Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 22:34:38 (2897)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og heyra mátti af þeim upplestri sem hér átti sér stað þá er efh.- og viðskn. að skila frá sér ýmsum þeim stóru málum sem hún hefur haft til umfjöllunr á undanförnum vikum.

Þau frv. um verðbréfaviðskipti, verðbréfasjóði og verðbréfaþing sem nefndin er að skila frá sér eru stór og flókin mál en jafnast þó ekki á við samkeppnislögin sem nefndin hefur haft til umfjöllunar vikum saman og lagt gífurlega mikla vinnu í að skoða og endurbæta. Að mínum dómi er þessi lagabálkur orðinn hinn mesti og besti ef undan er skilinn XI. kafli laganna sem beinlínis tengist Evrópsku efnahagssvæði og ég mun koma að síðar. Í frv. er að finna mörg og merk nýmæli og ég held að þessi lög eigi eftir að verða íslensku viðskiptalífi og neytendum mjög til góðs á komandi árum.
    Þessi lagabálkur um samkeppnislög er í sjálfu sér óháður samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það var löngu orðið tímabært að endurskoða þau lög sem hér gilda um samkeppnisreglur og eðlilega viðskiptahætti. En hér er um það ræða að verið er að aðlaga íslensk lög að því sem gerist hjá Evrópubandalaginu. Það sem kallað er eðlileg samkeppni er eitt af grundvallaratriðum Evrópska efnahagssvæðisins. Í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði segir á bls. 7: ,,Samningsaðilar hafa í huga það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, m.a. fyrir dómstólum, jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila.``
    Þetta er auðvitað eitt af grundvallaratriðunum. Því hlaut það að gerast hér að þau lög sem snerta þetta svið yrðu endurskoðuð.
    Ég ætla hvorki að fara í gegnum brtt. sem nefndin gerir né ýmsar þær breytingar og álitamál sem er að finna í þessum lagabálki. T.d. má spyrja sig varðandi ákvæðin sem snerta samruna fyrirtækja hvort þar sé hugsanlega gengið of langt en ekki of skammt því við hljótum að verða að taka tillit til þess að Ísland er afar lítill markaður. Stundum gerist það að íslenski markaðurinn getur einfaldlega ekki haldið uppi nema einu fyrirtæki í einstaka greinum. Nefndin tók tillit til þessa sjónarmiðs sem var sett fram, ef ég man rétt, af verslunarráðinu.
    Í brtt. við 18. gr. er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Við mat á lögmæti samruna eða yfirtöku skal samkeppnisráð taka tillit til þess að hvaða marki aðþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnisstöðu hins sameinaða fyrirtækis.``
    Það er í raun og veru hægt að viðurkenna það að íslensk fyrirtæki sem eiga í samkeppni við erlend fyrirtæki annaðhvort í innflutningi eða útflutningi styrki stöðu sína vegna hinnar alþjóðlegu samkeppni. Þetta tel ég vera af hinu góða.
    Það má líka velta vöngum yfir skipulagi Samkeppnisstofnunarinnar. Nefndin einfaldaði það skipulag aðeins frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í frv. enda gerðu mjög margir umsagnaraðilar athugasemdir við skipulagið og töldu það vera allt of flókið og að þarna væri verið að búa til mikið bákn. Það er nú spurning. En við einfölduðum þetta aðeins.
    Enn eitt mál sem mikið var rætt í nefndinni snertir svokallaðan kaupbæti sem nokkuð hefur verið til umræðu og m.a. Neytendasamtökin lögðu til að áfram yrði óheimill í íslenskum lögum. Við ákváðum þó að fella niður þessar greinar en samkvæmt lögunum er hægt að grípa inn í ef um óeðlilega viðskiptahætti er að ræða. Það er því aukið frelsi á þessu sviði enda má oft spyrja hvers vegna seljendum er ekki leyfilegt að gauka einhverju að sínum kaupendum þó það sé ekki beinlínis tengt því sem verið er að kaupa.
    Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara eins og reyndar aðrir stjórnarandstæðingar í nefndinni. Minn fyrirvari er fyrst og fremst út af XI. kafla laganna sem snerta framkvæmd samkeppnisreglnanna og fleira samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, eða 44.--51. gr. í frv. Gildistaka þessara greina er að sjálfsögðu háð því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verði samþykktur. Verði hann það ekki falla þessar greinar úr.
    Ástæðan fyrir því að ég hef fyrirvara við þessar greinar er annars vegar að þarna er um ákveðið valdaafsal að ræða. Eins og hefur verið rakið í umræðunni er allverulegur vafi á því hvort þetta valdaafsal stenst íslensku stjórnarskrána. Ég hef ekki kannað þann þátt sérstaklega en eftir því sem ég hef kynnt mér álitsgerðir lögfræðinga ríkir að mínum dómi verulegur vafi á hvort þetta stenst. Það gildir jafnt um framkvæmdarvald, dómsvald sem löggjafarvald. Þótt löggjafarvald komi raunar málinu ekki við hér kemur það við sögu annars staðar og í því að við erum að samþykkja lagabálka og eigum eftir að samþykkja lagabálka þar sem við ráðum litlu um innihaldið.
    Hins vegar hef ég lýst því yfir að ég mun greiða atkvæði gegn samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og því get ég ekki stutt þennan kafla þó ég telji frv. að öðru leyti hinn merkasta lagabálk og styðji það að öðru leyti.
    Ég vil aðeins nefna að það er einkenni á þessari vinnu okkar, jafnt í efh.- og viðskn. sem í öðrum nefndum, að þau frv. sem við erum að fjalla um bera þess mikil merki að verið er að þýða reglugerðir, ýmist úr ensku eða dönsku og þar af leiðandi hefur farið töluvert mikil vinna í orðalagsbreytingar og vangaveltur um orðalag því að við gerum þær kröfur að lagatextinn sé skýr og skiljanlegur. Þetta er auðvitað ein skýringin á því hve margar brtt. eru gerðar við frv. svo og önnur. Það er oft um hreinar orðalagsbreytingar að ræða eða leiðréttingar þar sem orðalag er illskiljanlegt eða hefur fallið niður í allri þessari miklu þýðingarvinnu sem lögð hefur verið á ráðuneytin.
    Ég vil geta þess að lokum, virðulegi forseti, að ég lýsi yfir stuðningi mínum við brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er umhugsunarefni hver umsvif hins svokallaða kolkrabba eru í íslensku samfélagi og tímabært að taka á því máli. Ég tek líka undir það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns að ég tel eðlilegt að fresta afgreiðslu þessa máls þar til ljóst er hvað verður um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið þar sem hluti þessa lagabálks er svo nátengdur samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég vona að þessi lög nái fram að ganga að öðru leyti en því sem snertir XI. kaflann og að þau megi verða íslenskum neytendum og íslensku atvinnulífi til hagsbóta.