Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 17:51:35 (2965)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hvet landsmenn til að nota Þjóðarsálina sem mest til að koma skilaboðum á milli ráðherranna því að ekki virðist nú af veita að gera það í jafnvel enn meira mæli. En aðeins út af þessu sem hæstv. sjútvrh. sagði að þá kannast ég að sjálfsögðu við þessa verðmætastuðla. Ég tel hins vegar að það eigi ekki að nota þá þegar verið er að meta gildi þessara veiðiheimilda. Ég minni á að ríkisstjórnin túlkaði það þannig vorið 1991 að þessi 3 þús. karfatonn væru samkvæmt skilningi Evrópubandalagsins 2.600 þorskígildi. Og ég tel það fráleitt að meta þetta mál eingöngu út frá stuðlunum hér. Ég er þeirrar skoðunar að loðnustuðullinn sé of hár og hann hlýtur að koma til leiðréttingar. Og því áttu íslensku samningamennirnir að sjálfsögðu að halda til skila þannig að ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um jafngildar heimildir að ræða. Það eina góða við þetta er sú staðreynd að hér er um samning til eins árs að ræða og það hlýtur að verða krafa við endurskoðun hans að þessu verði breytt. Einasta leiðin til þess að ganga úr skugga um það hvort ég hef rétt fyrir mér eða ekki er að spyrja einhverja íslenska útgerðarmenn um það hvort þeir séu tilbúnir til þess að skipta á 3 þús. tonnum af karfa og 30 þús. tonnum af loðnu. Ef einhver gefur sig fram, þá skal ég gjarnan viðurkenna að þarna geti verið um jafngildar veiðiheimildir að ræða en ég leyfi mér að efast um að nokkur þeirra geri það.