Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 14:55:29 (2872)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég var ekki að víkja að þeirri málsmeðferð sem fram hefur farið hér á landi heldur möguleikunum til þess að hafa áhrif á það sem snertir það samstarf sem hér er verið að innleiða með lögfestingu frv., þ.e. að við eða einkum aðilar vinnumarkaðarins geti haft áhrif á það hvort starfsréttindi fólks að utan séu viðurkennd. Ég dreg það í efa að okkar réttarstaða sé merkileg í sambandi við þennan samning gagnvart þeim tilskipunum sem gilda. Ég spyr: Er það ljóst að við komumst upp með að hafna þeim réttindum sem menn hafa aflað sér í viðkomandi landi? Er okkur stætt á því réttarlega séð ef við metum það að þau séu ekki sambærileg við það sem hér hefur verið krafist?