Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:18:24 (2843)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður og varpa að mörgu leyti skýrara ljósi á afstöðu manna til grundvallaratriða. Það þarf svo sem ekki mjög miklu við það að bæta en mig langaði samt til að koma einu eða tveimur atriðum inn í umræðuna.
    Það er alveg augljóst að tilgangurinn með frv. sem hér er til umræðu er að opna möguleika á því að leyfa kjósendum til Alþingis að hafa álit á tilteknum málum. Eðlilega eru skiptar skoðanir um hvort svo eigi að vera og ef þá í hve miklum mæli. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig menn skilja orðið þingræði, hvað í því felst eða hvað menn vilja að í því felist. Um það geta líka verið skiptar skoðanir og ekkert nema eðlilegt að svo sé. Eins og við þekkjum hafa menn afskaplega ólíkar skoðanir til margra hluta og ekki síður þessara en annarra.
    Að mínum dómi er þessi breyting afar þörf. Hún mætir þeim hugmyndum sem ég hef um lýðræði og þingbundna stjórn, að hafa úrræði til þess við tilteknar aðstæður að þingið geti leitað til þjóðarinnar og hitt að þjóðin geti kallað til sín mál. Ef menn eru þeirrar skoðunar að í þingræðinu eða því sem kallað er fulltrúalýðræði felist sú afstaða að þeir sem kjörnir eru til að fara með umboðið hafi endanlega um það að segja í öllum málum er eðlilegt að þeir hinir sömu séu andvígir því að þessu sé breytt. Hins vegar hefur komið fram sú skoðun í þingskjali af hálfu tveggja þeirra sem skrifa undir álit meiri hlutans, hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur og Björns Bjarnasonar, að alþingismenn þurfi umboð. Það umboð fái þeir í alþingiskosningum og það umboð afmarkist af málflutningi manna í þeim kosningum eða þeirra flokka sem þeir standa fyrir. Í þeirri afstöðu sem birtist í áliti þessara tveggja þingmanna, sem ég nefndi auk eins til viðbótar, varðandi þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópska efnahagssvæðið er raunverulega viðurkennt að takmörk séu á því hversu langt fulltrúar þjóðarinnar geti gengið í ákvarðanatöku. Ég er í rauninni alveg sammála þessum sjónarmiðum þingmannanna sem ég nefndi. Auðvitað er umboð þingmanna takmarkað við þær skoðanir sem þeir láta uppi gagnvart sínum kjósendum. Þessi afstaða, sem ég hygg að ekki séu deilur um á Alþingi, fæðir af sér aðra spurningu: Hvað á að gera þegar menn hafa til úrlausnar mál sem er utan umboðs þingmanna? Þegar umboðið þrýtur? Þegar málið er þannig lagt fyrir í afgreiðslu á þinginu að afstaðan er önnur en afstaða þingmannanna sem þeir gáfu upp þegar þeir sóttu sitt umboð? Eða þegar upp kemur mál sem var ekkert rætt, t.d. í síðustu alþingiskosningum? Við getum ekki útilokað að milli kosninga komi upp veigamikil mál sem menn hafa ekki séð fyrir og því ekki borið á góma í þingkosningum. Það er eðlilegt að spyrja: Hvaða úrræði hafa menn þá? Hvernig eiga menn að bregðast við því þegar umboð þrýtur?
    Þetta frv. gerir mögulegt að taka á þessu vandamáli með myndugum hætti með því að sækja álit þeirra sem endanlega eiga að ráða, þ.e. kjósenda, ýmist með skuldbindandi hætti eða ráðgefandi hætti eftir málum. Það má auðvitað ræða hvort það ætti að vera alveg opið að menn geti sótt um slíka ráðgjöf í öllum málum. Af minni hálfu er ekki endilega neitt aðalatriði að það sé altækt og því til umræðu að skoða þann þátt. Mér finnst t.d. þær upplýsingar sem fram hafa komið um þær takmarkanir sem Danir setja á þjóðaratkvæðagreiðslur athyglisverðar. En þeir sem hafna því að bregðast við þeim vanda sem ég gat um þegar um er að ræða skort á umboði verða að svara spurningunni: Hvernig ætla þeir að bregðast við þegar þessi staða er uppi?
    Ég hef ekki heyrt frá andmælendum frv. neinar tillögur um það hvernig þeir vilja leysa úr þessum vanda þegar augljóst er að þeir hafa til meðferðar eitthvert feikilega mikilvægt mál að allra áliti og niðurstaða málsins sem lögð er til samrýmist ekki því umboði sem þeir sóttu sér í kosningum. Hvernig leggja þessir þingmenn til að úr því verði bætt? Það væri fróðlegt að fá fram sjónarmið um það.
