Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 22:30:57 (2896)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessi ræða kemur mér ekki á óvart. Ég hef heyrt ýmsar sambærilegar. En ég held að menn eigi ekki að fara í vörnina með þeim hætti að segja: Þetta eru ágætir menn og góð fyrirtæki og þeir eru örugglega ekkert að gera þetta þannig að þetta er ástæðulaust. Ég er í rauninni ekki að tala um það. Mér finnst það vera að drepa umræðunni á dreif að reyna að skoða þetta úr frá því hvort starfandi fyrirtæki sem eru í þessari stöðu séu að gera eitthvað ljótt. Svo komast menn að þeirri niðurstöðu að af því að þetta eru ágætismenn og opin fyrirtæki sem veita allar upplýsingar og þá sé þetta í lagi. Ég tel að við eigum að spyrja okkur: Er heppilegt og heilbrigt að svona aðstæður geti ríkt í viðskiptalífinu og á þessu sviði burt séð frá því hvort það eru góðir eða ekki svo góðir menn og góð eða ekki góð fyrirtæki sem nákvæmlega núna eru í þessum aðstæðum? Ég hélt að fleiri yrðu sammála mér um að þetta sé ekki heppilegt fyrirkomulag og við eigum þess vegna að setja ákveðnar reglur sem fríi okkur þessu ástandi eða a.m.k. komi því inn fyrir tiltekin mörk og menn eigi ósköp einfaldlega að gera það og horfa algerlega fram hjá því hvað viðkomandi fyrirtæki heita og hvernig mennirnir sem í þeim starfa séu af guði gerðir.
    Varðandi það sem hv. þm., formaður efh.- og viðskn., segir að menn geti bara keypt sér samgöngutæki og farið í þessa flutninga og komist þannig fram hjá, þá er það ekki sami hlutur og að koma sér í ráðandi aðstöðu í markaðsráðandi fyrirtæki á öðru sviði samgangna. Því þá mundu þeir vera farnir að keppa. Þá væru þeir að búa til samkeppni en ekki öfugt. Ég held því að hv. formaður nefndarinnar þurfi aðeins að hugsa þetta dæmi betur.
    Segjum bara að Eimskip ætli að svindla á þessu með því að kaupa sér flugvélar og fara að fljúga. Hvað er þá að gerast? Þá eru þeir að fara í samkeppni við Flugleiðir. Það er fínt. Við erum ánægðir með það ég og hv. formaður nefndarinnar. En erum við virkilega ánægðir með að einn markaðsráðandi risi á einu sviði samgangna hafi ráðandi aðstöðu og eigi það stóran eignahlut í markaðsráðandi fyrirtæki á öðru sviði samgangna að hann geti stöðvað breytingar á samþykktum þess, eigi stjórnarformanninn o.s.frv.? Er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson virkilega að mæla því bót?