Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 22:28:09 (2895)

     Frsm. efn.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil rétt í tilefni af ræðu míns ágæta félaga í efh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. e., segja að allt sem hann sagði um 17. gr. frv. er rétt. Ég tel að nefndin ætti að flytja viðbótartillögu til breytinga á 17. gr. við 3. umr. þannig að það fari ekkert á milli mála. Þetta hefur fallið út úr þeim tillögum sem komu frá nefndinni.
    Varðandi brtt. sem hv. þm. flytur á þskj. 358 þá vil ég að það komi fram að ég tel að ákvæði 17. og 18. gr. og önnur ákvæði frv. eigi að geta tekið á starfsemi fyrirtækja á sviði samgangna eins og á starfsemi í öðrum greinum atvinnulífsins. Ég er ekki alls kostar sammála hv. þm. um það sem hann sagði um samkeppni milli einstakra samgöngugreina. Ég tel sáralitla sem enga samkeppni milli, svo dæmi séu tekin, vöruflutninga á sjó og í lofti. Vöruflutningar í lofti eru svo hverfandi miðað við vöruflutninga á sjó að ég tel afar ólíklegt að einhver hagnaðarvon sé í því að takmarka flutninga í lofti í því skyni að hagnast meira á þeim á sjó. Ég held að það væri frekar öfugt.
    Síðan tel ég að það sem vanti inn í umfjöllun um samkeppni í samgöngum á Íslandi sé að velta fyrir sér af hverju aðgangur að markaði er svo takmarkaður sem raun ber vitni. Þar kemur ýmislegt til, t.d. skipan og framkvæmd tollskoðunar og annað slíkt.
    Enn fremur vil ég nefna að hvert fyrirtæki getur að sjálfsögðu keypt önnur samgöngutæki og síðast en ekki síst að þau fyrirtæki sem hér eiga í hlut eru sjálfsagt þau fyrirtæki sem eru hvað opnust og gefa hvað mestar upplýsingar um sína starfsemi enda bæði skráð á Verðbréfaþingi Íslands.