Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 12:17:54 (2924)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða og eitt stærsta frv. sem fylgir EES-samningnum. Það er ekkert óeðlilegt að um það verði mikil umræða. Í félmn. var vel unnið að mínu mati varðandi þetta frv. og að mörgu leyti mikil samstaða því hér eru, eins og ég sagði, mjög mörg viðkvæm málefni sem taka verður tillit til. Eins og formaður félmn. gat um áðan var samkomulag um að gera þetta frv. aðgengilegra en það var í upphafi og setja reglugerð 1612 inn í frv. sjálft. Eins var samkomulag um það að í 2. gr. frv. bætist ný málsgrein við sem veitir fulltrúum fleiri heildarsamtaka atvinnurekenda og launþega en kveðið er á um í frv. rétt til að taka sæti í nefnd þeirri sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna.
    Loks er lögð til sú formbreyting að í stað þess að reglugerð sú sem lögtaka á komi á eftir athugasemdum við frv. komi hún sem fylgiskjal á eftir 4. gr. Er það eðlileg breyting þar sem hún á að vera hluti laga þessara.
    Um þetta held ég að ég megi fullyrða að hafi verið víðtækt samkomulag.
    En í frv. felast, eins og ég sagði í upphafi, miklar breytingar. Við erum að opna okkar litla Ísland á ýmsum sviðum með samningnum. Við erum hluti af sameiginlegum vinnumarkaði hins Evrópska efnahagssvæðis, ef samþykkt verður, og það verða mjög miklar breytingar á Íslandi. Við verðum að horfast í augu við það. Mér finnst það oft vanta í umræðuna að sagt er að hér verði engin breyting. Við verðum að gera ráð fyrir því að hér verði mikil breyting. Við Íslendingar verðum líka að viðurkenna að við búum við frekar þröngan sjóndeildarhring hvað hreppamörk og atvinnusvæði varðar.
    Á þessum vinnumarkaði er einstökum EES-ríkjum bannað að mismuna ríkisborgurum aðildarríkja á grundvelli ríkisborgararéttar með löggjöf eða með öðrum ákvæðum um laun eða önnur starfskjör. Gagnvart félagslegri þjónustu er EES-ríkisborgari alls staðar jafnrétthár hafi hann fengið vinnu á aðildarsvæðinu. Hvort hingað streyma innflytjendur í stórum stíl verður tíminn að leiða í ljós. Þeir sem færa rök gegn því að svo verði hafa ýmislegt fram að færa. Þeir telja Ísland ekki freistandi land. Hér sé kalt, tungumálið erfitt o.s.frv.
    Þetta þykir öðrum ólíkleg rök. Hér sé allt mest og best og hingað hljóti að flykkjast fólk vegna bágs efnahags og atvinnuleysis aðildarríkjanna. En staða þjóðarskútunnar okkar mun þó miklu um það ráða hversu freistandi það verður fyrir fólk frá aðildarríkjunum að setjast hér að.
    Við höfum auðvitað í áranna rás haft fjölda útlendinga í vinnu. Aðallega höfum við haft útlendinga í vinnu í fiskvinnslu og við höfum líka haft útlendinga í vinnu í heilbrigðisstéttum. Við höfum yfirleitt mjög góða reynslu af þessu fólki. Ég held að menn séu sammála um það. Alla vega er mjög góð reynsla af því fólki sem hefur verið í fiskvinnslu og yfirleitt því fólki sem hefur verið í heilbrigðisþjónustunni.
    Samt verður það að viðurkennast að upp á síðkastið höfum við fengið fólk sem er með réttindi, t.d. hjúkrunarfræðimenntun, en hefur alls ekki sambærilega menntun á bak við sig og íslenskir hjúkrunarfræðingar. Það hefur oft og tíðum orðið til þess að viss vandamál hafa skapast á sjúkrahúsum. En nú erum við að viðurkenna það að þessir aðilar hafi alveg sama rétt og Íslendingar ef þeir hafa starfsheiti frá sínu landi þó að baki liggi allt önnur menntun. Þetta á við sjúkraþjálfara, meinatækna o.s.frv. Við megum ekki mismuna þessum aðilum.
    Á sama hátt verðum við að taka á okkur alveg nýjar skyldur gagnvart þeim aðilum sem hingað koma til vinnu. Eins og ég sagði áðan þá höfum við verið með fjölda manns í vinnu en við höfum ekki haft neinar skyldur við þetta fólk. Nú höfum við skyldur við börn þessa fólks og ég spyr: Erum við tilbúin að takast þær skyldur á herðar sem við verðum að horfast í augu við? Er skólakerfið tilbúið? Er t.d. dagvistunarkerfið tilbúið o.s.frv.?
    Það kemur upp í huga minn að ekki alls fyrir löngu var grein í Morgunblaðinu eftir Arthur Morthens, formann Barnaheilla, þar sem hann telur að innflytjendabörn á Íslandi séu einangruð vegna skorts á íslenskukennslu og þetta valdi vissum félagslegum erfiðleikum hjá þessum börnum.
    Mig langar að spyrja hæstv. félmrh. af því að hún er í salnum: Er einhver undirbúningur í gangi varðandi það að taka á móti fjölda barna, t.d. í skólum og dagvistun o.s.frv.? Hvernig er félagsleg þjónusta okkar Íslendinga í stakk búin til að taka við þessum útlendingum? Er eitthvað í gangi þar að lútandi? Er verið að vinna að því?
