Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 16:47:15 (2963)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að biðja um að hæstv. sjútvrh. verði hér viðstaddur. Einhvern veginn vill það svo til að ég bind frekar vonir við að spjalla við hann en hæstv. utanrrh. Það er mitt persónulega mat. Ég held jafnframt að það væri afskaplega jákvætt ef hæstv. utanrrh. sæi sér fært að hlýða á umræðuna, einkum fyrir hádegi.
    Ég hef þá mál mitt og það ekki af litlu tilefni. Það hefur nefnilega loksins gerst að undirritaður hefur verið sjávarútvegssamningur, fiskveiðisamningur á forsendum Evrópubandalagsins. Ég skil það svo sem ósköp vel hvers vegna hæstv. utanrrh. taldi það alveg koma til greina að ætla Alþingi að afgreiða EES án þess að þessi samningur lægi fyrir. En það hefur verið þrýstingur á að slík vinnubrögð væru ekki nothæf eða möguleg. Væntanlega hefur það átt þátt í því að á einhverjum átta mínútna fundi var rubbað upp því sem þegar var komið á blað og nánast engu öðru.
    Þessi samningur eykur ekki hróður ríkisstjórnarinnar í þessu samningaferli öllu saman. Ég er ekki að segja að samningamenn okkar hafi staðið sig illa. Þeir áttu hins vegar við ofurefli að etja og því sitjum við nú uppi með sjávarútvegssamning sem tryggir okkur ekki einu sinni þá gagnkvæmu veiði sem réttlæta átti opnun landhelginnar fyrir skipum Evrópubandalagsins. Við höfum núna fengið forsmekkinn af því hvernig er að semja við Evrópubandalagið um veiðar í íslenskri landhelgi. Fram undan eru árlegir samningar og hver verður samningsstaða okkar ef við færum inn í EES? Ég spyr og ég held að þetta sé spurning sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér.
    Því miður er afstaða Evrópubandalagsins til okkar eitthvað í ætt við það sem ein ágæt kona lýsti eitt sinn fyrir mér er hún greindi frá samskiptum dóttur sinnar lítillar við nýbakaða foreldrana. Þessi kona sagði um dóttur sína að hún væri afskaplega stillt og meðfærileg ef þau, foreldrarnir, hlýddu henni alltaf strax og skilyrðislaust. Ég sé ekki annað en við getum átt býsna góð samskipti við Evrópubandalagið á þessum samskiptagrunni. Svo framarlega sem við höldum okkur innan þess ramma sem Evrópubandalagið treystir sér til að skammta okkur sé ég ekki annað en þar eigi allt að geta gengið snurðulaust fyrir sig. Ég ítreka að ég er ekki að segja þetta okkar samningamönnum til hnjóðs. Ég er ekki að gera lítið úr því sem hefur áunnist. Mér finnst það einfaldlega vera komið svo að við getum metið hver árangurinn er og árangurinn er sá að Evrópubandalagið getur unað vel við sitt. Að fengnum þessum fiskveiðisamningi er ég afskaplega hrædd um að við höfum málað okkur út í horn.
    Ég mun, eins og aðrir ræðumenn, líta örlítið yfir farinn veg. Sá vegur er betur þekktur en það sem fram undan er. Ég held líka að það sé nauðsynlegt til þess að skjóta stoðum undir þær fullyrðingar sem ég kem hér með því að mér finnst alls ekki verjanlegt að henda þessu bara út í loftið. Það er ég ekki að gera.
    Til að byrja með þá eru allir sammála um að það komi ekki til greina að opna íslensku landhelgina fyrir skipum Evrópubandalagsins. Ég tel að opnun landhelginnar verði óheillaspor ef við álpumst til að stíga það.
