Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:56:57 (2847)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því í minni ræðu að hv. frsm. meiri hluta ásamt öðrum þingmönnum hefði viðurkennt í reynd og með sérstöku þingskjali að þingmenn þurfa umboð til þess að afgreiða mál og það umboð afmarkist af málflutningi þeirra í alþingiskosningum. Ég hef enn fremur vakið athygli á því að í hinu stóra máli sem er til umræðu í þinginu í vetur um Evrópska efnahagssvæðið nær umboð þingmanna Sjálfstfl. skemmra en frv. gerir ráð fyrir. Auðvitað verða menn að finna svör við vanda sem upp kemur þegar menn eru að fást við úrlausn mála sem eru á þann veg fallin að þeir hafa að eigin mati ekki umboð til að ljúka þeim. Ég gat um þrjár leiðir sem ég sá fyrir mér að menn hefðu til að bregðast við. Fyrsta leiðin væri að fella málið. Önnur leiðin væri að rjúfa þing og efna til þingkosninga. Þriðja leiðin væri að bæta inn í stjórnarskrána ákvæðum eins og hér er lagt til sem heimilar mönnum að vísa þeim málum til þjóðarinnar, ýmist til ráðgefandi álits eða endanlegrar ákvörðunar.
    Ég spurði hv. frsm. hvaða tillögur þeir hefðu til að finna lausn á þessu vandamáli þegar menn eru umboðslausir í máli fyrst þeir legðust gegn þessu frv. Við þessu hefur ekkert svar fengist og ég ítreka því spurningu mín til hv. frsm. Hver er tillaga meiri hluta nefndarinnar um úrbætur til þess að bregðast við vandamáli af því tagi þegar umboð þrýtur?