Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:49:47 (2869)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það komu fram í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar við umræðurnar áðan spurningar um framkvæmd og samræmingu. Ég vil gjarnan fara nokkrum orðum um þau atriði.
    Það er gert ráð fyrir því að þau stjórnvöld sem nú fjalla um og afgreiða umsóknir um leyfi til að leggja stund á tiltekin störf hér á landi geri það áfram og sjái þá jafnframt til þess að settum skilyrðum samkvæmt frv. sé fullnægt. Það er líka gert ráð fyrir því að það verði haft náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins um meðferð og afgreiðslu umsókna útlendinga um heimild til þess að stunda starf hér á landi.
    Varðandi samræmingu, þá kom það mjög glögglega fram í umsögnum til menntmn. um þetta mál að ýmsir aðilar fjölluðu sérstaklega um menntunina. Það er alveg víst að hér eru gerðar meiri kröfur til menntunar sumra starfsstétta en í ýmsum löndum EB. En samkvæmt frv. er hægt að krefjast hæfnisprófs, viðbótarmenntunar eða starfsþjálfunar eftir því sem við á. Þessar ströngu kröfur sem við gerum hér á landi til menntunar margra stétta, og eru umfram það sem ýmis önnur lönd gera, ættu að geta skapað Íslendingum sterkari stöðu til þess að sækja um störf bæði á Íslandi og annars staðar innan þessa svæðis.
    Hvað varðar lista yfir starfsheiti sem mundu falla undir frv. þá er unnið að honum í menntmrn. og ég vænti þess að sá listi verði brátt fullgerður.