Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 22:45:00 (2898)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hv. efh.- og viðskn. og alveg sérstaklega formanni hennar fyrir gott samstarf við meðferð frv. og reyndar fyrir mjög góðar og gagnlegar breytingar sem frv. hefur tekið í meðförum nefndarinnar. Eins og kom fram við 1. umr. um frv. hafði frá því það fyrst kom fram verið leitað umsagnar margra aðila og úr þeim unnið bæði af starfsmönnum viðskrn. og hv. efh.- og viðskn. Það sem við ræðum í dag er ávöxturinn af því starfi og samstarfi sem ég tel að hafi án alls efa skilað betra frv. en fyrst var fram lagt. Það er nákvæmlega í þeim anda sem þingið á að starfa. Það er rétt sem hér hefur verið sagt að frv., ef að lögum verður, felur í sér tímamótalöggjöf. Það er ákaflega mikilvægt að sem víðtækust samstaða geti tekist um grundvallarleikreglur í okkar viðskiptalífi, reyndar í okkar þjóðlífi eins og hér er um að ræða. Þess vegna fagna ég því hversu vel hefur til tekist í þessu máli og lýsi stuðningi mínum við brtt. þær sem hv. efh.- og viðskn. flytur sameiginlega. Ég vil taka það fram að ég get ekki stutt þá tillögu sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flytur á þskj. 358 en að því máli mun ég víkja fáum orðum hér á eftir til þess að skýra þá afstöðu mína.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara ákaflega mörgum orðum um þær margvíslegu brtt. sem fram hafa komið í nefndarstarfi og samstarfi viðskrn. og nefndarinnar og margvíslegra umsagnaraðila. Ég vil aðeins víkja að örfáum málum sem fram hafa komið í ræðum hv. þm. Ég vil fyrst nefna að þær breytingar sem hér eru gerðar á skipan samkeppnisráðs og stofnana sem tengjast því eru að öllu leyti í samræmi við þau sjónarmið sem ég lýsti við 1. umr. málsins. Ég fagna því að svo víðtæk samstaða hefur tekist um það mál. Það á bæði við um skipan samkeppnisráðsins og ekki síður um skipan áfrýjunarnefndarinnar sem hér eftir yrði að öllu leyti samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Ég tek undir með hv. 1. þm. Austurl. þegar hann sagði að það væri ákaflega mikilvægt að sem víðtækust samstaða tækist um málið og að traust gæti skapast á framkvæmd þessara reglna. Ég lýsi því hér með yfir að fyrir mitt leyti vil ég gæta þeirra sjónarmiða sem hann nefndi þegar menn verða valdir í þær mikilvægu stofnanir.
    Ég vil aðeins víkja að því sem fram kom í máli nokkurra ræðumanna og lýtur að þeim breytingum sem gerðar eru á 18. gr. frv. Það er að sjálfsögðu rétt að hún hefur að geyma merkustu nýmælin í frv. Það eru 17. og 18. gr. Ég tek það fram að mér finnst til bóta að taka skýrt fram að þar sem gætir alþjóðlegrar samkeppni þurfi að sjálfsögðu að taka tillit til hennar þegar menn meta hvort um markaðsráðandi stöðu sé að ræða hér á landi. Það sjónarmið mitt kom reyndar fram við 1. umr. um málið. Það er oft með það sem sjálfsagt er að það er enn sjálfsagðara sé það sagt og það er gert í frumvarpstextanum nú þótt ég telji að af sjálfu hefði leitt að slíkra sjónarmiða eigi að gæta. En það sakar ekki að taka það fram.
    Svo togar það í hina áttina að fyrirframúrskurðirnir, sem eru merkileg tillaga sem hér er gerð, gefi með vissum hætti sérstaka vernd fyrir eðlilega samkeppnisstöðu sem hér hefur lengi þróast og vissa vörn gegn breytingum á aðstæðum sem menn telja að skili nauðsynlegri lágmarkssamkeppni á íslenskum markaði. Þetta ákvæði tel ég vera til mikilla bóta og athyglisverða tillögu frá hv. efh.- og viðskn.
    Ég ætla ekki að segja mikið fleira um viðmiðunarreglurnar í 17. og 18. gr. frv. en vil þó nefna það, vegna þess sem fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og reyndar í máli 5. þm. Norðurl. v., að þeim fannst ekki fullskýrt að 17. gr. gerði ráð fyrir því að samkeppnisráð gæti hlutast til um athafnir aðrar en samruna eða yfirtöku fyrirtækja sem færu í bága við hæfilega samkeppni. Þeir töluðu báðir um að þörf væri á að kveða þar skýrar að orði. Það má vel vera að þetta orðalag, sem þarna er, megi enn skerpa. Ég vil þó leyfa mér að benda á það sem segir í 1. mgr. 17. gr. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa upp frumvarpstextann eins og hann er í upphaflegri gerð frv.:
    ,,Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum og athöfnum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hin skaðlegu áhrif geta m.a. falist í . . .  `` og síðan er upptalning. Í upptalningunni segir m.a. að fyrirtæki styrki markaðsráðandi stöðu sína eða valdi óhagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta m.a. vegna þess að valkostum viðskiptavina fækki, framleiðsla eða sala verði dýrari og keppinautar útilokist frá markaðnum. Þegar þetta er tekið saman á þennan hátt er alveg ljóst að mínu áliti að það er ekki þörf á því að taka fram sérstaklega að samkeppnisráð geti hlutast til um athafnir fyrirtækja sem fyrir eru á markaðnum þótt ekki sé um að tefla breytingar á skipulagi þeirra með samruna eða yfirtöku annarra fyrirtækja. Þetta bið ég virðulega þingmenn að hafa í huga þótt ég skuli síst setja mig á móti því að hv. efh.- og viðskn. sameinist um nýtt orðalag sem flytur þessa sömu hugsun, e.t.v. með skýrari hætti.
