Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 14:27:04 (2831)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við þá fullyrðingu hv. þm. Ragnars Arnalds, frsm. minni hluta stjórnarskrárnefndarinnar, að hægt sé að finna ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins eins og hún er nú sem benda til þess að þar sé gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem beinni aðferð til að leysa álitamál.
    Ég flutti um þetta mál nokkuð ítarlega ræðu við 1. umr. og benti á að tvær greinar stjórnarskrárinnar, 11. gr. og 26. gr., hafa að geyma ákvæði um að vísa máli til þjóðarinnar. Það er einungis í því tilfelli þegar stofnanir lýðveldisins eru orðnar nánast óstarfhæfar. Það verður að flokkast undir neyðarrétt og hefur ekkert með það að gera sem hér er gerð tillaga um. Það má kannski segja sem svo um þá grein stjórnarskrárinnar, 29. gr., sem segir að leggja skuli mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar ef Alþingi samþykkir breytingu á krikjuskipaninni að þar sé mjög takmarkað ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hin ákvæðin geta engan veginn túlkast sem þessi grein. Ef eitthvert mark hefði verið tekið á þeim umræðum sem fóru hér fram við 1. umr. hefði þingmaðurinn alla vega geta komið efnislega inn á þau atriði í sinni framsöguræðu.