Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 16:15:29 (2962)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Með þessari tillögu um staðfestingu samninga við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál er lokið a.m.k. að sinni, og lokið algjörlega samkvæmt áliti hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórnar, þeim deilum sem staðið hafa milli Íslands og Evrópubandalagsins um fiskveiðimál og sjávarútvegsmál frá árinu 1976. Það er þess vegna gagnlegt í upphafi þessarar umræðu að rifja upp hverjar hafa verið meginkröfur Íslendinga á þessum langa ferli og þá sérstaklega hverjar voru meginkröfur Íslendinga í upphafi viðræðnanna um Evrópskt efnahagssvæði.
    Í stuttu máli má segja að kröfur Íslendinga hafi verið fjórþættar. Í fyrsta lagi að viðurkennd yrði fríverslun með fisk í samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins. Það merkir að íslenskur sjávarútvegur þyrfti ekki að keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg Evrópubandalagsríkjanna, margháttuð mismunun yrði aflögð, mismunun sem hefur tíðkast í gegnum styrkjakerfi Evrópubandalagsins, svo íslensk fyrirtæki kepptu á jafnréttisgrundvelli við sjávarútvegsfyrirtæki Evrópubandalagsríkjanna. Það var fyrsta meginkrafa Íslendinga að grundvallarskipulag fríverslunar með sjávarafurðir yrði ríkjandi.
    Önnur grundvallarkrafa Íslendinga var að reglan um tollfrjáls viðskipti sjávarafurða yrði viðurkennd á sama hátt og við höfum viðurkennt grundvallarregluna um tollfrjáls viðskipti á vöruframleiðslu Evrópubandalagsríkjanna sem flutt er til Íslands. Sjávarafurðir væru mikilvægasta útflutningsgrein Íslendinga, í raun okkar helsti iðnaðarvarningur, og grundvallarreglan um tollfrjáls viðskipti ætti einnig að ríkja á þessum sviðum.
    Þriðja grundvallarreglan sem Íslendingar hafa sett fram í þessum viðræðum var að fiskveiðfloti Evrópubandalagsins kæmi ekki inn í landhelgi Íslendinga, en ef samkomulag yrði gert um slíkt þá lægi ljóst fyrir að algjörlega yrði um að ræða skipti á jafngildum veiðiheimildum.
    Fjórða grundvallarkrafa Íslendinga var sú að við mundum aldrei fallast á þá skipan að skipt yrði á veiðiheimildum annars vegar og tollalækkunum hins vegar.
    Það er skemmst frá því að segja, hæstv. utanrrh., að í þeim samningi sem utanrrh. var að mæla fyrir hafa samningamenn Íslands og ríkisstjórn Íslands fallið frá öllum þessum grundvallarkröfum. Það er mjög merkilegt þegar litið er yfir þessa 16 ára sögu að sjútvrh. og utanrrh. ríkisstjórnar Íslands skuli mæla með því við Alþingi að það staðfesti samning þar sem engin af þessum fjórum grundvallarkröfum Íslendinga er tryggð. Ég ætla að rökstyðja í stuttu máli, virðulegi forseti, á hvaða hátt það blasir við að engin af þessum kröfum hefur náðst fram.
    Í fyrsta lagi er það viðurkennt af öllum að Evrópubandalagið neitaði að samþykkja grundvallarskipunina um fríverslun með sjávarafurðir í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði eða í tvíhliða sjávarútvegssamningum milli Íslands og Evrópubandalagsins. Þar með munum við áfram búa við það misrétti að Evrópubandalagið sem stofnun og einstök ríki þess munu styrkja sjávarútvegsfyrirtækin hjá sér með gamaldags ríkisstyrkjakerfi í stórum stíl, en íslenski sjávarútvegurinn verður eins og hann hefur orðið hingað til að keppa við frjálsar markaðsaðstæður og enga slíka ríkisstyrki að heiman. Mismununin er algjör Evrópubandalaginu í hag.
    Í öðru lagi er það viðurkennt, held ég af öllum, meira að segja líka hæstv. utanrrh., að Evrópubandalagið hefur í þessum samningum hafnað grundvallarreglunni um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir. Í staðinn hefur bandalagið samþykkt lækkun og niðurfellingu tiltekinna tolla á afmörkuðu sviði og á einstökum sjávarafurðum. Það er auðvitað mikill munur á slíkri afmarkaðri breytingu og viðurkenningu á grundvallarreglunni um tollfrjáls viðskipti. Við höfum t.d. viðurkennt grundvallarregluna um tollfrjáls viðskipti varðandi helstu útflutningsvörur Evrópubandalagsins á sviði iðnaðarframleiðslu. Þeir samþykkja ekki sams konar reglu í viðskiptum varðandi okkar mikilvægustu útflutningsvörur.