    Sú var tíðin að núv. hæstv. sjútvrh. var á sömu skoðun og rökastuddi það býsna vel. Ég kem nánar að því á eftir. Það læðist að mér sá grunur að hann sé enn sama sinnis en að hann hafi á einhvern undanlegan hátt sogast með í ólgandi iðuna án þess að vilja það. Þá er það spurningin á hvaða strönd maður nær landi og ég held að hún hafi ekki verið sú besta. Ég tek þessa straumiðulíkingu að gefnu tilefni og mun víkja nánar að því þar sem mér sýnist að hin mestu og sterkustu rök fyrir núverandi afstöðu hæstv. sjútvrh. séu að hann þurfi að fylgja þessum straumi sem hann hefur lent í. Það er hans mat. Það er ekki mitt mat. Ég held að stjórnmál snúist um það ekki síst að reyna að breyta í þá átt sem maður vill sjá hlutina þróast í stað þess að taka því sem að höndum ber og brosa þótt það sé sjálfsagt gott að einhverjum skátasið eða pollíönnusið að taka öllu afskaplega vel.
    Þessum kafla lauk og næst var talað um að það hefði alls ekki verið opnun landhelginnar sem var aðalmálið heldur það að við leyfðum ekki einhliða veiði Evrópubandalagsins í landhelgi okkar. Gagnkvæmar veiðiheimildir voru orð dagsins og við áttum að komast útlátalaust út úr því dæmi með því að leyfa EB að veiða langhala hjá okkur. En auðvitað sættir Evrópubandalagið sig ekki við neina óvissa veiði eða pappírsfisk sér til handa þótt þetta sama Evrópubandalag skammti okkur loðnuveiðiheimildir sem er ekki einasta sýnd veiði en ekki gefin heldur líka fiskur sem við hefðum hugsanlega fengið hvort sem var. Á þetta hefur raunar verið bent enn og aftur. Ég held að ég verði nú að hressa upp á minni manna og vitna í orð Jakobs Jakobssonar fiskifræðings sem með nístandi háði stuðlaði að því að menn tóku á sig rögg og sögðu að auðvitað kæmi ekki annað til greina en að við semdum um gagnkvæma veiði en ekki bara mistryggar heimildir.
    Ég minnist þess ekki fyrr en eftir að Jakob fór að sýna fram á alla þessa vitleysu sem viðgengist hefur að farið hafi verið að tala um að það væri ekki aðeins verið að semja um heimildir heldur væri verið að semja um gagnkvæma veiði. Þetta varð á ákveðnu tímabili grundvallaratriði. Við vitum hvernig það fór.
    Svo ég vitni í ræðu sem Jakob Jakobsson hélt í vor held ég að þar sé í hnotskurn sú háðulega saga sem liggur að baki þessum samningum sem við sitjum uppi með. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að taka brot úr þessari ræðu:
    ,,Sl. sumar buðu Íslendingar skipti á langhala og loðnu. Hvorki höfum við nýtt langhalann né Evrópubandalagið loðnuna svo látið var líta út sem hér væri um ,,pappírsviðskipti`` að ræða. Nú er staðan hins vegar gjörbreytt. Með kröfunni um alvöruveiðiheimildir er Evrópubandalagið í raun að krefjast aðgangs að auðlind gegn tollalækkunum. Þetta ætti öllum að vera ljóst vegna þess að bandalagð hefur ekki haft nokkurn hug á að nýta þær loðnuheimildir sem það hefur keypt af Grænlendingum sl. fimm ár. Þessar heimildir hafa því sjálfkrafa komið Íslendingum til góða, enda var hlutur okkar í aflanum sl. loðnuvertíð 91,2% í stað þeirra 78% sem núgildandi samningur Grænlands, Íslands og Noregs segir til um.
    Ef Íslendingar ætla í raun og veru að semja um gagnkvæm veiðiréttindi og afsala sér 3 þús. tonnum af karfa nær auðvitað engri átt að þiggja í staðinn loðnu sem við fengjum hvort sem væri. Til að kóróna alla vitleysuna stendur í ágripi samningsdraganna frá 22. okt.`` --- það er á síðasta ári --- ,,að í stað 3 þús. karfaígilda fái Íslendingar 30 þús. tonn af loðnu í grænlenskri lögsögu (Greenland Waters) en eins og alþjóð þá veit hefur ekki veiðst loðnubranda við Grænland í nokkur ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Löngu er vitað að uppeldisstöðvar loðnunnar eru að hluta til við Austur-Grænland. Það hefur því verið kappsmál Íslendinga að hindra loðnuveiðar þar. Þetta hefur í raun tekist að undanförnu. Samningsdrögin gera hins vegar beinlínis ráð fyrir því að slíkar veiðar verði stundaðar og það af hálfu Íslendinga þótt skaðlegar séu. Hvers konar hringavitleysa er þetta?
