Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:02:12 (2974)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ekki von til þess að góður árangur næðist í þessum samningum Íslands við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál ef eina leið sjútvrh. til þess að komast að því hvað utanrrh. teldi væri að hlusta á hann í Þjóðarsálinni. Eru menn hættir að tala saman um svona mál á ríkisstjórnarfundum? Þegar ég rek það hér að hæstv. utanrrh. hafi í viðtali 1. des. sagt að öll afstaða sjútvrh. frá því í vor hafi verið byggð á misskilningi, þá kemur sjútvrh. hér upp, fer að hæða utanrrh. og segir blákalt að utanrrh. sé tvísaga. Annars vegar hafi utanrrh. sagt hér á Alþingi að það hafi verið samið um þetta allt í Óportó og hins vegar hafi utanrrh. komið í Þjóðarsálina og sagt að þetta ætti að vera raunveruleg veiði fyrir raunverulega veiði og sjútvrh. hafi byggt sinn skilning á ummælum utanrrh. í Þjóðarsálinni. Ég ætla að vona að Ríkisútvarpið endurskoði dagskrá sína og hafi bara opið fyrir Þjóðarsálina lon og don svo að ráðherrarnir hafi einhverja möguleika til þess að komast hvað hver þeirra telur í þessum málum. Það er auðvitað mjög merkilegt að þegar samningurinn liggur fyrir, þá kemur utanrrh. fram á fyrsta degi blaðaútgáfu eftir samninginn og hæðir sjútvrh. og svo kemur sjútvrh. hér og segir: Ég hef ekki sama hæfileika og utanrrh. til þess að túlka alþjóðasamninga --- það skildu auðvitað allir háðið í utanrrh. --- og fer svo að segja að ég hljóti að vita það eins og sjútvrh. að utanrrh. hafi snoturt hjartalag. Pillurnar halda bara áfram að fljúga milli þeirra. Sjútvrh. les svo hér upp úr Þjóðarsálinni hvað utanrrh. sagði í sumar og bætir svo við að hann, sjútvrh., hafi ekki sama hæfileika og utanrrh. til að hafa margar skoðanir á málinu. Er það nú ástand. Þessir menn áttu að gæta hagsmuna Íslendinga í sjávarútvegssamningum við Evrópubandalagið.