Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:32:04 (2844)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel nokkra nauðsyn á að rifja hér upp sögulegan aðdraganda þessa máls vegna þeirra ummæla sem hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, hafði að í því fælist ekkert vantraust á íslenska þjóð ef við höfnuðum því að skila aftur til hennar hluta af því valdi sem hún veitti þinginu á sínum tíma.
    Okkar stjórnarskrá er komin frá Dönum. Eftir að við fengum þá stjórnarskrá frá þeim hafa þeir framkvæmt breytingar á sinni stjórnarskrá þar sem þeir skila dönsku þjóðinni valdi aftur og gefa henni kost á því að taka afstöðu til ákveðins máls vegna þess að það sé ekki hægt í almennum kosningum í fulltrúalýðræðinu að koma því svo fyrir að menn geti með góðu móti með atkvæði sínu haft áhrif á eitt afmarkað mál. Auðvitað er það vantraust á íslenska þjóð ef menn treysta sér ekki til að gera þessa lagfæringu eins og Danir hafa gert í þessum efnum. Hér spyr hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, þeirrar spurningar hvort ég flokki þingræðið ekki undir lýðræði. Ég skilgreini lýðræði á þann veg að það sé meirihlutavald fólksins sem ráði ef það er lýðræði.
    Ég lít svo á að íslenska fulltrúalýðræðið sé í sumum tilfellum meingölluð mynd af raunverulegu lýðræði. Ég tel það t.d. meingallaða mynd af raunverulegu lýðræði að Sjálfstfl. skuli hafa stjórnað höfuðstað Íslands lengi án þess að hafa haft meiri hluta kjósenda Reykjavíkurborgar á bak við sig. Ég tel að það sé verulegur galli á lýðræðinu að þetta skuli hafa verið á þennan veg.
    Nú heyri ég að það er orðinn mikill órói í hliðarherbergjum og er nú spurning, herra forseti, hvort það er ekki fyrir utan valdsvið forsetans þar sem menn ræða þar við sjálfs sín sál. En við skulum víkja ögn frekar að lýðræðinu. Við segjum vissulega að Bretar séu lýðræðisþjóð. Við segjum það. En lítum við ekki engu að síður á þeirra fulltrúalýðræði sem nokkuð gallað lýðræði í framkvæmd að það skuli gerast kosningu eftir kosningu að breski íhaldsflokkurinn fari með völd með mikinn minni hluta þjóðarinnar bak við sig? Það væri kannski umhugsunarefni fyrir hv. 3. þm. Reykv. hvort hann telur að þær breytingar sem menn hafa barist fyrir hér að jafna kosningarrétt séu rangar.
    Ég fer ekki dult með þá skoðun mína að ég leit svo á að þegar Íslendingar afsöluðu sér valdi á sínum tíma með Gamla sáttmála, hafi hér verið sambandsríki fjórðunga. Fjórir fjórðungar réðu landinu. Það var ekki nóg að það væri meiri hluti Íslendinga. Það varð að vera meiri hluti í hverjum fjórðungi. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi eftir að skila þessu valdi til hinna fornu fjórðunga. Þegar það hefur verið gert lít ég svo á að það sé sjálfgefið að atkvæðisrétturinn innan hvers svæðis eigi að vera jafn með þeim annmörkum sem felast í því að hér væri þá sambandslýðveldi.
    Ég segi þetta hér og nú vegna þess að mér finnst að menn vilji varpa fram alls konar spurningum um lýðræðið og reyna að snúa því við og segja að á Íslandi sé ekki aðalatriðið að það sé lýðræði. Á Íslandi sé það aðalatriði að hér eigi að vera þingbundin stjórn.
    Auðvitað er það svo að vegna þess að það var vonlaust í framkvæmd að láta heila þjóð greiða atkvæði um hvert einasta málefni var fulltrúalýðræði tekið upp. Það liggur alveg ljóst fyrir. En það var viðurkennt og er viðurkennt að valdið er hjá þjóðinni. Þangað sækja þeir sem hér eru stundlegt umboð til þess að vera handhafar þess valds. Þegar það liggur fyrir að það hefur gefist vel í nágrannaríki okkar, Danmörku, að hafa þann möguleika að beita þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að fá afstöðu meiri hluta þjóðarinnar gagnvart einstökum málum hlýtur það að vera rökrétt framþróun á lýðræði hér á landi að taka það upp.
    Sú hugmynd er nokkuð athyglisverð, sem hér hefur komið fram, og ég virði við hv. 3. þm. Reykv. að hann talar um þann möguleika að þjóðin sjálf kalli eftir því hvenær hún vill hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Vegna fámennis Íslendinga er sú leið vissulega fær. Það er ekki það mikið verk að fá með undirskriftum ákveðinn fjölda sem mundi geta réttlætt atkvæðagreiðslu um ákveðið mál. Engu að síður tel ég að í ljósi þess að það hefur ekki verið hægt að sýna fram á að það hafi verið misnotað í danska þinginu að minni hlutinn hefði þann rétt að kalla eftir vilja þjóðarinnar, þá sé sú leið trúlega einfaldari og að því leyti hagkvæmari.
    Ég fellst á að það er rétt að verið er að taka vald frá löggjafarþinginu ef þetta er gert. Það er verið að taka vald frá löggjafarþinginu. Það er verið að koma í veg fyrir að þingið framkvæmi hluti sem mikill meiri hluti þjóðarinnar er ef til vill á móti. Það er nefnilega orðið ærið umhugsunarefni hvort það sé siðferðislega rétt að leyfa stjórnmálamönnum að leika sér að því eins og gerst hefur að túlka allt annan vilja fyrir kosningar og í kosningum en þeir svo boða strax og þeir eru kjörnir inn á þing. Það er mikil spurning hvort ekki er nauðsyn að stöðva þann leikaraskap.
    Ég segi fyrir mig að ég hef fullan skilning á því ef það liggur á bak við þessa ákvörðun að meiri hlutinn treystir sér ekki í kosningar eins og málum er háttað. Þá vil ég líka að það komi hér fram að þeir sem leggja til að frv. sé vísað til ríkisstjórnarinnar séu að leggja til með jákvæðu hugarfari að frv. sé vísað til ríkisstjórnarinnar og þeir séu í reynd að segja að þeir vilji fá fram rýmkun í stjórnarskránni á þessum ákvæðum en ekki sé verið með einhverjum skrípaleik í þeim efnum að vísa málum til ríkisstjórnarinnar bara til þess að þar fái einhver atvinnu við að raða slíkum málum upp í möppu og skrá þau. Það hlýtur að vera einhver merking, einhver tilgangur í því ef menn vilja vísa máli til ríkisstjórnarinnar.
    Sú meginregla hefur verið þegar málum hefur verið vísað til ríkisstjórnarinnar að menn hafa einhverra hluta vegna talið að það þyrfti að fara yfir málin betur og skoða þau ofan í kjölinn en menn væru jákvæðir fyrir því að tekið væri á umræddum málum með lagasetningu. Að snúa þessu við og segja: Við viljum vísa málinu til ríkisstjórnarinnar þegar menn í reynd vilja að þau séu felld finnst mér vera út í hött.