    Ef semja á um gagnkvæmar veiðiheimildir verðum við að sjálfsögðu að hafa manndóm í okkur til að krefjast sams konar veiðiréttar í lögsögu bandalagsins og það fær hér. Allt annað er hrein undanlátssemi og uppgjöf af okkar hálfu.
    Alkunnugt er að Norðmenn verða að láta umtalsverðar þorskveiðiheimildir af hendi samkvæmt EES-samningsdrögunum. Viðurkennt er að EB fær þar aðgang að auðlind gegn því að lækka tolla. Annað er látið í veðri vaka hér þótt í ljós hafi komið að við erum í raun að láta undan kröfum Evrópubandalagsins á sama hátt og Norðmenn.``
    Ég tek það fram að nú hefur okkur náðarsamlegast verið leyft að veiða þessa loðnu okkar í okkar eigin lögsögu ef við viljum. Það er ekki gerður greinarmunur þar á. Mikil náð og miskunn er það.
    Framhaldið þekkjum við öll og nú er komið á daginn að okkur er ekki ætlað annað en að fá heimildir án tryggs fiskirís en Evrópubandalagið er reiðubúið að ræða málin ef okkar loðnuveiði yrði á pappírnum einum saman. Þakka skyldi.
    Áður en lengra er haldið finnst mér nauðsynlegt að fá skýringu á nokkru misræmi sem er á skilgreiningu þingskjala annars vegar og fjölmiðla sem byggja á fréttatilkynningu frá utanrrn. hins vegar. Ég vona að hæstv. utanrrh. sé að hlusta því kannski á hann einhverjar skýringar í fórum sínum. Þessar skilgreiningar varða það hvað sé loðnubrestur og sá loðnubrestur sem nauðsynlegt er að bregðast við. Það er nauðsynlegt bæði fyrir okkur og Evrópubandalagið að fá á hreint hvort það eru þingskjölin sem við fjöllum hér um eða fréttatilkynningar frá utanrrn. Það gæti verið gott að vita það fyrir víst svo að Evrópubandalagið geti ekki bara veitt karfann sinn eins og ekkert sé þó að við fáum ekki loðnubein úr sjó.
    Samkvæmt þeim þingskjölum sem ég hef í höndum eru allnokkur ákvæði sem varða þetta mál. Svo ég geri mig ekki seka um að skjóta neinu undan ætla ég að rekja þetta. Það er ekki margt en það er

á nokkrum stöðum það sem þarna er um að ræða. Ég sé ekki að textum beri alls kostar saman, fréttatilkynningum annars vegar og þingskjölum hins vegar. Í fyrsta lagi vil ég vísa, með leyfi forseta, til bréfs frá bandalaginu sem er hluti af bréfaskiptunum sem mikið hefur verið vitnað til hér. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að hvor aðili geti úthlutað hinum aflaheimildir í fiskveiðilögsögu sinni skal ljúka gerð sjávarútvegssamningsins milli Íslands og bandalagsins eins fljótt og auðið er og talsvert fyrir 31. des. 1992. Sá samningur skal einnig hafa að geyma ákvæði um þau skilyrði sem eiga að gilda um nýtingu aflaheimildanna. Meðal þeirra yrðu að út yrði gefinn takmarkaður fjöldi veiðiheimilda til togara, annarra en verksmiðjutogara, fyrir tiltekið tímabil ársins (júlí--desember), tilkynnt yrði um komu í og brottför úr fiskveiðilögsögu hins aðilans, farið yrði eftir öllum fiskverndunarreglum sem gilda um skip hins aðilans, þar með talin yrði skuldbindingin um að hafa eftirlitsmann um borð á kostnað skipsins meðan það er innan fiskveiðilögsögu hins aðilans ef þess er krafist af þeim aðila.``
    Nú ætla ég að bíða þangað til það verður hljóð í salnum. --- Næsta atriði um þetta sama mál er í fskj. 2, samningi um fiskveiðimál og lífríki hafsins milli lýðveldisins Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu. Það er 4. gr., með leyfi forseta:
  ,,1. Aðilar skulu árlega hafa samráð um úthlutanir á veiðiheimildum til hvors aðila með það í huga að ná ásættanlegu jafnvægi í samskiptum sínum á sviði fiskveiða.
