Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 17:26:19 (2964)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sá samningur sem hér liggur fyrir markar lok á löngu ferli samskipta Íslands og Evrópubandalagsins eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. og hæstv. utanrrh.
    Það er mikið rétt sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. þegar hann orðaði það einhvern veginn á þann veg að hann hefði alltaf gert sér grein fyrir því að slíkan samning yrði að gera í tengslum við samninga um Evrópskt efnahagssvæði. Enda þótt þessi samningur hafi verið lengi á döfinni og nái allt aftur til upphaflegra viðskiptasamninga okkar við Evrópubandalagið er hann nú gerður í þessum tengslum, mælir fyrir um almenn samskipti á sjávarútvegssviðinu og þar að auki skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum og ákveðna framkvæmd við þær veiðar eins og mælt er fyrir um í þeim viðaukum sem samkomulaginu fylgja.
    Ég tel að í heild sinni sé um mjög ágæta samninga fyrir Ísland að tefla og að þá verði að skoða í því ljósi að þeir eru um leið lokaniðurstaða í þeim samningum sem við höfum tekið þátt í um Evrópska efnahagssvæðið og hófust í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hér er um að ræða skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum, annars vegar á 30 þús. lestum á loðnu sem við fáum af aflahlut Grænlendinga í loðnustofninum og hins vegar 3 þús. tonnum af karfa sem Evrópubandalagsskipin fá í lögsögu okkar á afmörkuðum veiðisvæðum og tilteknum hluta ársins.
    Umræður á milli okkar og Evrópubandalagsins snerust lengst af um hvernig eðlilegast væri að tryggja þá gagnkvæmni sem er uppistaða og ívaf í samningnum. Ef ekki er unnt að gefa út kvóta til annars aðilans þá liggur fyrir í þessari niðurstöðu að kvóti hins skerðist að sama skapi. Í öðru lagi ef óhjákvæmilegt reynist að skerða útgefinn kvóta þá gildir sams konar skerðing fyrir hinn aðilann. Í þriðja lagi, og það er sú málamiðlun sem á var sæst, er unnt ef ófyrirséðar aðstæður koma upp, til að mynda ef ekki reynist unnt að veiða útgefinn kvóta, að óska eftir viðræðum um þær aðstæður. Við náðum ekki að fullu kröfum okkar fram. Evrópubandalagið gaf af sinni hálfu það eftir að fallast á slíka málsmeðferð ef aðstæður sem þessar koma upp sem vissulega er ekki mjög líklegt og reynsla undangenginna ára bendir ekki til að líklega muni koma oft fyrir. Á hinn bóginn felur þessi samningsniðurstaða í sér að við höfum með mjög tryggilegum hætti tryggt allt eftirlit með veiðunum og það er vitaskuld höfuðatriði af okkar hálfu og það atriði sem ég veit að bæði hv. þm. og eins þeir aðilar í sjávarútvegi sem helst hafa um þessi mál fjallað hafa lagt mesta áherslu á. Við höfum í samræmi við kröfur okkar náð því fram að takmarka fjölda þessara skipa sem hér mega vera að veiðum samtímis í landhelginni. Þau geta ekki orðið fleiri en fimm og aldrei fleiri en þrjú á öðru veiðisvæðinu í einu. Við höfum fengið kröfum okkar framgengt varðandi eftirlitsmenn á kostnað útgerða um borð í skipunum. Við náðum fram kröfum okkar að því er varðar verksmiðjuskip sem við töldum eðlilegt að koma í veg fyrir að stunduðu veiðar hér. Skip Evrópubandalagsins mega ekki vinna fiskinn á þann veg um borð að hann sé hausaður en á hin bóginn geta þau heilfryst slægðan fisk. Það er álit þeirra sem með þessum samningum fylgdust af hálfu hagsmunaaðila í sjávarútvegi að þetta muni að öllum líkindum leiða til þess að einungis ísfisktogarar verði hér að veiðum.
    Við náðum einnig fram meginkröfum okkar um það að hér yrði um að ræða hreinar veiðiferðir. Öll þessi atriði skipta miklu máli og reyndar höfuðmáli varðandi möguleika okkar til þess að framfylgja strangasta eftirliti með þessum veiðum. Það er eðlilegt og nauðsynlegt af okkar hálfu að setja fram slíkar kröfur því að vitaskuld er það svo að samningar af þessu tagi hljóta að vera viðkvæmir og eðlilegt að við áskiljum okkur rétt til ýtrasta eftirlits.