    Í þriðja lagi er ljóst að Evrópubandalagið hefur náð þeim árangri að koma flota sínum inn í íslensku landhelgina. Það er ljóst að það hefur náð þeim árangri. Áður var um einstakan samning við Belga

að ræða en nú er hér tillaga um samning við Evrópubandalagið sjálft þar sem lagt er til að floti Evrópubandalagsins fái aðgang samkvæmt ákveðnum reglum og skilmálum sem er að finna í þessum samningsdrögum.
    Áður hafði verið sagt af fjölmörgum forustumönnum íslenskra ríkisstjórna: Við munum ekki samþykkja slíkt nema um sé að ræða jafngildar veiðiheimildir. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur rakið það mjög ítarlega hér. Það er óþarfi að ergja hæstv. utanrrh. með því að endurtaka á Alþingi sigurummæli hans frá því í fyrra þegar hann kom heim ásamt hæstv. sjútvrh. og flutti boðskapinn, sem hann hafði að vísu eftir öðrum, um allt fyrir ekkert og byggðust á hinni frægu langhalakenningu. Það var kenningin um að það væri allt í lagi fyrir okkur Íslendinga að samþykkja þessar veiðiheimildir vegna þess að það sem Evrópubandalagið mundi fá væri langhali. Formaður þingflokks Alþfl. vann það sér til frægðar á þingi og utan að vera líklegast einn af fáum mönnum í þingsalnum sem hafði smakkað þennan langhala. ( ÖS: Þeim hefur fjölgað síðan.) Já, þeim hefur fjölgað síðan vegna þess að það eina sem hefur orðið úr þessu langhalamáli er að veitingahús í Reykjavík hafa boðið réttinn dag og dag en hann hefur hins vegar algjörlega horfið úr þeim fiskveiðisamningi Íslands og Evrópubandalagsins sem lagt er til að Alþingi staðfesti.
    Reyndar hefur það komið fram hjá aðalsamningamanni Íslands, Hannesi Hafstein, að hann hafi þá þegar vitað á þeim dögum þegar utanrrh. var að tilkynna sigurreifur um langhalasamninginn að Evrópubandalagið ætlaði sér aldrei að gera slíkan samning og þá þegar hafi verið komin fram í viðræðum krafan um að þetta yrðu veiðiheimildir sem Íslendingar hafa hagnýtt eingöngu sjálfir. Það er skemmst frá því að segja að í staðinn fyrir þennan langhala er kominn karfi sem tekinn er af fiskveiðikvóta Íslendinga sjálfra. Í staðinn fyrir fiskitegund sem Íslendingar höfðu aldrei nýtt er komin ein af meginfisktegundum sem Íslendingar nýta af auðæfum landhelginnar.
    Hæstv. utanrrh. hefur reynt að halda því fram og reyndar hefur hæstv. sjútvrh. --- mér þykir æskilegt að hæstv. sjútvrh. haldist við í salnum undir þessum umræðum. Ég skil að vísu að þetta er viðkvæmt mál fyrir hæstv. sjútvrh. en ég vil beina því til hæstv. forseta að það verði séð til þess að hæstv. sjútvrh. sé að mestu leyti í salnum við umræðuna --- reynt síðustu daga að taka undir þá kenningu að hér sé um jafngildar veiðiheimildir að ræða. Það er þó alveg augljóst að svo er ekki og það þarf satt að segja ekki að færa mjög ítarleg rök fyrir því. Annars vegar er um að ræða trygga veiði sem Evrópubandalagið fær í sinn hlut. Hins vegar er um að ræða ótrygga veiði á loðnu og ef Íslendingar ná henni ekki getum við óskað eftir fundi til að ræða málið. Hæstv. sjútvrh. hefur reynt að hugga þjóðina með því að aðeins einu sinni á síðustu 20 árum hafi slík tilvik komið upp. Ég held að þróun fiskstofnanna á síðustu missirum ætti að vera hæstv. sjútvrh. tilefni til þess að tala varlega um það að framtíðin verði eins og fortíðin varðandi fiskstofna.
