Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:34:57 (2906)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég óskaði eftir þessari umræðu utan dagskrár í tilefni af því að í fyrsta illviðri þessa vetrar varð verulegt tjón á dreifikerfi rafmagns og stórir landshlutar urðu án orku. Auðvitað verður

seint hægt að girða fyrir að slíkt gerist en ég vek þessa umræðu upp vegna þess að það er ekki allt sem skyldi í yfirstjórn þessara mála. Þar á ég við hlut stjórnvalda.
    Dreifikerfi rafmagns er víða ábótavant og til glöggvunar er rétt að vitna til áætlunar orkuráðs, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins frá því í nóvember 1990 og tillagna orkuráðs til hæstv. ráðherra frá sama tíma. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í skýrsluna.
    ,,Meginniðurstaða áætlunarinnar var sú að ólokið yrði í árslok 1990 að vinna að styrkingu rafdreifikerfanna í sveitum fyrir 1 milljarð og 60 millj. kr. á verðlagi um mitt ár 1990. Verkefnunum sem eftir eru við styrkingu dreifikerfanna var skipt í þrjá flokka. Það voru bráðaðkallandi verkefni, verkefni sem ljúka þurfti við fljótlega og verkefni sem kæmu til eftir að álagið ykist.
    Einungis tveir fyrstu flokkarnir voru taldir með í tillögum orkuráðs um styrkingu sveitakerfanna. Ráðið leit þannig á að í þeim fælist sérstakt átak sem gera þyrfti þar sem sérstakur atbeini ríkisins væri nauðsynlegur. Þegar sveitakerfin væru farin að anna álaginu með þeim hætti að þjónusta við notendur í strjálbýli yrði orðin eins sambærileg og sams konar þjónusta í þéttbýli sem með sanngirni væri hægt að ætlast til væri þessu átaki lokið. Þá en ekki fyrr yrði lokið að vinna það upp sem farið hefði í undandrátt á liðnum árum.``
    Verkefnaflokkarnir þrír kostuðu samkvæmt áætluninni: Fyrsti flokkurinn 519 millj. kr. Annar flokkurinn 490 millj. kr.
    Tillögur orkuráðs voru þessar:
    ,,Orkuráð leggur til að tveimur fyrstu verkefnaflokkunum verði lokið á sjö árum, á árunum 1991 til 1997. Lengur má það ekki dragast að mati ráðsins að ljúka því. Íbúar strjálbýlisins hafa of lengi búið við skerta rafmagnsþjónustu borið saman við þéttbýlið. Frá því sjónarmiði kunna sjö ár að sýnast of langur tími. Á hinn bóginn er að mati ráðsins tæpast raunhæft að ætla skemmri tíma til að ljúka styrkingunni. Meðalkostnaðurinn á ári þessi sjö ár yrði rúmar 144 millj. kr. sem með engu móti verður talin óhófleg fjárhæð í þessu sambandi.``
    Samdægurs skrifaði orkuráð bréf til hæstv. iðnrh. sem lauk með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Orkuráð leyfir sér að vænta samþykkis yðar, hæstv. iðnrh., við þessa tillögu og öflugs stuðnings við að hún nái fram að ganga.``
    Nú langar mig að spyrja: Hver voru svör hæstv. iðnrh. til orkuráðs af þessu tilefni? Ef við lítum á þróun í fjárveitingum til þessara verkefna kemur það í ljós að fjármagn til styrkingar rafdreifikerfis til sveita hjá Rarik hefur verið eftirfarandi á verðlagi ársins 1991: Árið 1987 85 millj. kr., 1988 53 millj. kr., 1989 49 millj. kr., 1990 28 millj. kr., 1991 32 millj. kr., 1992, þ.e. þegar sú ríkisstjórn hafði tekið við sem nú situr, 18,7 millj. kr. og í ár samkvæmt fjárlögum ársins 1993 18,7 millj. kr.
    Þarna má sjá að ekki er hafin uppbygging rafdreifikerfisins samkvæmt tillögu orkuráðs en til þess þurfti 144 millj. á ári. Það er bersýnilegt af þeim upplýsingum sem fram hafa komið um ástand dreifikerfisins að það skortir mjög á að viðunandi öryggi sé á orkuafhendingu. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið skýrð en ef marka má hvernig tekið hefur verið á fjárveitingaákvörðunum þá hlýtur það að vera stefna stjórnvalda að rafmagnsveiturnar eigi að fjármagna endurbyggingu dreifikerfisins af eigin fé.
    Ef það er ásetningur hæstv. ríkisstjórnar er mjög ádeiluvert að sú stefna skuli ekki vera sett fram á skýran og skilmerkilegan hátt. Hæstv. ráðherra þarf og verður að gera grein fyrir hugmyndum sínum um það hvernig eigi að standa að endurbótum dreifikerfisins. Það þarf að móta stefnu stjórnvalda gagnvart gjaldskrá hvort notendur til sveita eigi að bera kostnaðinn eða hvort það eigi að jafna honum niður á viðskiptavini Rariks og Orkubús Vestfjarða ef ekki á að taka fjárveitingar af almannafé.
    Það er mjög hæpinn rökstuðningur fyrir því að láta einungis þéttbýlisbúa kaupa raforku af Rafmagnsveitum ríkisins og borga endurbæturnar og útilokað að íbúar sveitanna geti gert það. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, hæstv. forseti.
    Ég vil bera fram tvær spurningar að lokum: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir að áætlun um endurbætur verði hrint í framkvæmd? Hvernig á að fjármagna slíka áætlun?