Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:02:57 (2841)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Það er ekkert í þessum umræðum sem gefur hv. síðasta ræðumanni tilefni til að álykta sem svo að Íslendingar séu eitthvað síður til þess færir en Danir að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafa engin orð fallið á þann veg í þessum umræðum. Spurningin hefur verið um það hvort verið sé að skerða vald löggjafarþingsins með því að veita jafnvíðtækan rétt til að vísa málinu til þjóðaratkvæðis og gert er ráð fyrir í þessu frv. sem við erum að ræða.
    Það er ótvírætt að mínu mati að með því að veita jafnvíðtækan rétt og þarna er talað um, að þriðjungur þingmanna geti skotið hvaða frv. til laga sem er og hvaða þáltill. sem er til þjóðaratkvæðis, er verið að skerða valdsvið Alþingis og þrengja. Og mér heyrðist raunar hv. síðasti ræðumaður vera svipaðrar skoðunar. Hann taldi að þótt hann væri efnislega sammála því sem fram kæmi í þessu frv. þá þyrfti að breyta því, það þyrfti að þrengja ákvæði þess til að þessi réttur Alþingis og þetta vald Alþingis yrði ekki skert með jafnskýrum hætti og gert er í frv. Þessi afstaða er alls ekki neitt vantraust á íslensku þjóðina og engin spurning um það hvort íslensku þjóðinni sé treystandi til þess að taka ákvarðanir um hin flóknustu mál. Það á ekkert skylt við það. Þetta er spurning um hvaða stjórnarhætti við viljum hafa hér í okkar landi og hversu víðtækt framsal á valdi Alþingis við viljum samþykkja. Og það hlýtur að vera og ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er mál sem auðvitað á að ræða ítarlega hér í þinginu og þarf að gera með skipulegri hætti heldur en gert er á grundvelli þessa frv., sem er meingallað eins og hitt frv. sem við ræddum hér sl. fimmtudag varðandi stjórnarskrána og stjórnarandstaðan lagði fram í tilefni af EES-samningnum. Þetta frv. eins og hið fyrra sem við ræddum á fimmtudaginn er meingallað og hv. síðasti ræðumaður benti á einn meinlegan galla í frv. að það veitir allt of víðtækar heimildir.
    Sú skoðun kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni og hv. frsm. minni hluta nefndarinnar að þjóðaratkvæðagreiðslur væru sérstaklega góð tæki til þess að fresta eða koma í veg fyrir þingkosningar. Ég átta mig ekki á þeirri röksemdafærslu að það að þriðjungur þingmanna geti krafist þess að frv. til laga eða þáltill. sé skotið til þjóðarinnar sé eitthvert sérstakt úrræði til þess að koma í veg fyrir þingkosningar eða fresta þeim. Mér finnst þetta einkennileg röksemd og skil ekki nákvæmlega við hvað er átt og hvaða sérstök ástæða er fyrir því að þessir menn leggja svo mikið upp úr því að komið sé í veg fyrir að efnt sé til þingkosninga. Mér finnst að það hljóti náttúrlega að ráðast fyrst og fremst af okkar stjórnskipun. Hér gildir sú regla eins og menn vita að unnt er að rjúfa þing á kjörtímabilinu sem ekki er í Noregi eins og hv. síðasti ræðumaður gat um. Yfirleitt er þing ekki rofið hér nema mál séu komin í algert þrot vegna samstarfsörðugleika í ríkisstjórnum. Frægasta þingrofið árið 1930 stafaði m.a. af því að þáv. ríkisstjórn stóð frammi fyrir því að hún sá nýjan meiri hluta vera að skapast í þinginu um breytingar á kjördæmaskipaninni og þá var gripið fyrirvaralaust til þess ráðs að rjúfa þingið og efna til kosninga. Ég sé ekki að það hefði einhverju breytt í því tilviki að þriðjungur þingmanna hefði getað krafist þess að bera eitthvað mál undir þjóðaratkvæði. Ég skil ekki þessa röksemdafærslu að málskotsréttur, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., sé til þess fallinn að fækka þingkosningum. Mér finnst það nú raunverulega fráleitt að ræða málið á þeim forsendum.