    Þetta vil ég láta koma fram við þessa umræðu en auðvitað má það lengi bæta sem skrifað hefur verið á blað. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. að stundum eru þýðingarförin óþarflega greinileg á þeim textum sem teknir eru úr erlendum laga- og reglusöfnum úr ýmsum áttum en yfirleitt ekki

frá neinum einum stað.
    Ég vil svo aðeins víkja að því sem fram kom í máli hv. 4. Þm. Norðurl. e. Í upphafi vil ég fagna afstöðu hans til frv. og þessa máls í heild, bæði hvað varðar þörfina fyrir nútímaleg ákvæði um samkeppnisákvæði á okkar landi og þörfina fyrir varnir gegn skaðlegri fákeppni. Með einföldum orðum þörfina fyrir lög gegn einokun, hringamyndun og samþjöppun efnahagslegs valds sem er skaðleg hagsmunum almennings. Það er nákvæmlega tilgangur frv. og þess vegna ánægjulegt að svo víðtæk samstaða hafi um það náðst. Ekki sakar heldur að það ber upp á aldarafmæli anti trust löggjafarinnar bandarísku sem hv. þm. nefndi.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði á það mikla áherslu í sínu máli að samþykkt yrði brtt. sem hann flytur á þskj. 358 og felur í sér að setja nánar tilgreind tölusett mörk fyrir hvað teljist markaðsráðandi fyrirtæki á einu sviði samgangna gagnvart því að eignast stærri eignarhlut en fjórðung í öðru markaðsráðandi fyrirtæki sem starfar að samgöngum. Þetta tel ég ágæta hugsun. Við höfum rætt þetta mál fyrr í umræðum um þetta mál, reyndar við 1. umr. Ég vil hins vegar vara við tvennu í þessu máli. Í fyrsta lagi að fara þegar í upphafi samkeppnislöggjafarinnar að sérgreina hana og setja í hana ákvæði sem beinast að tilteknum atvinnugreinum umfram aðrar. Í öðru lagi að tölusetja markmið sem miklu eðlilegra er að mótist í óbirtum verklagsreglum samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar. Það er nefnilega þannig að fari menn að reyna að stýra eftir fyrir fram settum tölum um hvaðeina, hvort sem það er í stjórn peningamála eða samkeppnismálum, hefur stjórnin áhrif á tölurnar. Þetta er reyndar lögmál kennt við ágætan hagfræðing, Charles Goodhart, fyrst og fremst á sviði peningastjórnar þar sem hann segir: Sérhver stærð sem menn reyna að stjórna hlýtur að bregðast við stjórninni og breytir þar með um eðli. Þetta hefur hv. formaður efh.- og viðskn., hv. 5. þm. Norðurl. v., á sinn hátt orðað ágætlega þegar hann segir: Þingið getur sett lög um skatta en fólkið á næsta leik. Í þessu tilfelli mundi það náttúrlega vera þannig að fyrirtækin ættu næsta leik. Þetta segi ég ekki af neinni léttúð í þessu mikilvæga máli heldur eingöngu til að ítreka það að hinar almennu reglur samkeppnislaganna og eftirlit með samkeppnishömlum gilda um þessar greinar atvinnulífsins ekki síður en aðrar. Að sjálfsögðu verður til þess litið hvort samstarf af því tagi sem hér er nefnt af hv. 4. þm. Norðurl. e. kunni að falla undir það sem ég nefndi áðan og nefnt er í inngangi 17. gr., hvort það falli undir athafnir sem hafi skaðleg áhrif á samkeppni, valdi óhagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta eða fækki valkostum viðskiptavina og geri þar með þeirra starfsemi dýrari en vera þyrfti. Þetta vona ég að skýri viðhorf mitt til þeirrar hugsunar sem brtt. flytur en um leið hvers vegna ég tel alls ekki rétt að samþykkja hana eins og hún er hér flutt.
    Ég vil svo að lokum víkja aðeins að því, hæstv. forseti, sem fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl., hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 18. þm. Reykv. um þann fyrirvara sem þeir gera við samþykkt sína á áliti hv. nefndar. Þar gætti nokkurs blæbrigðamunar. Það er auðvitað eðlilegt að þeir sem eru andvígir samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði geri sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni hvað varðar þau ákvæði sem beinlínis lúta að tengingu við það samstarf. Hins vegar vakti það athygli mína að ólíkt hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 18. þm. Reykv. þá taldi hv. 1. þm. Austurl. alls enga þörf á því að bíða með samþykkt þessa máls. Þvert á móti hvatti hann til að það yrði afgreitt sem fyrst af því að það væri mikilvægt mál í eigin krafti.
    Ég vil ljúka máli mínu með því að taka undir þau orð hv. 1. þm. Austurl. að þetta sé tímamótalöggjöf sem fullkomin ástæða sé til fyrir þingið að samþykkja sem fyrst, ekki síst með tilliti til þeirrar vönduðu vinnu sem fram hefur farið í hv. efh.- og viðskn.