    Það kom hins vegar fram í máli hv. 1. þm. Austurl. að í þessum samningi fælist ekki að hans mati skipti á jafngildum veiðiheimildum. Nú er það svo að samanburðurinn sem hér er fenginn á 3.000 lestum af karfa og 30 þús. lestum af loðnu byggist á verðmætastuðlum Evrópubandalagsins en þeir verðmætastuðlar sem við höfum gefið út á grundvelli laga eru nokkuð á annan veg og fela í sér að loðnuheimildirnar geti talist nokkru meira virði en karfaheimildirnar. Við verðum þó að líta svo á að um jafngildar heimildir sé að ræða og það er grundvöllur þessarar samningsgerðar. Hv. 1. þm. Austurl. taldi að svo væri ekki með tilvísun í nokkur dæmi af nýlegri sölu á loðnu og hins vegar á karfa. Ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við þær upplýsingar og geri ráð fyrir því að þær séu réttar. Það er líka rétt hjá hv. þm. að verð á karfa erlendis er oftast nær hærra en hér heima en verðmætastuðlarnir sem lögin gera ráð fyrir miðast við verð á heimamarkaði.
    Það er hins vegar óraunhæft að bera saman verð á afurðum verksmiðjuskipa okkar eða fullvinnsluskipa og verð á ferskum fiski. En visslega er rétt að hluti karfans er seldur ferskur á erlendum mörkuðum. Aðalatriðið í þessu máli er þó það að við hljótum að miða við þá verðmætastuðla sem út eru gefnir á grundvelli gildandi laga og hafa verið gefnir út á undanförnum árum á grundvelli þeirra laga sem eru í gildi um stjórn fiskveiða. Markaðsverð getur vissulega breyst frá einum tíma til annars og verið mismunandi frá einum tíma til annars en Alþingi hefur komist að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að gefa út í reglugerð verðmætastuðla á grundvelli reynslu um markaðsverð og það er við þá stuðla sem við miðum þennan samanburð og ég veit að hv. 1. þm. Austurl. þekkir, enda hefur hann í ráðherratíð sinni í sjútvrh. gefið þá út á grundvelli laganna. Ég tel þess vegna alveg út í bláinn að vísa því á bug að hér séu ekki jafngildar veiðiheimildir með tilvitnun í nokkrar sölur að undanförnu. Hér verðum við að taka lengri viðmiðun eins og íslensk lög gera ráð fyrir. Það er því mitt mat að um jafngildar veiðiheimildir sé að ræða og það er reyndar grundvöllur þeirrar samningsgerðar sem farið var af stað með.
    Hv. 1. þm. Austurl. vék einnig að því atriði hvort ekki hefði komið til álita að skipta á veiðiheimildum við einhverja þriðju þjóð þannig að veiðiskip Evrópubandalagsins gætu veitt innan lögsögu þeirrar þjóðar en við leyft skipum hennar að veiða í okkar landhelgi eins og til að mynda Færeyingum. Engar slíkar aðstæður eru fyrir hendi í dag að samningar af þessu tagi hefðu getað tekist. Ef þær aðstæður skapast í náinni framtíð tel ég að það sé fyllilega eðlilegt að taka sjónarmið af þessu tagi upp til viðræðna við Evrópubandalagið. En eins og sakir standa hafa þær aðstæður ekki verið fyrir hendi.
    Þá innti hv. þm. eftir því hvernig farið yrði með þessar veiðiheimildir. Ég hef gert ráð fyrir því að þeim yrði úthlutað á grundvelli gildandi fiskveiðilaga og sé ekki að til þess standi önnur rök. Loðnuskipin fengju þá væntanlega loðnukvótann. Að því er varðar þau skip sem hafa karfaheimildir þá er rétt að minna á að fram til þessa hefur ekki tíðkast varðandi þær takmörkuðu veiðiheimildir erlendra skipa sem fyrir hendi eru að draga þær frá áður en til útdeilingar á kvóta íslenskra skipa kemur. Þær eru mjög takmarkaðar og þess vegna hygg ég að það hafi ekki tíðkast að draga þessar veiðiheimildir frá. Hér er um að ræða enn takmarkaðri heimildir en til að mynda Færeyingar hafa og því sé ég ekki tilefni til þess að bregða út frá þeirri venju sem ríkt hefur í þessu efni um mörg undangengin ár.
