Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 17:58:06 (2970)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér líkar nú eiginlega ekki hvernig þessi umræða gengur. Mér finnst að sú snautlega niðurstaða, sem í raun og veru varð, þ.e. sú að Íslendingar færu að kaupa loðnu í þessum samningum sem ekki hefur verið veidd fram að þessu, eigi að vera hér til umræðu ekki síður en hvernig menn bera saman þessar veiðiheimildir á annan hátt. Staðreyndin er nefnilega sú að það hafa ekki veiðst nema 5--6 þúsund tonn að meðaltali á ári af þessari loðnu. Það liggur beinlínis fyrir að Íslendingar eru að játa það á sig að þeir eigi að taka ábyrgð á því að þessi grænlenska loðna veiðist og fram að þessu hafa menn ekki haft neina tryggingu fyrir því. Þess vegna er verið að gefa þarna mikið á milli í raunverulegum veiðiheimildum, þ.e. nýtanlegum veiðiheimildum. Þær hafa ekki verið nýtanlegar nema að þessu leyti. Þess vegna hefðu Íslendingar auðvitað átt að gera kröfur um einhverjar allt aðrar veiðiheimildir en þær sem hafa ekki verið nýttar. Mér finnst það liggja í augum uppi.
    Auðvitað hefur það komið fram á þessum fundi að aðalatriði þessa samnings, þ.e. aðalkrafa Íslendinga, var sett út af borðinu strax í upphafi. Svo getur hæstv. sjútvrh. komið hér kotroskinn og sagt að þetta séu hinir ágætustu samningar. Í sumar mætti hann á fund sjútvn. og sagði að ekki yrði hvikað frá því að fá fisk fyrir fisk í þessum samningum. En hann hefur auðvitað misskilið þetta allt saman í Þjóðarsálinni.