stjórnarskrá sem veita minni hluta þingmanna rétt til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er auðvitað svo fráleit staðhæfing að það þarf í raun og veru ekki að svara henni. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. að því hvort hann líti þá svo á að Danir hafi afnumið þingræði í sínu landi með þeim ákvæðum í stjórnarskrá sem gera ráð fyrir því að þar geti þriðjungur þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, meira að segja bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, um flest mál sem borin eru fram og samþykkt af danska þinginu, þó með nokkrum veigamiklum undantekningum. Verður hann þá að álykta sem svo að þar hafi þingræðið verið afnumið?