Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 12:13:48 (2922)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil lesa hér, með leyfi forseta, úr ræðu Ásmundar Stefánssonar á ASÍ þinginu þar sem hann segir:
    ,,Þannig eigum við að opna forgangsréttinn gagnvart öllum þeim sem búsettir eru í öðrum byggðarlögum. Markmið forgangsréttarins er að verja verkalýðsfélögin en ekki hindra einstaklinga í því að ráða sig til starfa þar sem þeir kjósa. Ég tel einnig að það eigi að verða almenn regla að forgangsrétti sé ekki beitt gagnvart einstaklingi sem af einhverjum ástæðum kýs að standa utan félags, enda greiði hann þjónustugjald, þ.e. félagsgjald, til félagsins og hlíti ákvörðunum þess t.d. ef til vinnudeilna kemur.``
    Í þessum tilvitnuðu orðum kemur fram að forseti Alþýðusambandsins er að mælast til þess að reglum verði breytt á þann veg að hinn staðbundni forgangsréttur verði felldur niður og einnig, eins og þarna kemur, að staða einstaklinga verði skilgreind með þeim hætti sem hann lýsir. Það má segja að þessi spurning um staðbundna forgangsréttinn hafi vaknað vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. En eins og fráfarandi forseti Alþýðusambandsins segir einnig í ræðu sinni, með leyfi forseta:
    ,,Upphaflega var það ekki markmiðið með forgangsréttarákvæðinu að tryggja ákveðnum hópi fólks forgang til starfa umfram aðra. Verði forgangsréttinum beitt staðbundið er honum í reynd beitt gegn okkur sjálfum.``
    Fráfarandi forseti Alþýðusambandsins færir fyrir því alveg sjálfstæð rök án tillits til aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu að þessi staðbundni forgangsréttur skuli felldur niður. Ég held því að hv. síðasti ræðumaður þurfi ekki að hafa áhyggjur og allt hafi komið fram um afstöðu Alþýðusambandsins í þessu máli sem unnt er og það liggi allt fyrir. Hann þarf því ekki að hafa þær áhyggjur sem hann lýsti í sinni ræðu.