Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:56:31 (2889)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið minnst á það að þetta mál á rætur sínar að rekja til síðustu samninga milli ríkis og sveitarfélaga um breytingu á verkefnum þeirra í milli. Við þá breytingu og samningagerð voru reiknuð út fjárhagsleg áhrif af breytingunum, bæði hvað varðar þau verkefni sem fóru til sveitarfélaga og svo aftur þau verkefni sem fóru frá sveitarfélögunum til ríkisins. Ég veit ekki betur og tel raunar fullvíst að kaup og kjör, eins og þau eru úti um landið, hafi verið viðurkennd í þessum útreikningum og að ríkið hafi samþykkt þau þá og síðan í gegnum fjárlög, hvort heldur er um að ræða stofnanir á beinum fjárlögum eða á daggjaldakerfi. Ef ráðuneytið neitar nú að viðurkenna þessi kjör við það eitt að þeir sem vinna þessi störf vilja sameinast í einu stéttarfélagi, sem nær yfir landið allt, er um að ræða verulega stefnubreytingu. Ég tel eðlilegt að stuðla að því að atvinnugreinafélög verði til og samningsréttur verði hjá þeim. Ég tel það í samræmi við þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum þar sem samningar um kaup og kjör hafa í æ ríkara mæli færst frá einstökum félögum yfir á atvinnugreinar landsins. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að endurskoða það kerfi sem ríkisvaldið hefur á sínum samningamálum og er afar miðstýrt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og trúlega í ætt við það sem áður þekktist fyrir austan járntjald, að einn aðili heldur um öll samningamál ríkisins um landið allt. Ég tel að menn ættu að leyfa sér að íhuga hvort ekki væri rétt að brjóta upp þennan feril ríkis megin og færa valdið dálítið út um landið í stað þess að hafa það á einum punkti í Reykjavík eins og nú er.