Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 23:19:11 (2903)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. og reyndar einnig hv. 8. þm. Reykv. fyrir undirtektir þeirra. Ég met það mikils að menn eru tilbúnir til að haga þannig afgreiðslu málsins að sem mest samkomulag geti einnig orðið um málsmeðferðina og það er auðvitað í góðu samræmi við það að menn hafa verið að vinna að málinu efnislega og gera á því breytingar í miklu samkomulagi. Þetta er að verða geysilega mikil eining andans í flestum greinum um þetta mál og eiginlega nokkur skaði að menn skuli ekki ná alla leið í mark og það er þá fyrst og fremst tvennt sem þyrfti í þeim efnum. Það er að menn sameinuðust um einhver skynsamleg efnistök sem vörðuðu þetta svokallaða kolkrabbaákvæði annars vegar og næðu svo einhvers konar landi í sambandi við þetta smámál sem kallað er Evrópska efnahagsvæðið hins vegar. Þá væru menn bara komnir í mark í fullkominni einingu andans.
    En grínlaust, hæstv. forseti, þá er það auðvitað ánægjulegt að menn hafa náð mjög mikilvægri efnislegri samstöðu um afgreiðslu þessa frv. eins og fram hefur komið og það er ánægjuefni og ekkert síður ástæða til að gleðast yfir því nú þegar mönnum verður talsvert að misklíð en endranær. Það er ætíð gott þegar menn ná vel saman.