Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:29:54 (2863)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í meðförum í menntmn. hefur frv. tekið verulegum breytingum og þá einkanlega að því leyti að í 1. gr. er það þrengt mjög, þannig að það tekur eingöngu til einnar tilskipunar ásamt norræna samningnum sem fellur líka undir frv.
    Varðandi 4. gr. þá urðu töluverðar umræður um hana í menntmn. og niðurstaðan varð sú að vegna norræna samningsins þá væri nauðsynlegt að hafa þetta undanþáguákvæði. Og ég tek undir þau orð ráðherrans áðan að það hlýtur að verða túlkað þröngt. Það eru ekki mjög mörg störf sem falla undir þetta frv. vegna þess að það fjallar að sjálfsögðu um störf sem þurfa löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu til.
    Hvað varðar 5. gr. þá er gerð brtt. við hana þannig að lagt er til að hún orðist svo:
    ,,Menntamálaráðuneytið skal sjá um að samræma framkvæmd þeirrar tilskipunar og samninga sem falla undir 1. gr. Nánari ákvæði um þá framkvæmd skulu sett í reglugerð.``
    Þar með er lagt til að þessi ákvæði, sem lúta að framkvæmdinni og voru inni í textanum áður, séu felld brott.