Lögheimili

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 18:03:21 (2852)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um breyting á lögum nr. 21. 5. maí 1990, um lögheimili.
    Frv. er í þremur greinum og þar sem 1. gr. segir mjög skýrt það sem frv. leggur til vil ég, með leyfi forseta, lesa greinarnar:
  ,,1. gr. Á eftir 3. mgr. 4. gr. laganna kemur ný svohljóðandi málsgrein:
    Manni, sem býr á dvalarheimili aldraðra eða í öðru húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum, skal heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður.
    2. gr. Við 5. mgr. 4. gr. laganna (er verður 6. mgr.) bætist nýr málsliður svohljóðandi: Sama gildir um lögheimili manns skv. 4. mgr.
    3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Hér er á ferðinni mjög lítið mál frá sjónarhóli ríkis eða sveitarfélaga, þ.e. hér er til þess eins tekið að aðili, sem þarf að búa á dvalarheimili aldraðra eða húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum hluta úr árinu eða allt árið, ætti, ef frv. verður að lögum, kost á að hafa sitt lögheimili það sama og var áður en hann þurfti að flytja í áðurnefnt húsnæði.
    Það má segja sem svo að í sumum tilfellum geti þetta skipt verulegu máli gagnvart réttarstöðu. Svo er t.d. um mann sem af einhverjum ástæðum vill eiga kosningarrétt á ákveðnum stað. Einnig hefur þetta áhrif á réttarstöðu varðandi það atriði að ef um bónda er að ræða getur jörð fallið úr þeirri skráningu að vera talin í ábúð og verða skráð sem eyðibýli en við það verður viss réttindaskerðing á býlinu.
    Einnig hefur þetta þær afleiðingar að samkvæmt ábúðarlögum er hægt að skylda aðila til að leigja jörð. Undir sumum kringumstæðum er það svo að í íbúðarhúsnæði viðkomandi jarðar á sá aðili allar eigur sínar og yrði, ef hann mundi leigja það, að gera sérstakar ráðstafanir til að koma þeim fyrir annars staðar. Hér getur verið um persónulega muni að ræða sem fólk er bundið tilfinningaböndum. Ég flokka þetta mál þess vegna fyrst og fremst undir mannréttindi, þ.e. hvaða virðingu menn bera fyrir einstaklingnum, fyrir því að hann megi einhverju ráða í okkar samfélagi, rétti hans til að ráða því t.d. hvar hann á sitt lögheimili.
    Ég hygg að afstaða manna til þessa máls hljóti því fyrst og fremst að byggjast á því hvaða viðhorf menn hafa til einstaklingsins og réttarstöðu hans.
    Ég vil ekki ætla Alþingi Íslendinga það að með þeirri samþykkt sem gerð var þegar lögin voru færð í það horf sem nú er hafi menn vísvitandi verið að taka ákvörðun um að svipta menn rétti heldur hygg ég að hér hafi fyrst og fremst verið um það að ræða að menn hafi ekki hugsað það mál til enda hvaða afleiðingar fylgdu þeim breytingum sem voru lagðar til.
    Eitt af því sem þekkt er í Íslandsklukkunni og þykir allsérstætt var þegar Jón Hreggviðsson hafði fært það í tal við þann mann sem frægastur var allra Íslendinga í Kaupmannahöfn, Arnæus, að flytja mál sitt fyrir kónginum, þá fannst þeim háa íslenska herra að málið væri e.t.v. svo smátt að það tæki því ekki að flytja það í konungsgarði því á þeim stað ættu menn ekki að biðja um neitt sem væri lítið. En Jóni fannst að sá væri eldurinn heitastur sem á eigin skinni brynni. Í hans huga var málið stórt.
    Ég hygg þess vegna að um þetta mál megi segja að fyrir vissa einstaklinga í okkar samfélagi sé um stórt mál að ræða en að sjálfsögðu er það rétt að í augum samfélagsins er þetta mál lítið.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en óska eftir því að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.