    Hér hefur verið vikið að till. til þál. sem Ólafur Jóhannesson, Páll Þorsteinsson og Ingvar Gíslason fluttu á mörgum þingum á sjöunda áratugnum og að lokum var samþykkt með þeirri breytingu að þeir vildu að Alþingi ályktaði að kjósa fimm manna nefnd, og var að lokum undir lok sjöunda áratugarins samþykkt þáltill. með því að ríkisstjórninni var falið að annast það sem í tillögunni segir. Og hér hefur nú verið látið að því liggja að í þessari tillögu hefði alveg verið tekið af skarið um það að skynsamlegt væri að breyta stjórnarhögum okkar á þann veg að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta er alrangt. Það stóð alls ekki neitt í þessari tillögu eða í greinargerð með henni þess efnis að flm. hennar hefðu gert upp hug sinn og það ætti hér að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur. Þvert á móti segir í greinargerð með þessari till. Ólafs Jóhannessonar o.fl.:
    ,,Hér skal að svo stöddu enginn dómur á það lagður hvort aukin notkun þjóðaratkvæðis muni henta hér á landi.`` Þannig að þeir gerðu alls ekki upp hug sinn þótt þeir flyttu þessa tillögu. Ég tel að tillagan hafi verið flutt m.a. vegna óska sem uppi höfðu verið eins og hér eru hjá sumum þingmönnum að koma á þeirri skipan að unnt sé að efna til þjóðaratkvæðis og að tillagan hafi verið flutt til þess að jafna ágreining milli manna um það efni og ætlunin var að fela sérstakri nefnd og síðan ríkisstjórninni að vinna að framgangi þess máls og gaumgæfilegri athugun án þess að nefndarmenn eða tillögumenn sjálfir tækju afstöðu til þess í sjálfu sér hvort breyta ætti stjórnskipan okkar á þann veg að þrengja að þingræðinu. Það er síðan athyglisvert að árið 1971 varð Ólafur heitinn Jóhannesson forsrh. og ég minnist þess ekki að hann hafi þá sem forsrh. beitt sér sérstaklega fyrir því að menn gengju til þess verks að breyta stjórnarskránni eða stjórnháttum okkar á þann veg að taka hér upp þjóðaratkvæðagreiðslur.
    Síðan er þess að minnast að undanfarin 20 ár eða svo hefur verið starfandi stjórnarskrárnefnd með þátttöku allra þingflokka. Hún sendi frá sér álit árið 1983 þar sem gerð er tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslur en hún var alls ekki með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir að minni hluti þingmanna geti tekið öll völd í sínar hendur, ef þannig mætti að orði komast, og skotið þáltill. til þjóðaratkvæðis heldur er þar gert ráð fyrir því að ákveðinn hluti landsmanna geti sett fram óskir um þjóðaratkvæðagreiðslu enda er það miklu rökréttara en veita minni hluta Alþingis þann rétt að taka mál og vísa þeim þannig út úr þinginu og sveigja þannig að þingræðinu eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er miklu nær ef menn vilja á annað borð huga að þessum málum að líta þá til þess að þriðji aðilinn, þ.e. þjóðin sjálf, geti haft frumkvæði að því að taka mál sem hér hafa verið til umræðu og eru umdeild úr höndum Alþingis og beina þeim til þjóðarinnar sjálfrar en að minni hluta alþingismanna sé veitt það vald.
    Ég vildi láta þetta koma fram, frú forseti. Mér þótti sérstaklega að fullyrðingar varðandi þau sjónarmið sem komu fram varðandi tillöguna sem flutt var á sjöunda áratugnum gætu ekki staðið eins og þau voru fram sett því það er tvímælalaust þegar tillagan er lesin og greinargerðin með henni að menn vildu að vandlega yrði litið á málið og það skoðað. Í raun og veru felst hið sama í tillögum okkar í meiri hluta stjórnarskrárnefndar sem leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar með það í huga að stjórnarskrárnefnd sem nú er starfandi taki á því og skoði það og komi vonandi að lokum með tillögu um þetta efni eins og önnur sem víðtæk samstaða er um.