    Hvað fjórða og síðasta atriðið snertir þá er það þannig, hæstv. utanrrh., að fulltrúar Evrópubandalagsins halda því ótvírætt fram að þeir hafi náð í þeim samningum sem hæstv. utanrrh. var að mæla fyrir viðurkenningu Íslendinga á veiðiheimildum gegn tollalækkunum. Það liggur ljóst fyrir og það lá reyndar ljóst fyrir í júlí á þessu ári samkvæmt frásögn fréttaritara Morgunblaðsins hjá Evrópubandalaginu, Kristófer M. Kristinssyni, að yrði samningurinn eins hvað veiðarnar snertir og þá lá fyrir væri það ljóst eins og stendur í fréttinni, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það er hins vegar ljóst að sé samningurinn metinn út frá þeim tollaívilnunum sem Íslendingar eiga í vændum um næstu áramót er verið að viðurkenna tengingu á milli aðgangs að mörkuðum EB fyrir aðgang að fiskimiðum við Ísland. En slík tenging hefur verið frágangssök af hálfu Íslendinga frá upphafi viðræðnanna.``
    Þetta birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 1992. Nú getur hæstv. utanrrh. haldið því fram hér að þetta sé rangt og sjálfsagt gerir hann það. Það breytir því ekki að þetta er skilningur Evrópubandalagsins og því miður er það nú þannig, hæstv. utanrrh., að ef maður lítur yfir þessa 12 mánaða sögu eða svo frá haustinu 1991, þá er það þannig að fiskveiðideild Evrópubandalagsins hefur náð fram sínum grundvallarskilningi þrátt fyrir hæðnisorðin sem hæstv. utanrrh. valdi þeirri deild þegar hann kom frá Lúxemborg á sínum tíma.
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. verði sóttur. ( Forseti: Forseti hefur óskað eftir því að hæstv. sjútvrh. komi á fundinn. Hann mun hafa verið í símanum og ég bað um það að hann kæmi eins fljótt og kostur væri.) Þá ætla ég, virðulegi forseti, að bíða eftir hæstv. sjútvrh. vegna þess að ég get ekki flutt næsta kafla ræðu minnar nema hann sé viðstaddur.
    Virðulegi forseti. Það væri almennt til að greiða fyrir þingstörfum ef báðir hæstv. ráðherrar væru viðstaddir umræðuna. Nú er hæstv. utanrrh. hins vegar farinn úr salnum svo ég verð enn að gera hlé á ræðu minni. ( Forseti: Forseti gerir ráðstafanir til að fá hæstv. utanrrh.)
    Virðulegi forseti. Ég kýs frekar að bíða í sæti mínu eftir því að ráðherra komi í salinn. Ég óska eftir því að það verði gert hlé á umræðunni þar til utanrrh. má vera að því að vera við umræðuna. ( Forseti: Hv. þm. er heimilt að setjast í sæti sitt á meðan hæstv. utanrrh. er sóttur.)
    Virðulegi forseti. Ég vil segja við þá tvo ráðherra sem nauðsynlegt er að séu við þessa umræðu að það var óskað eftir því á fundi í gær með forustumönnum flokkanna og formönnum þingflokkanna að reynt væri að greiða fyrir afgreiðslu mála. Það er auðvitað nauðsynlegt að ráðherrarnir sinni umræðunni ef við eigum að taka þátt í því.
    Ég var kominn þar í ræðu minni að ég vildi nefna það, eins og fram kom síðasta vor, að viðræður Íslands og Evrópubandalagsins sigldu í strand og í sex mánuði var ekki talið unnt að halda viðræðum áfram vegna grundvallarágreinings. Utanrmn. Alþingis og sjútvn. Alþingis héldu fundi um þennan ágreining. Á þá fundi komu hæstv. sjútvrh., fulltrúar sjávarútvegsins og ýmsir aðrir aðilar og lýstu því mjög greinilega að grundvallarágreiningurinn snerist um það að krafa þeirra væri að í samningunum yrði um skipti á raunverulegri veiði að ræða en ekki bara heimildum til veiða. Evrópubandalagið neitaði hins vegar að fallast á þá kröfu íslensku viðræðunefndarinnar að um raunverulega veiði yrði að ræða og Evrópubandalagið bar því við að slíkt mundi stangast á við þá sjávarútvegssamninga sem Evrópubandalagið hafði gert. Fram kom á opinberum vettvangi að EB taldi það, svo ég vitni orðrétt í frásögn, ekki koma til greina að semja um veiðiheimildir á grundvelli þeirra hugmynda sem sjútvrh. Íslands hefur sett fram. Þetta kom fram í sérstakri frétt frá fulltrúa Morgunblaðsins í Brussel 19. júlí sl. Hæstv. sjútvrh. Íslands greindi utanrmn. og sjútvn. frá því að ætlunin væri að halda fast við þessar kröfur og þess vegna var ekki lagt í það að halda viðræðufund í sumar og ekki heldur í haust og ekki fyrr en í síðustu viku.
