Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:47:59 (2909)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega þarft mál að hreyfa því hvernig á að standa að uppbyggingu dreifikerfis í sveitum. Í hvert sinn sem óveður verður hér á landi sem veldur rafmagnstruflunum í fleiri eða færri daga erum við minnt á þetta.
    Það kom fram hjá málshefjanda áðan að ekki hefur verið unnið eftir neinni áætlun þrátt fyrir að dreifikerfi sé mjög komið til ára sinna og þarfnist þeirra fjármuna sem þarf til að endurnýja það eins og skýrsla segir sem kom út um það mál. Þetta gildir ekki síst vegna þess að eftir árið 1980 jókst rafhitun til sveita mjög mikið og þar með álagið á línurnar enn. Víða er þannig að ekki er um að ræða nema eina línu. Þó í upphafi hafi verið byggðar tvær var seinna farið út í það að leggja ekki nema eina línu í dreifbýlinu.
    Hér þarf að vinna að úrbótum, það fer ekki milli mála, og vinna eftir fyrirframgerðri áætlun. Það er mikil nauðsyn á öruggu kerfi í þessum málum. Það skiptir máli vegna samskipta fólksins, fjölmiðlunar, öryggismála, atvinnumála og eigna bæði atvinnufyrirtækja og heimila.
    Hér kom fram að á fjárlögum næsta árs er framlagið aðeins 18,7 millj. kr. þrátt fyrir að til þess að vinna að einhverjum úrbótum í þessu þyrfti a.m.k. rúmar 100 millj. kr. Ég vil minna á að það dugar ekki, eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, að vísa á að það leysi allan vanda að stofna hlutafélag um almenningsveiturnar. Vitaskuld leysir það engan vanda. Ég bendi á að á sama tíma og stjórnvöld hafa verð að yfirtaka lán bæði hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða standa þau líka í því að innheimta afborganir af þessum yfirteknu lánum sem skipta hundruðum milljóna kr. á ári. Væri ekki réttara að leyfa fyrirtækjunum að nota þá peninga til þess að styrkja dreifikerfið?