Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:51:53 (2987)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi leikaraskapur hv. þm. er enn eitt dæmi um málfluting hans sem út af fyrir sig er ekkert um að segja. Ef hann telur sér þetta sæmandi og ef hann telur þetta eitthvert innlegg í þessa umræðu þá hann um það. En það er ekki þessu máli til framdráttar og það er ekki hv. þm. til framdráttar þótt hann setji hér á svið eitthvert leikrit þar sem hann þykist vera að egna okkur, utanrrh. og sjútvrh. saman. Staðreyndin er sú að í þeirri tilvitnun sem hæstv. sjútvrh. fór með og kennd er við Þjóðarsál 10. júní kom það skýrt fram að ég var að tala um gagnkvæmar veiðiheimildir í því orðalagi sem hann las upp sjálfur. Það hefur aldrei farið neitt á milli mála og menn þurfa ekkert að vera að gera sér upp einhvern leikaraskap í því efni. Hv. þm. hafa þessar upplýsingar, þeir hafa þessar skýrslur og þessir textar liggja fyrir. Það þarf engan leikaraskap um málið, ekki neinn.
    Það breytir hins vegar ekki því að ég var ekkert að hafa hæstv. sjútvrh. að háði eða spotti. Staðreyndin er sú að í þeim samningum sem fram hafa farið í sumar var verið að togast á í alvöru um mörg útfærsluatriði samningsins eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra og eins og fram kom í yfirlýsingum Kristjáns Ragnarssonar hér áðan. En eitt af þeim var ekki út af fyrir sig gagnkvæm skipti á veiðiheimildum, það lá fyrir í erindaskiptunum og á borðum allra manna og þarf ekki að setja neitt leikrit á svið út af því.