Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:48:56 (2886)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mér heyrðist hv. flokkssystir hæstv. heilbrrh. tala um að það þyrfti í rauninni að hækka alla. Sé svo styð ég það að sjálfsögðu.
    Undanfarið hafa orðið umræður um lögmæti ýmiss konar aðgerða í launa- og kjaramálum. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel aðgerðir sjúkraliða fullkomlega lögmætar og allar tilraunir til að gera þær tortryggilegar og draga samningaviðræður á langinn þar með óréttmætar. Ég tek það fram að sjúkraliðar hafa verið seinþreyttir til vandræða, samningslausir eins og þeir hafa verið. Það hefur glögglega komið fram. Þetta er frámunalega illa launuð kvennastétt og nú er hún loksins búin að fá nóg.
    Þetta mál snýst þó ekki síst um félagafrelsi. Ef aðgerðir stjórnvalda verða til þess að Sjúkraliðafélag Íslands verður neytt til að liðast sundur vegna þess að samningsréttur verður ekki hjá því vegna ákvæða laga um hvernig samningsréttur heils stéttarfélags myndast, þá má spyrja hvort slíkur þrýstingur sé lögmætur. Það er nefnilega búið að stilla málinu upp nákvæmlega með þessum formerkjum.
    Ísland hefur oftar en einu sinni verið minnt á það að 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu hefur ekki verið virt hér á landi en hún fjallar um félagafrelsi. Þetta þykir lítt lýðræðislegt. Spurningin hefur snúist um rétt fólks til að standa utan stéttarfélaga en við megum ekki gleyma því að þessi grein í félagsmálasáttmála Evrópu snýst fyrst og fremst um rétt fólks til að stofna og vera í stéttarfélögum, ekki síst í þeim tilgangi að semja um kaup og kjör. Ég hlýt að varpa því fram í þessari umræðu til íhugunar hvort þessar deilur við stjórnvöld séu þegar farnar að vera þannig að þær snúist um óeðlilegan þrýsting og að brjóta niður félagafrelsi. Ég hef því miður ekki tímans vegna möguleika á að lesa þessi ákvæði en þau eru hér fyrir hvern sem vill kynna sér þau.