Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:33:59 (2943)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Í ítarlegum álitsgerðum sem dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur --- það er eðlilegt að hæstv. utanrrh. hlægi. Það er ósköp eðlilegt. Það er í samræmi við ýmislegt annað. --- Í ítarlegum álitsgerðum sem dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur og Björn Þ. Guðmundsson prófessor hafa sett fram í utanrmn. Alþingis, og utanrrh. hefur enn þá ekki tekist að fá neinn lögfræðing til þess að mótmæla þeim álitsgerðum með formlegum og skriflegum hætti, er sýnt fram á það með óyggjandi rökum að XI. kafli þessa frv., verði hann samþykktur hér á næstu mínútum, er brot á íslensku stjórnarskránni. Það er nauðsynlegt að vekja athygli hv. þm. á því að ýmsar af þeim greinum sem eru í þessum XI. kafla eru á tvímælalausan hátt brot á grundvallarákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Ef meiri hluti Alþingis samþykkir þennan kafla nú, áður en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er samþykktur hér á Alþingi, þá er alveg ljóst að hvað sem líður örlögum frv. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði væri meiri hluti Alþingis að ganga gegn grundvallarákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar og þar með stefna því í hættu að Hæstiréttur Íslands dæmi þessi ákvæði úr gildi og ónýta alla þá gerninga í viðskiptalífi sem kunni að byggjast á þessum greinum. Ég vil því eindregið vara við því að menn samþykki þennan kafla laganna. Það sem gerst hefur fram að þessu í atkvæðagreiðslunni er mjög breið samstaða um nær allar greinarnar fram að þessum kafla og ég skil ekki hvers vegna menn eru nú á þessari stundu að ganga þessa götu eftir að hafa í höndum þessar álitsgerðir sem ég vék að og áður en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði kemur hér til afgreiðslu.