    Hv. þm. vék hér síðan að veiðiheimildum Belgíumanna og taldi eðlilegt að segja þeim samningum upp, einkanlega með skírskotun til þess að þau skip væru orðin gömul og líklegt væri að ekki væri hægt að halda þeim úti til veiða hér nema með verulegum breytingum. Þetta umræðuefni hefur áður komið til tals á Alþingi. Ég minni á að á þinginu í fyrra vék hv. 17. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþfl., að þessu máli og innti mig þá eftir því hvort ég teldi ekki rétt að segja þessum samningum upp og lýsti mjög ákveðinni skoðun af sinni hálfu að það skyldi gert. Ég svaraði því þá til að ég teldi vel koma til greina að tekið yrði til athugunar að segja samningunum við Belgíumenn upp og ég er enn þeirrar skoðunar að það geti komið til álita.
    Ég er alveg sammála hv. þm. um það að fráleitt væri að færa þennan kvóta yfir á íslensk skip. Á sl. sumri fékk ég fyrirspurn um það frá aðilum hvort slíkt gæti gerst og svaraði því afdráttarlaust neitandi. Ég sé engin lagarök sem leitt gætu til slíkrar niðurstöðu.
    Ég ætla að víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hv. 8. þm. Reykn. Hann lýsti því í ræðu sinni að Íslendingar hefðu gert kröfur í fjórum meginþáttum um fríverslun með fisk, um regluna um tollfrjáls viðskipti, um að Evrópubandalagsflotinn kæmi ekki inn í landhelgina nema á grundvelli jafngildra veiðiheimilda og aldrei yrði fallist á skipti á veiðiheimildum og tollafríðindi. Niðurstaða hv. þm. varð sú að Ísland hefði fallið frá öllum þessum kröfum og það þarf býsna mikla leikfimikunnáttu til þess að geta komist að þessari niðurstöðu að loknu þessu samningaferli. Það er vissulega rétt að því er varðar fyrsta þáttinn, kröfuna um fríverslun með fisk, að henni hafnaði Evrópubandalagið strax í upphafi viðræðnanna og lýsti því yfir að aldrei kæmi aldrei til greina af þess hálfu að ræða um grundvallarkröfuna um fríverslun með fisk. Því var ýtt út af borðinu þegar í stað strax í upphafi viðræðnanna sem hófust í tíð fyrri ríkisstjórnar. Sú ríkisstjórn sem hv. 8. þm. Reykn. átti aðild að féllst á að halda viðræðunum við Evrópubandalagið áfram þrátt fyrir þetta og byggja áframhald viðræðnanna á nýjum kröfum, þ.e. um afnám tolla. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið frágangssök í viðræðum Íslendinga við Evrópubandalagið þá hefði hann á þeim tíma átt að beita sér fyrir því að umræðunum lyki. En þvert á móti tók hann fulla pólitíska ábyrgð á því að viðræðunum var haldið áfram þrátt fyrir þessa neitun Evrópubandalagsins.
    Vissulega er það svo að það er mjög miður að Evrópubandalagið skyldi hafa tekið þessari kröfu á þennan veg. Ég tel hins vegar að fyrrv. ríkisstjórn hafi gert rétt í því á þeim tíma að halda viðræðunum áfram og freista þess að ná sem mestri lækkun á tollum og sem greiðustum aðgangi inn á þennan markað þó að ekki væri á þessum grundvelli. Í samningunum fáum við um 96% tollfrelsi fyrir afurðir okkar. Það er vissulega rétt að að er ekki fullt tollfrelsi. Það er ekki með öllu óskorað tollfrelsi en tollar hafa verið afnumdir af sjávarfurðum í svo verulegum mæli að við getum sagt að í öllum meginatriðum verði þeir fjarlægðir á þeim aðlögunartíma sem samningurinn gerir ráð fyrir.
