Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:51:24 (2887)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það skortir á launastefnu hjá hinu opinbera. Það eru sífellt að koma upp vandamál vegna þess að menn gæta ekki að því samræmi sem þarf að vera á launum. Stjórnvöld sinna ekki þeirri kröfu sem af réttlæti og sanngirni er sett fram af hendi launafólks. Aðalástæðan fyrir þeirri deilu sem hér er til umræðu er sú að mörg sveitarfélög á landsbyggðinni höfðu látið fara fram ítarlegan samanburð á störfum sinna starfsmanna, svokallað starfsmat. Niðurstaðan af óvilhöllu mati og samanburði á störfum sjúkraliða við önnur störf leiddi í ljós að sjúkraliðar höfðu verið hlunnfarnir í launum árum saman. Laun þeirra hækkuðu því umtalsvert vegna starfsmatsins og í samningum annarra sveitarfélaga í kjölfarið vegna eðlilegs samanburðar. Þegar breyting varð á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga kom þess vegna upp það vandamál sem hér er við að glíma, þ.e. hið opinbera hefur ekki með sama hætti og sveitarfélögin borið saman störf sinna starfsmanna og þar er sama óréttlætið ríkjandi og áður gagnvart sjúkraliðum. Niðurstaða stjórnvalda í þessu máli hefur orðið sú að allir sjúkraliðar skuli ráðnir á lægstu kjörum. Þá neita menn að horfast í augu við þá staðreynd að endurskoðunar er þörf og ætla að leysa málið með því að brjóta á bak aftur eðlilegar kröfur um að fólk fái að halda umsömdum launum en því lofaði ríkið þegar verkaskiptasamningarnir voru gerðir. Það er mjög alvarlegt mál og bætist ofan á önnur svik sem hafa orðið af hálfu hins opinbera við sveitarfélögin og aðra aðila sem hafa þurft að semja við ríkið. Ég tel þetta reyndar dæmafáa hógværð í kröfugerð sjúkraliða vegna þess að margendurtekinn samanburður á störfum sjúkraliða við störf annarra starfsmanna sveitarfélaganna sannar að sjúkraliðar í þjónustu ríkisins eru hlunnfarnir í launum. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Virðulegur forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Það skortir á samræmda

launastefnu hins opinbera. Hún virðist vera sú ein að kúga fólk til að falla frá eðlilegum kröfum og svíkja samninga og loforð um að fólk eigi ekki að líða fyrir það að færast á milli stofnana.