Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 13:46:23 (2855)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Eins og sjá má á þskj. 317 skrifa ég undir nál. meiri hlutans með fyrirvara. Fyrirvari minn byggist nær eingöngu á gildistökuákvæði frv. sem kveðið er á um í 7. gr. og er bundið við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. að lögin öðlist gildi um leið og sá samningur.
    Ég hef ekki hugsað mér að gera upp hug minn gagnvart þeim samningi með atkvæðagreiðslu um þetta frv. og því skrifa ég undir með fyrirvara.
    Eins finnst mér 4. gr. vera dálítið opin með reglugerðarákvæðum. Ítarlegar umræður fóru fram um það mál í nefndinni og niðurstaða varð sú að hafa 4. gr. svona eða nokkurn veginn óbreytta. Það er m.a. vegna norræna samningsins sem frv. fjallar m.a. um.
    Um frv. er annars að segja að það var sent mörgum aðilum til umsagnar. Umsagnir voru yfirleitt mjög jákvæðar. Frv. nær ekki til mjög margra stétta. Það var misskilningur hjá hv. menntmn. í upphafi að við sendum frv. óþarflega mörgum aðilum til umsagnar en umsagnir voru yfirleitt mjög jákvæðar enda er hér um gott mál að ræða og það tókst mjög gott samstarf í nefndinni um málið. Ég hélt lengi vel að samstaða yrði um afgreiðslu þess en eftir því sem síðar kom í ljós skila tveir hv. þm. sérstöku nál. og hugsa sér að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Svo er einnig um þá sem þetta mælir.