    2. Hvor aðili skal veita fiskiskipum hins aðgang til að veiða upp í heimildir sem úthlutað kann að verða í þeim viðræðum sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.``
    Ég ætla ekki að rekja það en þetta er í þskj. sem öllum er aðgengilegt. Síðan segir í 3. tölulið 6. gr.:
    ,,Hvor aðili skal gefa hinum aðilanum upplýsingar með hæfilegum fyrirvara þegar gerðar eru nýjar ráðstafanir eða ný skilyrði sett um fiskveiðar á svæði innan fiskveiðilögsögu hans.``
    Eitt enn þykist ég hafa fundið og ég held því hér til haga. Það er í viðauka A, 1.2. og 2., með leyfi forseta:
    ,,Aflaheimildir íslenskra fiskiskipa úr aflaheimildum sem úthlutað er til Evrópubandalagsins á grundvelli samnings þess við ríkisstjórn Danmerkur og heimastjórn Grænlands um fiskveiðar.
    Aflaheimild nemur 30.000 tonnum af loðnu, til veiða mánuðina janúar til apríl.
    Um öll mál er tengjast framkvæmd þessa samkomulags --- þar á meðal ef ófyrirséðar aðstæður koma upp --- skulu aðilar hafa samráð sín á milli, ef annar hvor þeirra óskar eftir því.
    Ef svo ber undir að lækka verður aflaheimild annars samningsaðilans, vegna ófyrirsjáanlegra líffræðilegra ástæðna, skulu samningsaðilar tafarlaust ræðast við í þeim tilgangi að koma aftur á jafnvægi.``
    Hvers vegna er ég að rekja þetta allt og stinga engu undan? Það er eingöngu vegna þess að ég fæ þetta ekki alls kostar til að koma heim og saman við fullyrðingar sem ég sé síðan í fréttatilkynningu frá utanrrn., nr. 92, sem Morgunblaðið hefur augljóslega byggt á laugardaginn 28. nóvember og er því öllum aðgengileg. Þar stendur miklu ítarlegri texti svo að ég taki það nú fram. Með leyfi forseta:
    ,,Verði loðnuveiðar ekki leyfðar á einhverri vertíð vegna slæms ástands stofnsins, eins og gerðist á vertíðinni 1982/1983, mun Evrópubandalagið ekki fá neinar karfaveiðiheimildir á Íslandsmiðum.
    Sé leyfður heildarafli úr loðnustofninum minni en svo að 11% hlutdeild Grænlendinga í stofninum nægi til að tryggja Evrópubandalaginu 30.000 tonn til að framselja til Íslendinga mun karfakvóti bandalagsins það árið skerðast hlutfallslega sem því nemur.
