Stjórnarskipunarlög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 13:46:00 (2926)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Tveir af fremstu lögfræðingum landsins, dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur og prófessor Björn Þ. Guðmundsson, hafa lagt fram í utanrmn. Alþingis ítarlegar álitsgerðir þar sem þeir sýna fram á það með margþættum rökum að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði stangist á við grundvallarþætti í stjórnarskrá lýðveldisins. Það er athyglisvert að síðan þessir tveir virtu fræðimenn lögðu fram sínar ítarlegu álitsgerðir hefur enginn --- ég endurtek --- enginn íslenskur lögfræðingur treyst sér til þess að leggja fram álitsgerð þar sem röksemdir þeirra eru hraktar. Í álitsgerð dr. Guðmundar Alfreðssonar er að finna veigamikil rök gegn álitsgerð þeirra fjórmenninga sem utanrrh. skipaði á sínum tíma. Það er einnig athyglisvert að enginn þessara fjórmenninga hefur treyst sér til þess að leggja fram á opinberum vettvangi greinargerð þar sem hann reynir að hrekja niðurstöður dr. Guðmundar Alfreðssonar. Það blasir því við að utanrmn. Alþingis hefur fengið tvær veigamiklar álitsgerðir frá þessum lögfræðingum sem ótvírætt sýna fram á það að ekki sé hægt að samþykkja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði nema breyta stjórnarskrá lýðveldisins og einnig að enginn íslenskur lögfræðingur hefur treyst sér til þess að leggja fram álitsgerð þar sem röksemdir þeirra eru hraktar.
    Það er þess vegna afar sérkennilegt að ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi skuli ekki hafa pólitíska burði né málefnalegt hugrekki til þess að takast á við þennan vanda og standa að breytingum á stjórnarskránni svo að hægt sé með óyggjandi hætti að lögtaka samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Við teljum nauðsynlegt, hvað sem líður afstöðunni til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði efnislega, að tryggja það að stjórnraskrá lýðveldisins sé ekki brotin. Því segi ég nei við því að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Það er stjórnskipuleg skylda þeirra alþingismanna sem hafa svarið eið að stjórnarskránni að taka þetta frv. til formlegrar afgreiðslu hér á Alþingi ef ætlunin er að bera samninginn um Evrópskt efnahagssvæði upp til atkvæða hér á Alþingi. Ég segi nei.