Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:46:04 (2885)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég átti sæti í launanefnd sveitarfélaga á árunum 1986 og 1987. Á þeim tíma var farið inn á nýjar brautir í kjarasamningum sveitarfélaga. Fram að því viðgekkst að gerð aðalkjarasamnings

var á vegum samtaka sveitarfélaga en svokallaður sérkjarasamningur fór fram heima í héraði þar sem oft var tekist á um viðbæturnar við aðalkjarasamninginn sem gilti fyrir alla.
    Á þessum tíma var fyrirkomulaginu breytt og einungis einn kjarasamningur gerður. Það náðist samstaða með samninganefndum og launanefndum sveitarfélaga að reyna gerð kjarasamnings til lengri tíma en áður tíðkaðist og með nýjum áherslum. M.a. var leitað eftir samfloti ríkisins. En því miður vildu hvorki ríkisvaldið, Reykjavíkurborg né reyndar tvö önnur sveitarfélög úr hópnum vera með í þessu samfloti sem reyndist þegar upp var staðið verða samflot um 18 sveitarfélaga á landinu, þar með talið allra þeirra stærstu utan Reykjavíkur. Gerður var þriggja ára kjarasamningur með ákvæðum um endurskoðun á röðun í launaflokka, þ.e. það var samþykkt og ákveðið að gera starfsmat í öllum bæjunum ásamt ákvæðum um að samræma gerð þessa starfsmats síðar. Þetta var feikilega mikilvægur samningur fyrir alla sem að honum stóðu. Hin mjúku gildi fengu meira gildi en áður við endurröðunina sem ég hef nefnt og ýmis kvennastörf á vegum sveitarfélaga fengu betri röðun.
    Fyrsti vandi þess að sömu störf voru ekki flokkuð eins hjá ríki og sveitarfélagi --- við þekkjum mörg dæmi um að það hafi verið jafnvel þriggja flokka munur --- kom í ljós þegar gerð var breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fyrir tveimur árum.
    Nú þegar sjúkraliðar hafa myndað stéttarfélag og vilja semja í einum hópi veldur þessi mismunur vanda sem erfitt er að leysa við aðstæðurnar í dag. Þá er ég að vísa til þess að flestir launþegar hafa fengið 1,7% hækkun og ef ekki á að brjóta á þeim sem voru hjá sveitarfélögunum yrði að hækka alla upp í launaflokkum.
    Virðulegi forseti. Það var mikil samstaða um að meta upp á við umönnunarstörfin hjá sveitarfélögunum á sínum tíma. Því er mjög mikilvægt að finna lausn nú sem dregur ekki úr því mati.