Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 21:27:10 (2893)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á nál. þá rita ég og hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, undir nál. þetta með fyrirvara.
    Við höfum unnið að þessu máli um alllangt skeið og ég vil taka undir það með formanni nefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v., að samstarf um þetta mál hefur verið til fyrirmyndar. Það hefur verið málefnalegt og það hefur verið farið mjög vel í þetta frv. Það hafa verið gerðar mikilvægar breytingar á frv. og ég tel að þessar breytingar taki tillit til þess að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er ekki góð um þessar mundir og þær taka líka tillit til þess að nú þurfa íslensk fyrirtæki í meira mæli að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni og má segja að sú gagnrýni, sem kom fram á frv. upphaflega, hafi ekki síst beinst að þeim staðreyndum. Ég þarf ekki að fara yfir þær brtt. sem nefndin gerir og formaður nefndarinnar hefur gert ítarlega grein fyrir. Ég vil aðeins nefna nokkur meginatriði í því sambandi.
    Í fyrsta lagi að því er varðar stjórnsýsluna. Þar hafa verið gerðar mikilvægar breytingar sem gera ráð fyrir því að samkeppnisráð sé eins óháð í störfum sínum og nokkur kostur er þótt ekki verði hjá því komist að það starfi á ábyrgð viðskrh. Viðskrh. skipar samkeppnisráð en það eru gerðar kröfur um það að í því starfi aðilar sem hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og séu óháðir fyrirtækjum og samtökum sem lögin taka til. Ég vil leggja mikla áherslu á þetta ákvæði laganna og treysti því að hæstv. viðskrh. taki tillit til þessara atriða í einu og öllu því það er afar mikilvægt strax í upphafi að samkeppnisráð hafi fullt traust og hafi traust allra þeirra aðila sem þurfa að sætta sig við afskipti þess og úrskurði. Samkeppnisráð kemur til með að fá veruleg völd. Það má segja að þessi völd séu nauðsynleg til að ráðið geti sinnt því mikilvæga verkefni sem það á að sinna en til þess að þar fari allt vel úr hendi er það lykilatriði að það hafi traust aðila sem starfa í atvinnulífinu og jafnframt traust neytenda.
    Gert er ráð fyrir því að með samkeppnisráði starfi í fyrsta lagi nefnd sem nefnist auglýsinganefnd og ýmsir aðilar hafa lagt verulega áherslu á að starfi með samkeppnisráði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri fullnægjandi að samkeppnisráð fjallaði jafnframt um þetta mál og kallaði þá til aðila eftir því sem við á ef á þarf að halda. Það hefur hins vegar orðið niðurstaða að það sé rétt að leggja sérstaka áherslu á þennan þátt málsins sem reyndar er gert í 21. og 22. gr. laganna og það var því niðurstaða nefndarinnar að gera þetta með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lagði til.
    Að því er varðar áfrýjunarnefnd samkeppnismála þá hafa verið gerðar þar mjög mikilvægar breytingar en þessi áfrýjunarnefnd er skipuð af ráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar og er þá enn betur tryggt en áður var að ef um ágreining verður að ræða sé það óháður aðili sem úrskurðar í slíkum málum. Það kemur á engan hátt í stað þess að auðvitað geta aðilar leitað til dómstóla með venjubundnum hætti, en þar sem hér er um að ræða mikilvægan málaflokk þar sem nauðsynlegt er að úrskurðir liggi fyrir eins skjótt og nokkur kostur er þá er nauðsynlegt að þessi sérstaka áfrýjunarnefnd starfi.
    Ég vil taka undir með framsögumanni nefndarinnar þegar hann lagði áherslu á 18. gr. frv. en ég tel í reynd að þar sé um að ræða merkustu breytingarnar á þessu frv. Þar er gert ráð fyrir því, eins og var gert upphaflega, að samkeppnisráð fái það mikla vald að ef um er að ræða sameiningu fyrirtækja og það verður til þess að draga verulega úr samkeppni, sem er andstætt anda þessara laga, þá sé hægt að ógilda

samrunann eða yfirtökuna sem þegar hefur átt sér stað. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði en að sjálfsögðu er það mjög vandmeðfarið. Það hefur verið bætt inn í greinina því mikilvæga atriði sem kemur fram í þessari grein sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Við mat á lögmæti samruna eða yfirtöku skal samkeppnisráð taka tillit til þess að hvaða marki alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnisstöðu hins sameinaða fyrirtækis.``
    Við verðum að viðurkenna að íslensk fyrirtæki eru mjög smá á alþjóðlegum mælikvarða. Íslensk fyrirtæki þurfa í meira mæli að hasla sér völl á alþjóðlegum markaði og til þess að þau standist slíka samkeppni þurfa þau að styrkja stöðu sína og áreiðanlega mun til þess koma að ýmis fyrirtæki hugi að sameiningu.