    Þurfi að lækka útgefnar aflaheimildir vegna ófyrirséðra líffræðilegra aðstæðna skulu aðilar þegar hittast til að koma aftur á jafnvægi milli aflaheimilda.``
    Virðulegi forseti. Það er bara þetta seinasta sem ég kannast við, það er þetta með að ná jafnvægi. Hitt hef ég ekki fundið og því spyr ég nú:
    Eru þessi ákvæði til skjalfest, staðfest og viðurkennd sem sameiginlegur skilningur beggja þjóðanna og ef svo er, hvar er það þá skráð? Varla dugar fréttatilkynning eða eru það þær sem gilda sem skýringargögn í milliríkjasamningum? Ef þessi ákvæði er að finna annars staðar af hverju hef ég þau þá ekki í höndum? Ég tek það fram að ég hef leitað en það getur vel verið að það hafi verið léleg leit hjá mér. Tíminn hefur ekki verið mjög langur en mig grunar að fleiri þingmenn hafi orðið fyrir því sama og ég, að finna ekki þessi atriði annars staðar en í fjölmiðlum og fréttatilkynningum. Ég spyr og ég ætlast til svars. Ég vil líka fá að vita hvaða gildi sá texti sem hér er vísað til hefur. Mér finnst sérkennilegt ef þetta hefur ekki skotið upp kollinum hér hjá okkur. Þetta hafa greinilega átt að vera trompin sem teflt er fram en komu þau úr stokknum sem spilað var með í þessari átta mínútna vist á föstudaginn. Eða voru þau bara í vasanum, rassvasanum úr allt öðrum stokk? Ég lít ekki svo á að þetta séu einhver trygg tromp. Ég er nú það gætin manneskja að ég vil ekki þurfa að treysta á það sem maður kallar í spilamennsku hunda í þeirri félagsvist sem maður spilar endrum og sinnum. Það er hægt að vinna slag á hundana en það er ekki hægt að treysta því.
    Ég gat þess hér áðan að ég teldi það óheillaspor að opna landhelgina okkar fyrir veiðum skipa Evrópubandalagsins. Ég hef áður bent á það í þessum stól að þessi opnun getur orðið upphafið að auknum þrýstingi á miðin okkar, þrýstingi sem ég tel að við megum ekki við. Hér er við öflugt bandalag að eiga sem er þekkt af ýmsu öðru en lipurð í samningum, svo ég segi það bara hreint út. Ég held að það dugi

að nefna hér eitt lítið orð, GATT, til þess að rökstyðja það að þetta er bandalag sem hefur oft þótt býsna fast fyrir. Og við Íslendingar, 260 þúsund sálir, eigum ekki að vera með neina sjálfsblekkingu í þessu sambandi.
    Einn EES-andstæðingur í Noregi sagði mér sögu, ef hv. þm. hafa tóm til að hlýða á í kyrrð --- þetta skvaldur er ekki mjög þægilegt. Það var norskur EES-andstæðingur sem tók gott dæmi er hann var að tala um áhrif Noregs innan Evrópu en hann sagði þá sögu af gömlum manni sem galopnaði gluggana sína í bitru frosti að konan hans hefði ekki verið par ánægð með þetta og sagt að það kæmi svo mikill kuldi inn. En hann hafði sagt á móti: Já, en hugsaðu þér hvað ég hita upp umhverfið í kringum mig. Ég segi þetta vegna þess að þetta var mat þessa norska EES-andstæðings á stöðu Norðmanna. Þeir voru hitinn þarna inni og þeim var náttúrlega ætlað að hafa svona geypileg áhrif á frostið og fimbulveturinn fyrir utan.
    Ég verð líka að taka það fram og halda því enn og aftur til haga hér að það er álit þeirra þingmanna Evrópuþingsins sem ég hef átt kost á að spyrja hreint út um þessi mál að það muni verða knúið mun fastar á þegar fram líða stundir. Ég tek það fram að við erum hér að tala um 10 ára samning sem mun standa, ef við samþykkjum hann, hvort sem við förum inn í Evrópskt efnahagssvæði, ég tala nú ekki um Evrópubandalagið, ég held að þá séum við í allt öðrum málum. En þessi samningur út af fyrir sig stendur sér. Það eru í honum uppsagnarákvæði og heldur lengri tími þar. Þau uppsagnarákvæði eru sjálfstæð, þau tengjast ekki eins og menn vita væntanlega því uppsagnarákvæði sem á tímabili var mikið vísað til um Evrópska efnahagssvæðið og fram undan eru samningaviðræður við þennan sterka aðila sem á mikilla hagsmuna að gæta, þarf að tryggja hagsmuni þjóða sem hafa margvíslega og mismunandi hagsmuni innan síns bandalags. Ég geri ráð fyrir að þrýstingurinn frá þessum þjóðum vegi hugsanlega töluvert þyngra heldur en þrýstingurinn frá okkur Íslendingum innan EES.