    Það liggur líka ljóst fyrir eftir að þeim samningum er lokið sem hér eru til umræðu að um er að tefla gagnkvæmni í veiðiheimildum og að við höfum ekki farið inn á þá braut að skipta á veiðiheimildum í staðinn fyrir tolla. Það er því alveg fráleit niðurstaða hjá hv. 8. þm. Reykn. að allar þessar meginkröfur hafi fokið út í veður og vind. Þvert á móti hafa þeir í veigamestu atriðum náð fram að ganga, ekki að öllu leyti og einni var algerlega hafnað strax í upphafi en lýsing hv. þm. er algerlega fráleit og styðst ekki með nokkrum hætti við veruleikann.
    Hv. þm. vék svo að því atriði þeirra samninga sem eru til umræðu og tók lengstan tíma og olli mestum deilum við Evrópubandalagið, þ.e. hvernig bera skyldi saman veiðiheimildirnar og minnti á að viðræðurnar hefðu legið niðri í sex mánuði vegna kröfunnar um að veiði skyldi koma á móti veiði. Nú voru það ýmis önnur atriði sem leiddu til þess að viðræðurnar féllu niður í svo langan tíma en vissulega var þetta eitt af þeim atriðum sem ollu því að viðræðurnar drógust á langinn.
    Hv. þm. vitnaði svo í viðtal við hæstv utanrrh. í Morgunblaðinu frá 1. des. sl. þar sem hæstv. utanrrh. lýsir þeirri skoðun sinni að í reynd hafi verið búið að ganga frá þessu máli í Óportó og samningurinn, sem þar var undirritaður, hafi aldrei gefið tilefni til þess að taka þetta álitaefni upp. Hv. 8. þm. Reykn. orðaði það einhvern veginn svo að þessi yfirlýsing hæstv. utanrrh. væri til þess eins gerð að hafa sjútvrh. að háði og spotti. Nú ætla ég ekki að leggja neinn dóm á það hvað hæstv. utanrrh. hefur haft í huga þegar hann lét þessi ummæli falla en ég veit að bæði ég og hv. 8. þm. Reykn. getum verið sammála um að að upplagi hefur hann snoturt hjartalag.
    Mín skoðun á þessu byggir hins vegar á öðrum rótum. Ég verð auðvitað að gera þá játningu að ég þoli engan samjöfnuð við hæstv. utanrrh. þegar að því kemur að meta niðurstöður samninga. Þegar samningunum var lokið í Óportó mótuðum við þær kröfur sem fram skyldu settar af okkar hálfu um útfærslu á því samkomulagi og þær kröfur voru bornar fram af samninganefnd Íslands undir forustu Hannesar Hafsteins sendiherra.
    Í viðtali sem hæstv. utanrrh. átti í Þjóðarsál Ríkisútvarpsins 10. júní sl. kom þetta álitaefni upp. Einn af viðmælendum hæstv. ráðherra í þeim þætti dró í efa að unnt væri í öllum tilvikum að veiða loðnuna og hæstv. utanrrh. svaraði þá með þeim skilningi sem ég hef stuðst við í málinu fram til þessa. Hann sagði orðrétt í Þjóðarsálinni 10. júní:
    ,,Nú er það rétt sem þú sagðir að hún hefur ekki veiðst á undanförnum árum. Ef að það er hins vegar svo að þessi loðna er ekki veiðanleg þá fellur auðvitað niður hinn gagnkvæmi réttur þeirra, þ.e. ef við fáum ekki þessa loðnu þá fá ekki þeir þessi 3 þús. tonn af karfa þannig að það eru engin óheilindi eða blekkingar í því fólgnar. Þetta eru samningar um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum og þau eru skilyrt.``
    Ég tileinkaði mér þessa skýringu á samningunum í Óportó. Ég var ekki viðstaddur þar og hlaut því að styðjast við mat hæstv. utanrrh. á þeim samningum sem var í samræmi við þessa lýsingu sem fram kemur í Þjóðarsálinni 10. júní en ég verð að biðja hv. þm., þó að ég viti að það sé til mikils mælst, að hafa skilning á því að hæfileikar mínar standa ekki til þess að hafa báðar skoðanirnar á því hvernig efni samninganna í Óportó ber að skilja.