    Það er ekkert nema gott um það að segja og ætti ekki að hafa nema góð áhrif hér innan lands ef þessi fyrirtæki eiga í alþjóðlegri samkeppni og fá aðhald með þeim hætti. Auðvitað er erfitt að sjá það nákvæmlega fyrir hvernig þetta muni geta gerst en nefndinni þótti nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um þetta atriði.
    Þá er komið inn það mikilvæga atriði, eins og kemur fram í 18. gr., með leyfi forseta:
    ,,Aðilar, sem hyggja á samruna eða yfirtöku, geta leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort samruninn eða yfirtakan brjóti gegn ákvæðum 1. mgr.``
    Það er afar þýðingarmikið fyrir fyrirtæki sem hyggja á sameiningu að vita eitthvað um það hvernig slík sameining kynni að verða túlkuð af samkeppnisráði samkvæmt þessum væntanlegu lögum.
    Við getum tekið sem dæmi að á okkar litla markaði starfa á sumum sviðum afar fá fyrirtæki en þessi fáu fyrirtæki veita hvert öðru oft og tíðum aðhald sem er nauðsynlegt til að halda verðlagi í skefjum og koma í veg fyrir einokunaraðstöðu. Það má taka dæmi af þessu í flutningastarfsemi. Ef eitthvert fyrirtæki mundi hugsanlega vilja sameinast fyrirtæki á þessu sviði gæti það áður en til samrunans kæmi leitað eftir því hvort slíkt gæti gengið samkvæmt þessum lögum. Það er alveg ljóst að ef það væri alveg ljóst að eftir slíka sameiningu væri samkeppni sáralítil í flutningastarfsemi þá mundi það ekki samrýmast anda þessara laga og samkeppnisráð gefa út álit í samræmi við það. Við getum líka tekið sem dæmi að ef okkar þrjú olíufélög vildu sameinast er alveg ljóst að þá fengi það eina olíufélag, sem yrði starfandi eftir slíka sameiningu, einokunaraðstöðu hér á markaði og vart hægt að halda því fram að aðilar væru undir miklu aðhaldi frá erlendum aðilum því Íslendingar fara ekki í stórum mæli t.d. með bíla sína til að taka bensín á þá í öðrum löndum, svo eitthvað sé nefnt. Það mundi því að sjálfsögðu brjóta gegn anda þessara laga þannig að ég tel að hérna sé komið tæki sem megi beita með áhrifaríkum hætti til að koma í veg fyrir einokunaraðstöðu fyrirtækja á íslenska markaðinum.
    Hins vegar skiptir öllu máli hvernig þessu er beitt og um það er erfitt að fullyrða fyrir fram og því legg ég á það áherslu að eftir hæfilegan tíma sé rétt að endurskoða þessa löggjöf á nýjan leik í ljósi reynslunnar. Ég tel þetta vera mikilvæga löggjöf, eins og hún er hér orðin, en það hlýtur samt að vera nokkur óvissa um það hvernig hún muni reynast og hlýtur þess vegna eins og öll önnur löggjöf að koma til endurskoðunar á Alþingi þótt ég hafi ekki séð neina sérstaka ástæðu til þess að setja um það ákvæði í löggjöfina sjálfa eins og oft er gert. Ég hef enga fyrirframskoðun á því hvenær það skuli gert eða hvernig heldur einungis að að því skuli hugað í ljósi reynslunnar þegar þar að kemur.
    Að því er varðar þann fyrirvara sem við setjum í nefndarálitið þá er ljóst að einn kafli þessarar löggjafar fjallar um framkvæmd samkeppnisreglna og fleira samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þar er fjallað um eftirlitsstofnun EFTA og dómstól EFTA og þar eru ákvæði sem hafa verið til mikillar umfjöllunar að undanförnu í ljósi þess að við höfum átt í samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Mér er alveg ljóst að nauðsynlegt er að það sé fyrir hendi úrskurðaraðili í ágreiningsefnum að því er varðar samninginn. Engin leið er að koma á slíkum alþjóðlegum samningi nema slíkur úrskurðaraðili sé fyrir hendi. Hins vegar hefur komið fram að á því er mikill vafi hvort slíkt framsal á valdi standist stjórnarskrá okkar og mjög margir lögfræðingar hafa sett fram skoðanir um að sá vafi sé fyrir hendi. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að það standist alls ekki. Aðrir halda því fram að rétt sé að taka af allan vafa með því að breyta stjórnarskránni. Það hefur jafnframt komið fram hjá þeim lögfræðingum sem ríkisstjórnin fékk til þess að fara yfir málið að trúlega muni koma til þess þótt þeir telji ekki nauðsynlegt á þessu stigi að slík breyting eigi sér stað. Hér er því greinilega tekin áhætta sem ríkisstjórnin hlýtur að bera ábyrgð á og fyrirvari okkar Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, hv. 6. þm. Norðurl. e., lýtur að þessu atriði málsins. Að öðru leyti mælum við með að frv. þetta verði samþykkt og leggjum á það áherslu að það hljóti afgreiðslu sem fyrst því að við teljum að hér sé um merka breytingu á lögum um samkeppni að ræða.