Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 13:50:18 (2857)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Frv. sem hér er til umræðu ber heitið frumvarp til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi.    Hér er fyrst og fremst verið að takast á um það hvort samþykkt sé að gagnkvæm viðurkenning á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum verði til staðar.
    Ég vil segja það fyrst að ég er hlynntur því að Íslendingar viðurkenni menntun erlendis frá til starfa hér á landi ef hún er sambærileg og sú menntun sem við höfum hvort heldur er frá Evrópu, Ameríku eða annars staðar frá. Ég er í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar að við eigum að viðurkenna menntun manna og ekki að reisa neina múra gegn þeim sem hefur náð árangri í námi, hvort heldur það er erlendur aðili eða íslenskur. Ef við veitum honum ríkisborgararétt eða starfsréttindi hér á landi eigum við að viðurkenna hans menntun. Hitt er svo annað mál að í sumum tilfellum er það svo að sá maður sem fær menntun viðurkennda fær í reynd starfsréttindi hér á landi ef um það er að ræða að hann vill starfa sem sjálfstæður atvinnurekandi og hefur um nokkur ár verið það í sínu heimalandi. Í reynd er undir vissum kringumstæðum verið að viðurkenna að um starfsréttindi sé að ræða.
    Vegna þessa hefur frv. þetta nafn en í brtt. er lagt til að þessu sé breytt. Það er lagt til að orðin ,,menntunar er veitir starfsréttindi`` í 1. gr. falli út og að heiti frv. verði breytt á sama veg. Ég tel að hér sé um misskilning að ræða vegna þess að sum próf eru á þann veg að þau veita starfsréttindi. Tilgangurinn með menntuninni hefur verið að veita starfsréttindi og þess vegna finnst mér að heiti frv. eins og það er lagt inn til þingsins sé rökrétt og rétt.
    Það er aftur á móti nokkuð í þessu frv. sem gerir það að verkum að ég treysti mér ekki til að standa að samþykkt þess og það er 4. gr. Með leyfi forseta vil ég lesa hana upp:
    ,,Ráðherra sem í hlut á getur með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum að því er varðar ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga sem felast í tilskipunum eða samningum sem falla undir 1. gr.``
    Þetta atriði sem hér er verið að tala um er svo víðtækt vald í reglugerðarheimild sem verið er að afhenda ráðherra að mér finnst það eitt lagatæknilega séð gersamlega út í hött. Það má alltaf deila um hvað eigi að vera í reglugerðum. En að veita ráðherra jafnmikið vald og hér er verið að tala um er nánast að selja honum sjálfdæmi um það hvað hann vill gera í þessum efnum. Mér finnst að Alþingi Íslendinga geti ekki samþykkt slíkt ákvæði í reglugerðarheimildum til ráðherra.
    Meginreglan er sú að reglugerðum er ætlað það hlutverk að vera nánari túlkun á lögum innan þess ramma sem lögin sjálf gera ráð fyrir, þ.e. lögin mynda hinn ytri ramma sem reglugerðin verður að vera innan og túlka til skýringar. Hér er aftur á móti verið að snúa þessu við því að hér stendur, eins og ég las upp, að ráðherrann á með reglugerðinni að veita undanþágu frá lögunum. Reglugerðin á að vera utan um lögin, lögunum utar og ofar. Burt séð frá því hvort menn í eðli sínu vilja stuðla að því að Ísland samþykki samninginn um EES eða ekki finnst mér það gersamlega út í hött að standa svona að lagasetningu. Ég verð að segja eins og er að mér þótti vænt um það þegar á fund allshn. kom einn af okkar mætu frumvarpsgerendum, sem hefur samið mörg frumvörp fyrir ríkisstjórnina og var að gera grein fyrir frv. sem hann hafði unnið, þá kom það fram að hann hafði mikla skömm á því hversu rúmt við heimilum ráðherrum að dansa með reglugerðarheimildum.
    Ég hef líka orðið var við það að í ákveðnum íslenskum stjórnmálaflokki hefur verið alveg sérstaklega talað um að draga úr reglugerðarfarganinu, minnka reglugerðarfarganið. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. af því að það hefur stundum komið fyrir að kastast hefur í kekki milli hans og hv. 9. þm. Reykv.: Væri hæstv. menntmrh. spenntur fyrir því að samþykkja svona reglugerðarheimild ef hæstv. ráðherra væri óbreyttur þingmaður en hv. 9. þm. Reykv. væri menntmrh.? Ég er ekki viss um að svo væri. Nú er það ekki okkar að semja lögin miðað við að þessi eða hinn sé ráðherra og ég treysti hv. 9. þm. Reykv. enn síður til að fara með þetta vald en núv. hæstv. menntmrh. En ég sé það ekkert fyrir hverjir eiga eftir að verða menntmrh. í þessu landi og hvaða vald ég er að afhenda slíkum mönnum. Ég sé það ekki fyrir.
    Mér finnst það þess vegna nokkuð mikil bjartsýni að ætlast til þess að þingið fari að samþykkja lög þar sem ráðherra er heimilt með reglugerðarvaldi að nema lagaákvæði úr gildi. Mér finnst að þegar svona hlutir komi upp eigi ráðuneytið að láta vinna betur og skýrar hvað það er sem þeir eru að fara fram á. Ef svo kæmi í ljós að einhverju þyrfti nauðsynlega að breyta, þá finnst mér að hæstv. menntmrh. eigi á hverjum tíma að flytja um það lagafrv., leggja það fyrir þingið og þá skýra hvers vegna nauðsyn er á því að þetta sé gert.
    Ég er sannfærður um það að ef svo fer að Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika, þá á það oft eftir að koma upp á að ráðherrar þurfi að leggja fyrir Alþingi Íslendinga frumvörp. Hvers vegna skyldi ekki vera hægt að viðhafa það líka í þessu tilfelli að þrengja 4. gr. á þann veg að þeirri hefð verði viðhaldið varðandi reglugerðir á Íslandi að þeim sé ætlað að vera innan ramma laganna en ekki að þeim sé ætlað að nema lög úr gildi ef ráðherra hverju sinni telur að það sé rétt að standa þannig að málum?
    Ég tel að það hljóti að vera svo varðandi þessa hluti að fyrst og fremst sé um að ræða persónulegt mat manna á því hvernig eðlilegast sé að standa að lagasetningunni.