    Svo ég nefni dæmi sem er nærtækt, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, var t.d., eins og ég hef rakið, sú flokkslega afstaða sem Sjálfstfl. gaf upp svo skilyrt að samningurinn eins og hann liggur fyrir núna rúmast ekki innan þeirrar samþykktar. Ef menn segja að þingmenn flokksins hafi upboð í því máli þá afmarkast það umboð af þeirri samþykkt sem flokkurinn gerði. Það sem gerir það að verkum að niðurstaða málsins eins og hún liggur fyrir núna er utan við þessa samþykkt er að ekki er fullnægt kröfunni um hindrunarlaus viðskipti með fisk og ekki er fullnægt kröfunni um að fiskimiðin skuli eingöngu vera nýtt af Íslendingum. Þarna eru því þingmenn Sjálfstfl. utan við það umboð sem þeir sóttu sér. Þar fyrir utan má nefna að einstakir þingmenn Sjálfstfl. voru með skoðanir á þessu máli sem gengu í aðra átt en hin flokkslega afstaða en þær gengu allar í þá átt að hafna frekar og setja stífari skilyrði fyrir samningnum en hinn flokkslega afstaða. Þeir eru því í raun og veru fjær því að uppfylla það umboð sem þeir sóttu sér á grundvelli yfirlýsinga sinna. Það eru yfirlýsingar allt yfir í það að hafna EES.
    Þetta er atriði sem mér fannst nauðsynlegt að bæta inn í umræðuna. Fyrst menn viðurkenna þann grundvöll að umboð þarf til og það afmarkast verða menn að svara spurningunni hvernig bregðast eigi við þegar viðfangsefnið er utan umboðsins. Að mínu mati eru ekki nema þrír kostir. Sá fyrsti er að fella málið af því að menn hafa ekki umboð til að samþykkja það í þeirri mynd sem það liggur fyrir. Annar kosturinn er að rjúfa þingið og efna til alþingiskosninga og sækja sér nýtt umboð á grundvelli breyttrar afstöðu. Þriðji kosturinn er sá sem hér er lagt til að verði tekinn upp. Í dag er ekki hægt að vísa einstökum málum til þjóðarinnar, eða að þjóðin geti kallað til sín einstök mál.
    Það er verulegur kostur að mínu viti sem úrlausn á þeim vanda sem ég gat um. Hann hefur mikla kosti umfram alþingiskosningar sem snúast aldrei um eitt mál heldur ævinlega mörg mál og snúast ekki bara um mál heldur líka menn. Það er því ákaflega erfitt að ráða í það hvaða umboð kjósendur hafa raunverulega veitt eða hvaða skoðun þeir hafa haft á þeirri skoðun sem viðkomandi frambjóðendur settu fram í einhverju afmörkuðu máli því menn horfa á heildina. Að kjósa um afmarkað mál leiðir til, eins og reynslan sýnir bæði í Frakklandi og Danmörku, mjög markvissrar umræðu um það tiltekna mál. Fréttaskýrendur hafa bent á að í báðum löndunum hafi þjóðaratkvæðagreiðslan um Maastricht leitt til þess að þjóðin veit mikið meira um málið eftir atkvæðagreiðsluna en áður. Hún hafi haft verulegt upplýsingagildi og uppfræðslugildi fyrir fólkið. Menn hafi tekið þessu afar málefnalega.
    Reynslan af notkun einsmálsatkvæðagreiðslu sem við erum að sjá í kringum okkur erlendis er því afar góð. Hún fælir okkur ekki frá því að mínu viti að taka upp þetta form hér.
    Ég vil að endingu, virðulegur forseti, gera athugasemd við það að meiri hlutinn leggur til að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi vegna þess að að mínu mati er það ekki rétt niðurstaða þegar löggjafarvaldið fjallar um viðfangsefni eins og þetta að vísa því frá sér til framkvæmdarvaldsins. Ég tel að ef menn teldu að málið þyrfti frekari umfjöllun þá ætti hún auðvitað að fara fram á vettvangi löggjafarþingsins. Menn ættu ekki að vísa málinu af höndum sér yfir á annan arm hins þrískipta valds. Í öðru lagi sé ég ekki hvernig ítarleg pólitísk umfjöllun getur frekar farið fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar eða nefndar á vegum hennar en í þingsölum og nefndum þingsins. Mér sýnist þvert á móti að þessi tillaga leiði til þröngrar pólitískrar umfjöllunar og minni umfjöllunar en ef málið væri áfram á okkar höndum.
    Ég vil svo ekki orðlengja þetta frekar, virðulegi forseti. Mér þótti rétt að benda á þetta atriði sem er út af fyrir sig mjög þýðingarmikið í umfjöllun um þetta mál að það er viðurkennt af tveimur meirihlutanefndarmönnum að umboð þurfi til. Ég hef ekki séð annað en sú skoðun þeirra tveggja hafi verið staðfest af öðrum stjórnarliðum á Alþingi í atkvæðagreiðslu. Það er grundvallaratriði sem menn verða að ganga út frá í umfjöllun um þetta mál.