Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:48:13 (2983)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í útskrift úr fréttatímum frá 28. nóv. segir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson: ,,Nú er það loksins komið í ljós þegar texti samningsins kemur inn um dyrnar hjá manni seint í gærkvöldi að utanrrh. og sjútvrh. hafa fallist á grundvallarkröfur EB. Hinn nýi samningur gengur út á að það séu eingöngu veiðiheimildir á móti veiðiheimildum en ekki raunverulegur afli á móti raunverulegum afla.`` Með öðrum orðum, hv. þm., sem á sæti í utanrmn., telur sig hafa verið að uppgötva það 28. nóv. sem lá fyrir í skriflegri skýrslu á borðum allra hv. þm. frá Óportó frá 2. maí. Skýrslan lá fyrir, textinn að sjálfsögðu sýndur og ræddur í utanrmn. og fer ekkert á milli mála að þar er í hinum undirskrifaða texta verið að tala um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Og hv. þm. er ágætur enskumaður og veit t.d. hvað orðin ,,catch possibilities`` þýða. Þetta hefur legið fyrir öllum, verið öllum ljóst sem málið kynntu sér þar á meðal væntanlega hv. þm. ef hann hefur viljað virða staðreyndir.
    Að því er varðar þessar fjóra blessuðu mælikvarða þá er ekkert um það að segja annað en það að ekki þýðir að halda áfram að endurtaka rangfærslur. Markaðsaðgangur 96%, eftirstöðvar tolla þannig að sjávarútvegurinn sjálfur metur það ekki markaðshindrun. Í öðru lagi, það er ekki verið að hleypa erlendum aðilum inn í íslenska landhelgi til að sækja þangað einhliða veiðiheimildir og hefur aldrei staðið til. Að því er varðar tvíhliða samninginn er um gagnkvæm skipti að ræða og hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur auðvitað ekkert hrakið í því efni hvað svo sem hann segir um hlutfallslegt verð á loðnu og karfa. Inn í þá umræðu má t.d. leggja að sú staðreynd að þeir mega ekki slægja karfann um borð heldur bara heilfrysta mun hafa áhrif á verðmæti þess afla og það getur enginn fullyrt neitt um endanlegt söluverð á loðnu eftir næstu vertíð.