    Ekki er þessi samningur alvondur. Mér sýnist í fljótu bragði að ákvæði um eftirlitsmenn eigi að geta dugað. Þótt ég sé kannski ekki svo lítilþægt skinn að mér finnist skemmtilegt að sjá orðalagið: Ísland má krefjast þess að eftirlitsmaður verði ávallt um borð í togara innan efnahagslögsögu Íslands, þá duga þessi ákvæði að mínu mati og ég vona að það mat mitt sé rétt. Hins vegar hef ég efasemdir varðandi það að vigtun og landanir geta verið úti um hvippinn og hvappinn. Við viðurkennum 19 löndunarhafnir frá Færeyjum til Portúgals og ég verð að segja það að ég tel þetta ekki nógu tryggt. Ég ætla ekki að gera neinum neitt upp en ég veit hins vegar að það er ekkert erfitt fyrir útgerð skips á leið frá Íslandsmiðum að losa sig við eftirlitsmann frá okkur í Færeyjum og skjótast svo skottúr og bæta aðeins á koppinn, t.d. á eystra svæðinu sem úthlutað er. Blessuð Landhelgisgæslan okkar, sem hefur verið skorin niður og hefur því miður mátt sæta of litlum fjárframlögum, hefur einfaldlega ekki burði til að fylgjast með landhelginni okkar og við höfum ekki burði til að fylgjast með þessum 19 höfnum eða það finnst mér a.m.k. mjög ólíklegt.
    Við höfum á þessari öld ekki einasta verið að heyja mikla sjálfstæðisbaráttu heldur höfum við gengið í gegnum landhelgisbaráttu sem er okkur öllum kunn. Um þorskastríð hefur ýmislegt verið skrifað og merkust slíkra bóka held ég að hljóti að vera bók sagnfræðingsins Björns Þorsteinssonar, Tíu þorskastríð, þar sem hann rekur söguna raunar alveg aftur til ársins 1400. Í stuttri grein í safnritinu Á fornum slóðum og nýjum, sem gefið var út í tilefni af afmæli Björns Þorsteinssonar 20. mars 1978, kemst hann svo að orði á einum stað, og ég vil gjarnan fá að vitna hér í, með leyfi forseta:
    ,,Eftir tveggja ára frið var fiskveiðilögsagan færð út í 200 mílur og þar með var harðasta hríðin gerð að landhelgisgæslunni íslensku, tíunda þorskastríðið, en því lauk eins og kunnugt er friðaraðgerð 1. júní 1976. En með þeim samningum hurfu breskir togarar á brott af Íslandsmiðum 1. des. sama ár. Þar með er 1. des. orðinn mesti sigurdagur í sögu okkar Íslendinga.``
    Björn heitinn kemur víðar við í þessari stuttu úttekt og það sem hann bendir sérstaklega á er það að við erum í baráttu við mjög sterk öfl og við þurfum að beita öllum þeim þunga sem við getum og við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef þessi 1. des. 1976 á í framtíðinni að vera það sama og Björn Þorsteinsson mat hann, þá þurfum við á öllu okkar að halda. Ég tel að það séum við ekki að gera með því að opna landhelgi okkar með þeim hætti sem við gerum nú.
    Það mætti svo sem alveg taka fyrir svolítið af viðbótaratriðum, t.d. skilgreiningu á verksmiðjuskipum þar sem við höfum látið okkur duga að skilgreina verksmiðjuskip hagstæðar fyrir Evrópubandalagið heldur en Evrópubandalagið sjálft gerir. Ég ætla ekki að fara út í smáatriði hér og nú. Ég treysti því að þessi samningur komi ekki einasta til umfjöllunar í utanrmn. heldur einnig í sjútvn. en sjútvn. hefur alla tíð lagt ríka áherslu á að fá að fjalla um þennan samning þegar hann lægi fyrir.