    Hvað gerðist? Það sem gerðist var það að sjútvrh. Íslands bakkaði frá sínum sjónarmiðum, hann hvarf frá þeim. Hann lét gera samning þar sem grundvallarreglan er grundvallarregla EB um veiðiheimildir en ekki raunverulegan afla á móti raunverulegum afla. Það sem er svo hins vegar merkilegt er að hæstv. utanrrh. gengur svo fram á völlinn í Morgunblaðinu 1. des. og gerir stólpagrín að hæstv. sjútvrh., hæðir hann og spottar fyrir að hafa ekki áttað sig á því að það hafi aldrei staðið til að semja um annað en veiðiheimildir. Lítið er nú geð hæstv. sjútvrh. að sitja undir þessu háði og spotti frá hæstv. utanrrh. í grundvallarmáli sjútvrn.
    Hvað segir hæstv. utanrrh. þriðjudaginn 1. des. í Morgunblaðinu þegar samningarnir eru í höfn? Þá telur hann sér óhætt að tala og Morgunblaðið birtir við hann viðtal. Hann segir með leyfi forseta:
    ,,Þessi niðurstaða varð eins og alltaf var við að búast.`` Hann segir meira, virðulegi forseti: ,,Í raun og veru fór aldrei á milli mála, að við vorum þar að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir en ekki að skiptast á veiddum tonnum upp úr sjó. Þetta var því aðeins heimatilbúið vandamál.``
    Sjútvrh. Íslands, Þorsteinn Pálsson, er heimatilbúið vandamál, sagði hæstv. utanrrh. Ég ætla ekki að vitna hér í nýútkomið tímarit, í viðtal við hæstv. forsrh. vegna þess að það er búið að banna það af forsetadæminu að vitna í þess fínu tímarit, það má bara vitna í dagblöðin. ( PP: Hvenær var það gert?) Það var gert í fyrra, hv. þm. Páll Pétursson, af forseta þingsins, Salome Þorkelsdóttur. ( Gripið fram í: Því var mótmælt.)
    Hvað er hæstv. utanrrh. að segja með þessum orðum? Hann er að segja það að annaðhvort hafi sjútvrh. Íslands, Þorsteinn Pálsson, greint utanrmn. og sjútvn. rangt frá síðasta sumar eða þá að hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson hafi ekki haft hugmynd um það um hvað var samið í Óportó því það getur ekki gengið upp að hæstv. utanrrh. hafi rétt fyrir sér og hæstv. sjútvrh. hafi líka haft rétt fyrir sér um hvað samið var í Óportó. En hæstv. utanrrh. hefur ekki lokið flengingu sinni og háðsyrðum gagnvart hæstv. sjútvrh. í þessu viðtali. Hann segir einnig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Og út frá íslenskum hagsmunum er samkomulagið um skipti á veiðiheimildum okkur hagstætt, að því er varðar verðgildi 3.000 tonna af karfa annars vegar og 30.000 tonna af loðnu hins vegar. Og það er alveg tryggt að það er gagnkvæmni í samningnum, því ef hlutur Grænlendinga í veiðiheimildum loðnu verður ekki nægur til að Íslendingar geti veitt þau 30 þúsund tonn, sem EB kaupir af Grænlendingum og lætur okkur í té fyrir karfann, þá hefur það bein áhrif til minnkunar karfaveiðiheimilda EB. Þannig hefur þetta legið fyrir frá upphafi og annað er aðeins misskilningur.``
    Með öðrum orðum er það ekki bara einu sinni sem hann segir að þetta hafi alltaf legið ljóst fyrir. Það er ekki bara tvisvar með því að segja að þetta sé heimatilbúið vandamál heldur einnig í þriðja sinn herðir hæstv. utanrrh. á því að sjútvrh. Íslands hafi ekkert vitað hvað hann var að tala um. Er það furða þó að blaðamaður Morgunblaðsins horfi agndofa á utanrrh. og spyrji í lok þessa viðtals samkvæmt frásögn blaðsins, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þegar blaðamaður Morgunblaðsins spurði Jón Baldvin hvort hann ætti með þessu við að Þorsteinn Pálsson hefði misskilið málið, svaraði hann: ,,Það eru þín orð en ekki mín``.``
