Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:54:45 (2846)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hygg að ég hafi skilið allt í ræðu hv. þm. annað en það að mér finnst dálítið torskilið hvernig hægt er að rökstyðja að íslenska stjórnarskráin eigi uppruna sinn hjá þjóð sem ekki hefur stjórnarskrá. Ég hélt að sú franska hefði kannski ekki síður komið til álita þegar önnur Vesturlönd voru að búa sér til stjórnarskrá og einnig sú bandaríska. En Bretar hafa búið við Magna Carta eins og menn vita og mér er ekki ljóst hvernig það er hægt að tengja það saman.
    Það er aðeins eitt sem mér er gersamlega hulið í þeim málatilbúnaði sem uppi er hafður af hv. stjórnarsinnum og það er hvers vegna þeir leggja til að þessu máli sé vísað til ríkisstjórnar. Ef málið er alvitlaust eins og má skilja af málflutningi þeirra, gæti meira að segja leitt til algers stjórnleysis í landinu, hvers vegna er verið að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar? Hvað er verið að íþyngja ríkisstjórninni með því að senda henni bréf um alvitlaus mál sem geta leitt til stjórnleysis? Af hverju leggja menn þá ekki til að þetta sé fellt? Stjórnarskrárnefndin getur að sjálfsögðu skoðað málið alveg án tillits til þess hvort það er fellt eða hvort því er vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er ákaflega sérstætt að þurfa að hlusta á málflutning sem þann að það frv. sem flutt er sé túlkað svo alvitlaust að það nái ekki nokkurri átt en jafnframt er lagt til að því sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég skil hreinlega ekki svona tillögugerð og mér finnst að þingið eigi skilið að fá skýringu á þessu.