    Það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðu og annarra sem eru andvígir EES-samningnum að reyna að tala um fyrir fólki og ég skal ekki telja það eftir mér. En ég verð að viðurkenna það að stundum er maður undrandi þegar maður les fyrri texta t.d. nokkurra ráðamanna hér í þjóðfélaginu --- og nú er ég að tala um hæstv. sjútvrh. eins og einhvern kann nú að hafa grunað. Ég gat þess áðan, og ég ætla ekki að svíkja ykkur um það, að ég ætlaði að lesa úr verkum hans hér örstutta kafla og ég mun gera það, aðeins þó í mýflugumynd. Af nógu er að taka. ( Sjútvrh.: Það er betra að hafa þá lengri en skemmri.) Ég treysti hæstv. sjútvrh. þá til þess að bæta í sjóð verkanna og að sjálfsögðu að færa okkur gleðiboðskap. En honum og okkur hinum til upprifjunar byrja ég hér á umræðu í sameinuðu þingi þann 19. mars 1990. Þá er hæstv. ráðherra að vísu enn í stjórnarandstöðu og á orðastað við hæstv. utanrrh. sem var sá sami þá og nú.

Ég ætla ekki að blanda mér í orðahnippingar þeirra heldur einungis að velja hér út örstutt brot, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það liggur ljóst fyrir að Íslendingar ætla ekki að veita Evrópubandalaginu veiðiheimildir hér eða að gefa eftir rétt sinn til fiskveiðilögsögunnar. Það sjónarmið er að öðlast viðurkenningu smám saman innan Evrópubandalagsins að það verði að virða og viðurkenna þessa sérstöðu Íslendinga.``
    Ég vildi óska að þetta hefði orðið að áhrínsorðum en svo varð ekki. Það er dálítið annað að lesa síðan í Morgunblaðinu núna á laugardaginn að í þessum samningi sem hér liggur nú fyrir hafi flestar okkar ýtrustu kröfur náðst. Ég virði þó hæstv. ráðherra fyrir það að segja ekki allar því að það hefði verið rangt. En hann orðar það sjálfur á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þessum samningi fáum við ýtrustu kröfum okkar fullnægt í öllum atriðum utan einu og þar gerum við málamiðlum. Báðir aðilar láta nokkuð af ýtrustu kröfum sínum. Í heild sýnist mér að þetta sé mjög góð niðurstaða.``
    Ég er ekki alveg viss um að ég trúi því að hann hafi meint það að honum þyki þetta góð niðurstaða en ég hef auðvitað ekkert leyfi til þess að kveða upp úrskurð um það. Ég hef hins vegar leyfi til að hafa skoðun á því. Og hvernig skyldi svo standa á því að hæstv. sjútvrh. er kominn í þá stöðu að þurfa að verja samning sem lítur svona út? Þá kem ég aftur að straumvötnunum og líkingu sem hæstv. sjútvrh. hefur verið mjög hugstæð núna að undanförnu og m.a. kom fram í ræðu þann 1. sept. sl. er við vorum að ræða aðaltextann um Evrópskt efnahagssvæði. Þá gefur hæstv. ráðherra þessa skýringu á sinnaskiptum sínum. Hann kallar það breyttar áherslur, ég kalla það sinnaskipti, að hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Skaftfellskir vatnamenn hafa gjarnan sagt að það væri hið mesta óráð að snúa hestum við í miðju straumvatninu og ég held að það væri hið mesta óráð að fara nú að snúa við þegar við erum að ná landi í þessum samningum. En ef hv. þm. hefði á sínum tíma haft skilning á þessum sjónarmiðum, þá hafði hann tækifæri þá. Hann notaði það til annars og allar staðreyndir í þessu máli sem hann ber fyrir sig nú voru ljósar þá.``
    Hann er sem sagt að gera því skóna að aðrir hafi hrundið af stað atburðarás sem þeir hefðu átt að stoppa. Fyrst þeir gerðu það ekki, þá varð hann að fara með straumnum. Við hæstv. ráðherra munum e.t.v. eftir því að hann notaði þessa líkingu einnig er hann var að ávarpa fulltrúa frá Samtökum fiskvinnslustöðva og þá vildi nú svo skemmtilega til að fljótlega eftir að hæstv. ráðherra hafði komið með þessa líkingu, þá stóð upp maður, sem mér skilst að sé bæði hestamaður og hafi lent með í straumiðunni líka, Friðrik Pálsson, og hélt allnokkra tölu um gildi þess að snúa við ef menn væru komnir ógöngur. Ég veit ekki hvort hann gerði sér grein fyrir því til hvers hann var að vísa í þessum málum og ég ætla ekki að gera honum upp neinar skoðanir, en engu að síður vil ég taka undir þessi orð hans og ég veit að hér eru fleiri sem muna eftir þessu atviki.