    Það er auðvitað alveg nauðsynlegt, hæstv. sjútvrh., að óska eftir því að hæstv. sjútvrh. tjái sig um þetta viðtal strax við 1. umr. málsins því ef það er rétt að hæstv. sjútvrh. hafi misskilið málið frá upphafi og allar viðræður hans við utanmrn. og fulltrúa sjávarútvegsins í sjútvn. séu byggðar á þessum misskilningi, þá er það auðvitað slík brotalöm í meðferð þessa mikilvæga máls að ótrúlegt er. Hæstv. utanrrh. er að segja að hann hafi allan tímann vitað það að Evrópubandalagið ætti að ná þessu fram, frá því hafi verið gengið í Óportó. Síðan hafi bara þurft tíma til þess að fá sjútvrh., utanrmn., sjútvn., fulltrúa sjávarútvegsins á Íslandi og nú þingið til þess að fallast á þennan skilning EB sem utanrrh. undirritaði í Óportó. Ég verð að segja eins og er að það er merkileg smekkvísi hjá hæstv. utanrrh. að segja í þessu viðtali um samstarfsráðherra sinn að hann hafi bara ekki haft hugmynd um hvað hann var að tala í alla þessa mánuði. Ef maður orðar það á hversdagslegu máli er hæstv. utanrrh. að segja að hæstv. sjútvrh. hafi bara verið eins og asni í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Það er þess vegna alveg ljóst að hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, féllst á það í Óportó samkvæmt eigin orðum að kröfur Evrópubandalagsins um veiðiheimildir á móti veiðiheimildum en ekki raunverulegan afla á móti raunverulegum afla yrði grundvöllur samninganna. Allt annað er

að hans dómi heimatilbúið vandamál.
    Margt fleira mætti segja um þennan samning. Ég vil aðeins minna á það að forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Jakob Jakobsson, sagði fyrr á þessu ári að samningur af því tagi sem nú liggur fyrir þinginu geti ekki verið annað, svo ég noti hans óbreyttu orð, með leyfi forseta: ,,hrein undanlátssemi og uppgjöf af okkar hálfu.``
    Sá samningur, sem hér liggur fyrir, er því að dómi æðsta forsvarsmanns hafrannsókna á Íslandi, sérstaks stjórnanda virtustu vísindasstofnunar Íslendinga á sviði sjávarútvegsmála, Hafrannsóknastofnunar, hrein undanlátssemi og uppgjöf. Í þessari grein sagði Jakob Jakobsson, með leyfi forseta:
    ,,Ef semja á um gagnkvæm veiðiréttindi verðum við að sjálfsögðu að hætta að tala um þessa loðnuvitleysu og hafa manndóm í okkur til að krefjast sams konar veiðiréttinda í lögsögu bandalagsins og það fær hér. Ég fæ ekki betur séð en allt annað sé hrein undanlátssemi og uppgjöf af okkar hálfu.``
    Það er greinilegt að hæstv. sjútvrh. hefur ekki mannað sig upp í það að taka af skarið og fylgja ráðleggingum forstöðumanns Hafrannsóknastofnunar heldur hefur hann haldið áfram þessari loðnuvitleysu og gengið þá götu með hæstv. utanrrh., að binda hana í samninginn.
    Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. var óvenjuhógvær í framsöguræðu sinni. Hann hefur yfirleitt hingað til í umfjöllun sinni um sjávarútvegssamskipti sín við Evrópubandalagið lifað á hinni miklu sigurstund. Hér var hann óvenju hógvær og ég virði það við hann því að hann er að koma til Alþingis með samning, með lokaniðurstöðu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í sextán ára deilum Íslands og EB. Niðurstaðan er skýr. Ísland hefur ekki fengið fríverslun með fisk. Ísland hefur ekki náð fram grundvallarreglunni um tollfrjáls viðskipti með sjávarfurðir. Ísland hefur samþykkt að hleypa flota Evrópubandalagsins inn í fiskveiðilögsöguna án þess að það sé byggt á jafngildum veiðiheimildum. Og Ísland hefur samþykkt hvað ríkisstjórnina snertir samning sem Evrópubandalagið túlkar sem sigur fyrir sig í sextán ára deilu um veiðiheimildir á móti tollalækkunum. Ég vona, virðulegi forseti, að um þetta mál verði ítarleg umræða á Alþingi og að hæstv. ráðherrar bæði við 1. umr. og við umfjöllun málsins í utanrmn. hafi einurð og manndóm til þess að taka af hreinskilni á þessari niðurstöðu því hún er vægast sagt harla óglæsileg.