Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:00:21 (2858)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir hvernig hún hefur unnið að þessu máli og lýsa því yfir að ég er samþykkur þeim brtt. sem hér hafa verið lagðar fram.
    Aðeins örfá orð varðandi 4. gr. og það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði í því samhengi. Í fyrsta lagi er gerð brtt. við fyrri mgr. 4. gr. þar sem segir svo: ,, . . .  vegna skuldbindinga er felast í tilskipunum eða samningum sem falla undir 1. gr.`` Þar komi í staðinn: `` . . .  er felast í tilskipun þeirri eða samningum sem falla undir 1. gr.``, sem þrengir þetta aðeins.
    Ég get hins vegar sagt það að ég er fylgjandi því að draga úr reglugerðarfarganinu eins og hv. þm. orðaði og vísaði þar til áhuga sem hefur komið fram í mínum flokki. Ég held að almennt séð innihaldi of margar reglugerðir alveg sjálfsagða hluti, upptalningu á því sem er í lögum. Því miður er í sumum tilvikum hægt að benda á reglugerðir sem eru of rúmar þannig að vafi er á, svo ekki sé fastar að kveðið, að heimildir séu í lögum sem viðkomandi reglugerð styðst við. Þess vegna finnst mér að það beri að fara mjög varlega og varlegar en oft hefur verið gert í sambandi við setningu reglugerða. Ef ekki er bein þörf á því að setja reglugerð til þess að fylla nánar út í lögin, þá á að láta það vera. Ég gæti bent á dæmi um það.
    Í þessu tilviki er verið að leita heimildar fyrir ráðherra til að veita undanþágu frá eldri lögum sem kunna að stangast á við það sem þarna er verið að ákvarða. Þessi heimild er því í sjálfu sér mjög þröng. Ég held að ekki hafi sérstaklega verið farið í það að kanna hvort einhver lög kunni að vera til sem ákvæði þessara laga kynnu að stangast á við en það er eingöngu það sem er verið að fara fram á. Ég held ég hafi sagt eitthvað á þessa leið varðandi fyrri mgr. 4. gr. þegar ég talaði fyrir frv.:
    Í fyrri mgr. 4. gr. felst heimild til hlutaðeigandi ráðherra til þess að veita undanþágu með reglugerð frá lögum sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini eða viðurkenningu að skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda. Slíkt ákvæði getur verið nauðsynlegt vegna skuldbindinga sem felast í tilskipuninni eða samningum sem falla undir 1. gr.
    Það er mitt mat að þarna sé ekki verið að ganga lengra en sæmilegt getur talist en ég er alveg sammála hv. þm. að meginreglan á auðvitað að vera sú að ef í ljós kemur að eitthvað stangast á við eldri lög, þá eigi að flytja um það sérstakt frv. ef þörf er talin á. Mér sýnist í þessu tilviki að ekki sé gengið lengra en ásættanlegt ætti að vera fyrir Alþingi.