    Ég er nú langt komin með það mál sem ég tel ástæðu til að hafa hér. Ég verð að viðurkenna það að undir einum kringumstæðum get ég sætt mig við það að beygja mig undir það sem við hér sjáum og það væri ef þjóðin í heild hefði tekið þá ákvörðun að afsala okkur forræði yfir hluta miðanna með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessum samningi. Skýlaus niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um EES og um þennan fylgifisk væri það eina sem fengi mig til að sætta mig við þessa afgreiðslu málsins. Ég held reyndar ekki að þjóðin kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri óhætt en það er önnur saga. En þjóðin er ekki spurð álits á þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fulltrúar sem hafa fengið vald lánað frá þjóðinni til fjögurra ára ætla sér umboðslausir eða alla vega umboðslitlir að skenkja þjóðinni þetta. Ekki lá niðurstaða í líkingu við þessa á kjörborðinu er kjósendur völdu seinast yfir sig ríkisstjórn.
    Það eru allmörg gögn sem ég hef hér í fórum mínum, ályktanir og fleira sem segja mér það og þeim sem kynna sér vilja að ég er ekki ein um þær áhyggjur sem ég hef af þessum samningi og því sem honum fylgir. Mig langar undir lokin að benda á viðvörunarorð úr skýrslu samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi. Þessi viðvörunarorð voru sett á blað 1989 og ég óttast að þau séu enn í fullu gildi. En, með leyfi hæstv. forseta, tíni ég það til úr þessum texta:
    ,,Mikið er talið skorta á að löndunarskýrslur séu áreiðanlegar`` og þá er átt við löndunarskýrslur frá Evrópubandalaginu. ,,Upplýsingar um landanir berast seint eða aldrei. Líklegt er að verðmætari fisktegundir séu frekar ofveiddar. Árið 1983 var farið fram úr 40 af 230 úthlutuðum kvótum og var ofveiðin allt að 50%. Árið 1984 er talið að ofveiðin hafi verið allt að 25% en í einhverjum tilfellum 100--200% en hafa ber í huga að margir kvótar voru aðeins nokkrir tugir tonna.``
    Þetta eru viðvörunarorð sem ég veit að menn höfðu í huga í öllu þessu samningaferli og það eru ýmis ákvæði sem eiga að reyna að hindra að eitthvað slíkt gerist, að það verði tekið meira en leyft er. Ég hef hins vegar nefnt eitt dæmi af mörgum um það hvernig hægt er að svindla á kerfinu hafi menn á annað borð aðgang að því að fara inn í landhelgina okkar með löglegum hætti. Ég er afskaplega hrædd um að við munum seinna súpa seyðið af því að stíga þetta skref, ef við gerum það. Enn er hægt að hætta við.
    En ég vil að lokum vísa í orðskviði danska skáldsins Piet Hein sem er þekktur fyrir að koma auga á lítil atriði tilverunnar sem geta skipt okkur miklu máli. Um það hvað það getur nú verið slæmt að uppgötva hlutina aðeins of seint tekur hann þessa litlu dæmisögu: Það er auðvelt að rista brauð. Maður verður bara að muna það að þegar byrjar að rjúka úr því, þá á maður að hafa það tveimur mínútum skemur í ristinni.

    Við eigum ekki að vera að taka áhættu. Það er kannski í lagi þegar við erum að rista brauð. En það er ekki í lagi þegar við eigum við fiskimiðin okkar.