    Hv. 5. þm. Vestf. kom inn á það áðan að hann taldi að sveitarfélögin í landinu væru ekki í stakk búin til að taka við þeim skyldum sem á þau verða lögð með þessum nýju innflytjendum. Ég er sammála honum um það. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi farið fram viðræður við fulltrúa sveitarfélaga um það hvaða undirbúningur sé í gangi varðandi væntanlegan samning.
    Mínir fyrirvarar eru kannski mjög ólíkir þeim fyrirvörum sem hv. 5. þm. Vestf. var með áðan. Hann hafði mjög miklar áhyggjur af gildissviði frv. hvað varðar opinbera starfsmenn. Ég trúi því og treysti sem hefur komið fram í þessum viðræðum, bæði í nefndinni og á hinu háa Alþingi, að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna breytist ekki við þennan samning. Það eru þau svör sem við höfum fengið og ég treysti því að þau séu sönn. Ég veit að áhyggjur hv. þm. eru vegna þess að opinberir starfsmenn

hér eru ekki það sama og t.d. opinberir starfsmenn í Bretlandi. Það kann að vera að við eigum eftir að fá á okkur kærur varðandi þetta. En mér finnst það samt ekki mjög líklegt og það er kannski ekki sá þröskuldur sem ég hræðist mest.
    Hv. 5. þm. Vestf. talaði líka um forgangsréttarákvæðin og neikvætt félagafrelsi. Ég hafði sömu áhyggjur til að byrja með og hv. 5. þm. Vestf. Mér fannst þetta mjög laust í böndunum en eftir að Ari Skúlason kom til okkar í nefndinni fannst mér hann sannfæra okkur um að þarna væri ekki mikið að óttast. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm., en mér fannst samt sem áður að þau rök sem hann færði fram fyrir okkur í nefndinni væru þess eðlis að þarna væru ekki stórar hættur á ferðinni. Samt sem áður fannst mér þau rök sem hv. 5. þm. kom með áðan eiga fullan rétt á sér. En ég held að það sé alrangt hjá 5. þm. Vestf. að markmið atvinnurekenda almennt sé að mola niður verkalýðshreyfinguna. Ég held að eftir því sem verkalýðshreyfingin er veikari þeim mun veikara verði atvinnulífið og það sé styrkleiki atvinnulífsins að hafa sterka verkalýðsforustu. Ég þykist þekkja það af eigin reynslu að eftir því sem verkalýðsforustan er sterkari þeim mun sterkari grunnur er undir atvinnulífið.
    Minn fyrirvari við frv. er sá sem ég var að kynna áðan að ég er hrædd við að við séum að draga úr menntakröfum almennt til lengri tíma litið. Það getur t.d. komið til að Íslendingar sjái sér hag í því að fara til annarra landa og læra þar sem minni kröfur eru gerðar til menntunar og koma til Íslands með próf og miklu minni menntun á bak við sig en við höfum hingað til gert kröfu um. Þetta óttast ég. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hingað muni koma --- þó það komi kannski ekki inn á þetta frv. beint vil ég geta þess hér --- t.d. spænskir tannlæknar og opna stofu. Þeir hafa svo miklu minni menntun en íslenskri tannlæknar og eru á allan hátt miklu verri tannlæknar, vil ég segja, en pyngja fólksins mun ráða hvort það nýtir þessa kannski ódýru þjónustu.
    Ég hef áhyggjur af þeirri auknu skyldu sem sveitarfélögunum eru lögð á herðar og ég er hrædd um að mörg þeirra séu alls ekki í stakk búin til að takast á við þær varðandi félagslega þjónustu við innflytjendur.
    Ég vil líka geta þess að mér finnst t.d. 6. gr. reglugerðarinnar, sem gerð er tillaga um að fari inn í frv., æðiopin. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ráðning og skráning ríkisborgara eins EES-ríkis í stöðu í öðru EES-ríki skal ekki vera háð neinum skilyrðum varðandi heilsufar, sérþekkingu eða annað það sem gerir honum lægra undir höfði í samanburði við innlenda ríkisborgara sem gegna sama starfi í hinu EES-ríkinu.
    Engu að síður getur ríkisborgari, sem hefur undir höndum persónulegt starfstilboð frá vinnuveitanda í öðru EES-ríki en sínu eigin, þurft að fara í hæfnispróf hafi vinnuveitandinn sett það sem skilyrði með tilboðinu.``
    Þessi grein er mjög opin. Mér finnst ekkert ólíklegt þar sem okkar heilbrigðisþjónusta er talin góð, þó hún sé nú í fjárhagskröggum og við að nokkru leyti í vandræðum með hana, að hingað sækist fólk sem er alvarlega sjúkt til að njóta hér þeirrar heilbrigðisþjónustu sem við höfum. Þó ég ætli ekki að hafa fordóma gagnvart því verðum við að horfast í augu við það að það mun kosta okkur mikla peninga.
    Það vil ég gera að mínum lokaorðum að allt of mikið er talað um að hér verði engar breytingar. Við gerðum að gera okkur grein fyrir og vera í stakk búin ef við samþykkjum þennan samning að hér verða miklar breytingar á mörgum sviðum.