Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:29:22 (2881)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessar mínúturnar eru vaktaskipti á sjúkrahúsum borgarinnar. Fimmtu vaktina í röð standa deildir sjúkrahúsanna frammi fyrir þeim vanda hvernig hægt verði að sinna þjónustu við sjúklinga meðan kjaradeila sjúkraliða stendur yfir. Ástandið verður alvarlegra með hverri klukkustund sem líður. Aðgerðum er frestað, bráðaþjónustu er haldið uppi eftir því sem hægt er, álagið á starfsfólk er gífurlegt en reynt er að halda uppi lágmarksþjónustu. Svona getur þetta ekki gengið stundinni lengur.
    En, virðulegi forseti, það hefur ekki verið boðaður samningafundur milli aðila og eins og er verður ekki annað séð en að deilan muni standa enn um sinn. Það má öllum ljóst vera að starfsstéttir sjúkrahúsanna grípa ekki til þess örþrifaráðs að ganga út af sínum vinnustað til fundarhalda fyrr en allt um þrýtur. Svo mikil er ábyrgð þeirra. Stéttarfélag sjúkraliða hefur verið án kjarasamnings í 15 mánuði. Þeir hafa ekki fengið þær kjarabætur sem annað launafólk samdi um í síðustu kjarasamningum, enda hafa aðeins örfáir samningafundir verið haldnir. Þolinmæði sjúkraliða er einfaldlega þrotin. Kröfur nýstofnaðs Félags sjúkraliða eru í raun einfaldar: 1,7% launahækkun ásamt orlofsuppbót og að félagsmenn úti á landi haldi áunnum réttindum. En þar stendur hnífurinn í kúnni.
    Með síðustu breytingum á verkaskiptingu ríkis- og sveitarfélaga gerðist það að allt starfsfólk sjúkrahúsa úti á landi urðu ríkisstarfsmenn. En ýmsir hópar svo sem sjúkraliðar, meinatæknar og röntgentæknar hafa hingað til verið félagar í starfsmannafélögum hinna ýmsu bæjarfélaga. Víða úti á landi höfðu starfsmannafélögin náð mun betri samningum hvað varðar laun og ýmiss konar réttindi fyrir sitt fólk en gerist hér á höfuðborgarsvæðinu. T.d. má nefna að grunnlaun sjúkraliða á Selfossi eru 15 þús. kr. hærri en í Reykjavík. Á Akranesi er í gildi samningur sem veitir sjúkraliðum þar mun meiri félagsleg réttindi en kollegar þeirra á sjúkrahúsum höfuðborgarinnar njóta.
    Þessi mismunandi kjör breyta ekki þeirri staðreynd að sjúkraliðar, sem eru nánast hundrað prósent kvennastétt, eru láglaunastétt. Byrjunarlaun sjúkraliða á dagvakt í Reykjavík eru samkvæmt þeim samningum sem greitt er eftir 52.426 en hæstu laun komast upp í 68.301. Það sér það auðvitað hver maður að á þessum launum er ekki hægt að lifa enda taka þeir sjúkraliðar sem geta mikið af aukavöktum til að ná upp laununum.
    Ríkisvaldið verður að horfast í augu við þá staðreynd að það tekur við starfshópum sem búa við mismunandi kjör eftir því hvar fólk býr á landinu. Það getur ekki verið meiningin að semja um afnám réttinda og jafnvel launalækkun fyrir sjúkraliða úti á landi, eða hvað? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir sjúkrahúsin úti á landsbyggðinni ef slík réttindasvipting ætti sér stað? Hvað kemur í veg fyrir það að mismunandi kjarasamningar gildi á hinum ýmsu stöðum? Er það eitthvert náttúrulögmál að allir verði að hafa sömu laun og sömu réttindi í sömu störfum hjá ríkinu? Það er mjög margt sem mælir með því að fólk í sérhæfðum störfum úti á landsbyggðinni njóti ákveðinna ,,bestukjara`` til að tryggja að t.d. sjúkrahús séu mönnuð sérmenntuðu fólki.
    En hvað gerist? Enn einu sinni hefur samninganefnd ríkisins undir stjórn fjmrh., að þessu sinni hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar, tekist að koma vinnudeilu við ríkisstarfsmenn í algeran hnút. Það virðist vera orðin lenska hjá ríkisvaldinu að bíða þess að allt komist í eindaga. Láta reyna á hörku ríkisstarfsmanna, hóta þeim lögsókn fyrir Félagsdómi, segja að þeir verði hýrudregnir og halda því fram með mæðusvip að ríkið hafi teygt sig til hins ýtrasta í sáttaátt. Lengra verði ekki gengið. Hvað heldur hæstv. fjmrh. að vinnist með svona málflutningi?
    Þessi síendurtekna framkoma við ríkisstarfsmenn, hverjir sem þeir eru er óþolandi og ósæmandi íslenska ríkinu. Ég spyr: Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að haga launastefnu sinni ef Ísland verður aðili að EES? Heldur hæstv. fjmrh. að svona launastefna og framkoma gangi á opnum vinnumarkaði?
    Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það stefna ríkisstjórnarinnar að svipta ríkisstarfsmenn áunnum réttindum? Hver er launastefna þessarar ríkisstjórnar? Telur fjmrh. að sjúkraliðum beri ekki sama launahækkun og öðrum launþegum? Hvað á fjmrh. við með því sem hann lét út úr sér í fjölmiðlum að hann óttist fordæmisgildi þess að viðurkenna réttindi sjúkraliða úti á landi? Er hæstv. fjmrh. sammála þeirri skoðun Birgis Guðjónssonar, formanns samninganefndar ríkisins, að ekki sé hægt að gera tvo samninga við eitt stéttarfélag? Og ég spyr: Hvað ætlar hæstv. heilbrrh. að gera til lausnar deilunni? Ætlar hann að horfa aðgerðalaus á þetta ástand?
    Virðulegi forseti. Að mínum dómi er hér á ferð deila sem snýst um áunnin réttindi og sanngjarnar launakröfur. Það getur enginn ætlast til þess að stéttarfélag semji réttindi af félagsmönnum sínum. Þessi deila snýst líka um það að Félag sjúkraliða verði viðurkennt sem landsfélag.
    Virðulegi forseti. Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni úr þessum ræðustól að það þurfi að stokka upp allt launakerfi ríkisins, ekki síst með tilliti til launakjara kvenna. Það sannast nú enn einu sinni hve þetta launakerfi er handónýtt og óréttlátt.
    Ég vil að lokum skora á hæstv. fjmrh. að skipa samninganefnd ríkisins að sjá til þess að boðaður verði samningafundur þegar í stað. Sjúklingarnir geta ekki beðið lengur. Sjúkraliðarnir geta ekki beðið lengur. Annað starfsfólk sjúkrahúsanna og aðstandendur sjúkra geta ekki beðið lengur. Lausn þessarar deilu er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjmrh., við viljum sjá aðgerðir strax.