Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 16:00:33 (2891)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst láta það koma mjög skýrt fram í þessari umræðu að tilboð samninganefndar ríkisins var það að allir, jafnt sjúkraliðar í Reykjavík sem og sjúkraliðar úti á landi sem hafa hærri laun, fengju sömu launahækkanir og allt fólk hefur verið að fá að undanförnu í kjarasamningum. Ef það er einhver misskilningur um þetta vona ég að hann leiðréttist hér með. Ég vil að það komi mjög skýrt fram

að það var í samningatilboði samninganefndar ríkisins.
    Í öðru lagi vil ég að það komi fram að vandinn snýst einmitt um það sem greinilega kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv., sem skilur þetta mál og ég þakka henni fyrir að hefja máls á þessu. Það snýst um réttindi. Það snýst um það hvort eðlilegt sé að fólk í einu félagi taki með sér áunnin réttindi sem eru umfram þau sem það getur fengið í öðru félagi. Ég bið hv. þm. og alla þá sem hlýða á mitt mál að hugleiða það hvernig það fer. Segjum svo að réttindi séu fólgin í frekara orlofi, fleiri veikindadögum o.s.frv. Segjum t.d. að þetta væri í einhverju verkalýðsfélagi þar sem maður ætti heima í Hafnarfirði og flytti til Reykjavíkur. Á hann þá að halda sínum gömlu réttindum en nýju kjörum? Þetta eru vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Menn geta komið upp hver á fætur öðrum og sagt: Það er stíð. Það er styrjöld sem ríkisstjórnin hefur efnt til. Menn geta notað orð eins og það að hér sé verið að fara með hótanir. Menn geta sagt að ég sé að kúga sjúkraliða. Þeir sem trúa því geta haldið því fram. Menn geta talað í þessa áttina og sagt: Annars vegar er málstaður réttlætis og sanngirni, hins vegar óbilgirni og ábyrgðarleysis. Svona geta menn talað. Eitt vil ég segja og það er það að ég hef nákvæmlega sama áhuga á því og Sjúkraliðafélag Íslands að fá niðurstöðu. Ég held að það sé hægt og vonast til að það geti tekist á allra næstu dögum. Um það snýst þetta mál. Ég lýsi mig reiðubúinn og ætla ekki að hafa hörð orð um það frekar en ég hef gert áður í þessari viðkvæmu deilu.